23.10.1953
Neðri deild: 9. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í C-deild Alþingistíðinda. (2569)

66. mál, sala Hanahóls

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja þjóðjörðina Hanahól í Norður-Ísafjarðarsýslu. Efni þess er einungis það, að ríkisstj. verði heimilað að selja ábúanda þessarar jarðar, Hannibal Guðmundssyni, jörðina fyrir það verð, sem dómkvaddir menn meta.

Ég hygg, að þetta frv. sé í samræmi við þá venju, sem tíðkazt hefur undanfarin ár, að gefa ábúendum þjóðjarða kost á að eignast þær. Hér á hlut að máli mjög dugandi bóndi, sem setið hefur jörðina vel um alllangt skeið, og virðist því allt mæla með því, að honum verði gefinn kostur á að eignast hana.

Frekari ummæli tel ég ekki þörf á að láta fylgja þessu frv. Vil aðeins segja það, að það er mín skoðun, að það sé rétt stefna, að ríkið selji þeim bændum, sem sýnt hafa dugnað og atorku, þær þjóðjarðir, sem þeir hafa setið. Það er áreiðanlega affarasælast fyrir íslenzkan landbúnað, að sjálfseignarbændur séu sem flestir í landinu.

Að svo mæltu vil ég leyfa mér að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.