29.10.1953
Neðri deild: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í C-deild Alþingistíðinda. (2565)

65. mál, friðun rjúpu

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Það voru nú sérstaklega aths., sem fram voru teknar af hv. þm. V-Húnv. (SkG), sem gáfu mér tilefni til þess að segja hér nokkur orð til viðbótar. — Þessi hv. þm. tók fram, að það mundi ekki þurfa nein verndunarlög fyrir lönd einstakra manna, vegna þess að þeir hefðu sjálfir heimild til þess að banna allt rjúpnadráp í þeim. Þetta er út af fyrir sig rökrétt, að allur veiðiréttur fylgir löndum þeirra manna, sem eiga löndin, og við þekkjum nokkur dæmi til þess, að einstakir landeigendur hafa auglýst bann við rjúpnadrápi í sínum löndum, en þess er bara að gæta í þessu sambandi, að bæði eru nú mörg heimalönd nokkuð víðlend og ekki gott að vita um það, ef það væri leyft að skjóta rjúpur í næsta nágrannalandi, hvernig með það er farið, og þar að auki eru afréttarlönd, sem vissar sveitir eiga og ekki er þá mjög mikið hirt um eignarréttinn á; það veit ég, að hv. þm. V-Húnv. og aðrir þm. hafa orðið varir við, bæði varðandi fuglaveiði og fleiri hluti. Þess vegna er það, að þetta frv., sem hér er flutt, er nánast um það að gefa landeigendunum tækifæri til þess að mynda lögbundinn félagsskap um vernd landa sinna, og kemur það ekki að neinu leyti í bága við þau réttindi, að hver einstaklingur, sem er landeigandi að jörð, er líka eigandi að þeirri veiði, sem þar er.

Varðandi það, að þetta frv. eigi að fara í menntmn., þá vil ég alveg mótmæla þeim skilningi, sem þar er fluttur. Enda þótt oft hafi fuglafriðunarmál verið talin sem menntamál, þá er þetta frv. þess eðlis, að það á beinlínis heima í landbn., vegna þess að það eru landbúnaðarmennirnir — það eru sveitahéruðin, sem þarna er verið að gefa tækifæri til þess að vernda sinn eignarrétt með samtökum. Ég vil einnig mótmæla því, sem kom fram hjá hæstv. menntmrh., þar sem hann lagði á það áherzlu, að frv. eins og þetta yrði ekki afgr. fyrr en allsherjarfriðunarlög yrðu afgreidd, því að ég hygg, að um allsherjarfuglafriðunarlög eða breytingu á þeim, þá verði það svo langur tími, sem þarf til undirbúnings þeirri afgreiðslu, að það gæti orðið nokkuð löng bið á því að fá afgreitt þetta litla frv., ef það ætti endilega að bíða eftir þeirri stund.