29.10.1953
Neðri deild: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í C-deild Alþingistíðinda. (2562)

65. mál, friðun rjúpu

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að minna á það í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir, að fyrir 2 árum, ef ég man rétt, var lagt fyrir þessa hv. d., að ég ætla, frv. frá þáverandi hæstv. ríkisstj. um friðun fugla. Þetta frv. um friðun fugla var samið af mþn., sem skipuð hafði verið til að athuga þetta mál. Ef ég man rétt, þá var þessu máli á sínum tíma vísað til hv. menntmn., því að sá háttur hefur verið á, að því er virðist, að fuglafriðunarmál hafi heyrt undir menntmrn., og þess vegna var þetta frv. líka fengið menntmn. til meðferðar hér í hv. d.

Nú mun hafa farið svo um þetta mál þá, ef ég man rétt, að það reyndist vera æði margt, sem þurfti að athuga í sambandi við það, þrátt fyrir þá athugun, sem það hafði fengið í mþn., og menntmn. munu hafa borizt ýmis erindi varðandi þetta mál. Niðurstaðan hygg ég að hafi orðið sú, að n. hafi ekki tekið afstöðu til málsins þá, heldur frestað því, og mun þá hafa verið ætlazt til, að aflað yrði nákvæmari gagna, m. a. umsagnar sýslunefnda og bæjarstjórna.

Nú er mér ekki kunnugt, hvað gerzt hefur í því máli síðan eða hvort þess er að vænta, að frv. um friðun fugla verði lagt fyrir þetta þing. En þar sem nú er lagt fram frv., sem snertir friðun rjúpu, þá sýnist mér eðlilegt, að það mál sé athugað í sambandi við hið almenna fuglafriðunarmál. Ég vil þess vegna leggja til, að þessu frv., sem hér liggur fyrir, verði vísað til hv. menntmn., og vil þá jafnframt vænta þess, að sú hv. n. kynni sér, hvað því máli líður nú, þ. e. a. s. hinu almenna fuglafriðunarmáli, og vil ég þá vænta, að það geti orðið til þess, að af því bærust einhverjar nánari fréttir, áður en þessu þingi lýkur.