29.10.1953
Neðri deild: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í C-deild Alþingistíðinda. (2564)

65. mál, friðun rjúpu

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins láta það koma fram, sem e. t. v. hefur þegar verið getið um hér í umr., að frv. það um fuglafriðun, sem var til meðferðar í þinginu 1951, hefur síðan sætt verulegri athugun, m. a. verið sent til sýslunefnda um land allt, og liggur nú fyrir ásamt ýtarlegum umsögnum þeirra. Þeir menn, sem undirbjuggu fuglafriðunarfrv. á sínum tíma, hafa nú farið yfir þessar umsagnir og í verulegum atriðum tekið tillit til þeirra og samið brtt. á grundvelli þessara umsagna, þó ekki að öllu leyti tekið þær til greina, heldur einungis að því leyti, sem þeir töldu sanngjarnt vera. Ég hef síðan nokkuð athugað þetta og mælt fyrir um, að einstaka lögfræðilegum atriðum frv. væri breytt og sett í betra og skýrara horf en í frv. var, og stendur sú athugun eða meðferð á frv. yfir einmitt þessa dagana. Þegar henni er lokið, þá geri ég ráð fyrir og hef raunar ákveðið að leggja frv. fyrir hv. Alþ. og mun þá væntanlega leggja það fyrir þessa hv. d. Ásamt frv. er þá sjálfsagt að senda þær umsagnir, sem fyrir liggja, hvort sem þær verða prentaðar eða ekki, en þær geta þá verið til athugunar fyrir einstaka þm. og þá n., sem fær málið til athugunar. Tel ég sannast sagt skynsamlegra, að þetta mál, sem nú er til umr., verði afgreitt þannig í sambandi við fuglafriðunina í heild en að sérákvæði verði sett um þá fuglategund, sem ræðir um í því frv., sem hér liggur fyrir. Ég hygg, að það verði ekki um það deilt, að sú kenning fræðimanna, sem þeir skýrðu frá fyrir tveim, þremur árum um, að rjúpan væri þá í örum vexti af eðlilegum ástæðum og samkvæmt náttúrunnar lögmáli, sé rétt og að reynslan hafi staðfest hana, þannig að friðunin hafi í raun og veru miklu minni áhríf á fjölda rjúpunnar en menn að óreyndu skyldu ætla, alveg eins og þeir spá nú, að á næstu árum muni stofninn fara minnkandi, hvað sem allri friðun líður.

Ég vildi taka þessi atriði fram hér til upplýsingar og sérstaklega leggja áherzlu á það, að hvað sem mönnum sýnist um þetta frv., sem nú liggur fyrir, þá verði það þó ekki afgreitt úr n. fyrr en stærra frv. verður lagt fyrir, sem vonandi verður áður en mjög langt um líður, þótt það sé ekki alveg til enn þá.