30.10.1953
Neðri deild: 14. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í C-deild Alþingistíðinda. (2584)

77. mál, atvinnuleysistryggingar

Flm. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 104, er samhljóða frv., sem hafa verið flutt af þm. Sósfl. á þremur undanförnum þingum. Frv. hefur verið flutt að tilhlutan verkamannafélagsins Dagsbrúnar, og tel ég vel farið, að það viðurkennda baráttufélag verkalýðssamtakanna hér í Reykjavík skuli hafa haft forgöngu um þetta mikla hagsmunamál íslenzkrar alþýðu, enda hefur félagið notið til þess fyllsta stuðnings verkalýðssamtakanna um allt land. Það hefur m. a. sýnt sig í því, að til Alþingis hafa borizt á hverju ári frá því fyrst að frv. var flutt fjölmargar áskoranir víðs vegar að um það, að frv. yrði að lögum, enn fremur hafa borizt til hv. Alþ. áskoranir frá þingum Alþýðusambands Íslands um sama mál. Frv. þessu fylgir alllöng grg., sem ég vona að hv. þingmenn hafi kynnt sér ásamt frv., og get ég því orðið stuttorðari en ella um málið. Það eru þó nokkur atriði, sem ég vildi í sambandi við þetta mál benda alveg sérstaklega á.

Það má fullyrða, að um fá hagsmunamál verkalýðsstéttarinnar sé meiri og almennari eining en að komið verði á lögboðnum atvinnuleysistryggingum. Það má vel vera, að einhver ákvæði séu í þessu frv., sem menn geti deilt um, hvort það ætti að vera á þennan veg eða hinn. Hitt eru meðlimir verkalýðssamtakana sammála um, að hina mestu nauðsyn beri til að koma á atvinnuleysistryggingum. Í heilum byggðarlögum og heilum héruðum á landi voru býr verkalýður bæja og kauptúna við óbærilegt atvinnuleysi í marga mánuði ár hvert. Á það þó aðallega við Norðurland, Vestfirði og í flestum kauptúnum og kaupstöðum á Austfjörðum. Að sjálfsögðu er atvinnuleysi mismunandi mikið eða lítið eftir árferði. Þó fullyrði ég, að t. d. á Norðurlandi hefur verið — og þó máske aldrei meira en nú — stöðugt atvinnuleysi í 4–8 mánuði á ári undanfarin ár. Svo alvarlegt er þetta ástand, að hundruð dugandi manna flytja sig búferlum frá kauptúnunum og kaupstöðunum á Norðurlandi suður til bæja og sjávarþorpa hér við Faxaflóa. Valda þar að sjálfsögðu allmiklu þær hernaðarframkvæmdir, sem nú er verið að framkvæma hér á Keflavíkurflugvelli, og fólkið hefur nauðugt, vil ég segja, orðið að fara og vinna þar við, en það fullyrði ég, að íslenzkar verkamannahendur vildu heldur vinna við framleiðslustörf, sem rekin væru af Íslendingum sjálfum, heldur en að gerast vinnumenn hjá erlendu herliði. Það gefur að skilja, hvernig afkoma þessa fólks muni vera, sem hefur ekki atvinnu nema kannske í hæsta lagi hálft árið og tæplega það. Og engan þarf að undra, þó að dugandi fólk uni ekki slíku fyrirkomulagi og leiti til staða, þar sem einhver von er um betri fjárhagslega afkomu. Hinu má þó ekki gleyma, að brottflutningur þessa fólks er hin mesta blóðtaka fyrir byggðarlögin, sem fyrir brottflutningnum verða. Og ekki nóg með það, heldur flytur þetta fólk í flestum tilfellum sárnauðugt í burtu frá fyrri heimkynnum, enda við margvíslega örðugleika að etja í sambandi við slíka flutninga, svo sem útvegun á húsnæði, koma sér í atvinnu og fleira þess háttar.

Mér er það fyllilega ljóst og okkur flm., að atvinnuleysistryggingar geta ekki nema að nokkru leyti bætt upp atvinnuleysisbölið. Sú krafa, sem verkalýðshreyfingin hefur borið fram og mun halda áfram að berjast fyrir, er næg atvinna handa öllum, sem vilja og geta unnið. Þetta er svo sjálfsögð krafa, að enginn mun nú orðið treysta sér til að mæla henni á móti. Hitt er svo annað mál, að fögur loforð stjórnmálaflokkanna fyrir hverjar kosningar um næga atvinnu í þessu eða hinu byggðarlagi hafa reynzt til þessa innantóm orð án athafna í allt of mörgum tilfellum.

Ég gat þess áðan, að verkalýðshreyfingin stæði saman um að krefjast þess, að komið verði á atvinnuleysistryggingum. Í þessu sambandi leyfi ég mér að benda á til viðbótar því, sem ég hef áður sagt, að í desemberverkfallinu í fyrravetur var ein aðalkrafa verkalýðssamtakanna um fullkomnar atvinnuleysistryggingar. Þessi krafa fékkst ekki fram, en ég fullyrði, að verkalýðshreyfingin hefur aldrei verið ákveðnari en einmitt nú að koma málinu áleiðis. Stéttasamtök verkafólksins munu berjast fyrir þessari kröfu með festu og einurð og ekki láta staðar numið fyrr en hv. Alþ. hefur séð sóma sinn í því að mæta óskum og kröfum verkalýðssamtakanna í þessu máli.

Á hv. Alþ. í fyrravetur var sá háttur við hafður með afgreiðslu þessa máls, að því var vísað til hæstv. ríkisstjórnar. Ekkert hefur heyrzt um málið frá fyrrverandi eða núverandi hæstv. ríkisstjórn. Bendir það ótvírætt til þess, að hæstv. ríkisstj. ætli sér að liggja á málinu og hafast ekkert að. Valdhafarnir mættu þó vera þess minnugir, að verkalýðshreyfingin hefur í hagsmunabaráttu sinni á undanförnum árum látið skilningslausar og þröngsýnar afturhaldsstjórnir ekki stöðva sig í baráttumálum sínum í það óendanlega. Má í því sambandi benda á tólf stunda hvíldartíma togarasjómanna og átta klukkustunda vinnudag í landi. Þau miklu hagsmunamál fengu verkalýðssamtökin í gegn með samningum við atvinnurekendur, vitanlega eftir harða baráttu, sem hefði máske verið hægt að komast hjá, ef hv. Alþ. hefði litið raunhæft á málin og stuðlað að lausn þeirra með lagasetningu eða á annan hátt. Því miður hefur hv. Alþ. ekki séð sóma sinn í því að lögfesta t. d. tólf stunda hvíld við togveiðar, og má það merkilegt teljast, þegar þess er gætt, að engin starfsgrein í okkar þjóðfélagi afkastar meiru en sjómannastéttin, og engin vinnur hættulegri störf en einmitt sjómannastétt þessa lands. Afstaða hv. þingmanna Sjálfstfl. og Framsfl. er hin furðulegasta í þessu máli. Nú á þessu hv. Alþ. gefst þingmönnum enn á ný tækifæri til að mæta óskum og kröfum sjómannanna um að lögfesta tólf klukkustunda hvíld.

Í frv. þessu, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að verkalýðsfélögin ráði miklu um það, hvernig tryggingunum verði hagað, þó vitanlega innan þeirra takmarkana, sem lögin ákveða. Mundi slík tilhögun affarasælust, enda aðstæður mismunandi í hinum ýmsu félögum og atvinnugreinum.

Ég vil svo að lokum óska þess, að hv. alþm. ljái þessu mikla hagsmunamáli verkalýðshreyfingarinnar brautargengi, og legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til heilbr.- og félmn.