30.10.1953
Neðri deild: 14. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (2585)

77. mál, atvinnuleysistryggingar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Fyrsta skylda þjóðfélagsins í málum eins og þeim, sem þetta frv. fjallar um, er að reyna að fyrirbyggja atvinnuleysi með atvinnumálaaðgerðum, en meðan þjóðfélagið gerir það ekki, þá er verkamönnunum ein brýnasta nauðsyn að vera tryggðir fyrir böli atvinnuleysisins engu síður en gegn afleiðingum sjúkdóma og slysa. Það er því mjög svo eðlilegt, að hið vinnandi fólk og fulltrúar þess freisti þess að fá þjóðfélagið, svo lengi sem það ekki sér hinu vinnandi fólki fyrir fullnægjandi atvinnu, til þess að sjá því fyrir tryggingu gegn böli atvinnuleysisins. Þess vegna er það, að frv. um atvinnuleysistryggingar er flutt þing eftir þing, og það er víst, að það verður haldið áfram að flytja frv. um atvinnuleysistryggingar, þangað til annað af tvennu hefur gerzt, að þjóðfélagið hefur bætt á sómasamlegan hátt úr atvinnuleysisbölinu eða fallizt á að lögleiða tryggingar til þess að draga út afleiðingum atvinnuleysis.

Eins og hv. frsm. tók hér fram áðan, þá klofnaði heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. á síðasta þingi, og lögðu fulltrúar Alþfl. og Sósfl. til, að frv. samhljóða þessu yrði samþ., en þó að því er snerti fulltrúa Alþfl. með nokkrum verulegum breytingum, á þann hátt, að atvinnuleysissjóðirnir væru ekki bundnir við einstök bæjarfélög og kauptún, heldur væri skipulagið sentraliserað meira, þannig að atvinnuleysissjóðirnir næðu annaðhvort yfir stærri svæði eða jafnvel væri heildarsjóður yfir landið allt. Það er augljóst mál, að ef atvinnuleysissjóður er myndaður í fámennu kauptúni eða jafnvel í meðalstórum bæ, þá þarf ekki mikið út af að bera, til þess að það fari svo að atvinnuleysissjóðurinn, sem myndaður er af gjöldum frá verkafólkinu og mótframlagi jafnvel frá bæjarfélagi og ríki, sé tæmdur áður en varir, og þá sé ekkert upp á að hlaupa í áframhaldandi atvinnuleysi. Hins vegar gæti á sama tíma verið hið blómlegasta atvinnulíf í öðrum kaupstað og öðrum kaupstöðum og þar safnazt fé fyrir í atvinnuleysissjóðina á sama tíma og þeir væru tæmdir á öðrum, búið væri sem sé að greiða í atvinnuleysissjóði víðs vegar á landinu fé, sem væri ekki notað, jafnframt því að þess væri brýn þörf á þeim stöðum, þar sem atvinnuleysið herjaði. Ég held, að það sé nokkuð augljóst mál, að það er betra skipulag að hafa það t. d. í líkingu við skipulag hlutatryggingasjóðsins, að sjóðurinn væri miðaður við stærri svæði landsins og sá háttur hafður á, að þar sem atvinnulífið væri blómlegast og ekki þyrfti á greiðslum úr atvinnubótasjóðnum að halda, þar gæti það fé notazt á þeim stöðum, sem atvinnuleysið herjaði.

Það er í þessa átt, sem Alþfl. hefur haldið fram og heldur fram að þurfi að breyta þessu frv. En meginanda þess og tilgangi er Alþfl. samþykkur. Og ég vona, að það verði aðeins fáir dagar þangað til Alþfl. ber fram tillögur hér á Alþ. um sínar hugmyndir um atvinnuleysistryggingar, og verður það, að því er ég bezt veit, sem kafli í stærri lagabálki um önnur skyld atriði viðkomandi atvinnumálum. Ég vil þó lýsa því yfir fyrir hönd Alþfl., að ef Alþ. gæti ekki fallizt fremur á þær leiðir, sem Alþfl. bendir á í atvinnuleysistryggingamálunum, þá væri það til verulegra bóta að fá atvinnuleysistryggingar lögfestar, jafnvel þó að þær væru í þessu formi, sem hér er, því að það kæmi að einhverju gagni í atvinnuleysistilfellum, þegar ríkið hefði tekið á sig skyldu til að styrkja atvinnuleysissjóðina á hverjum stað og greiða fé á móti framlögum verkafólksins í þá. Ég tel því, að málið eigi skilið að fá hina vönduðustu meðferð og að fá góðar undirtektir, ef Alþ. getur ekki frekar fallizt á aðrar till. í þessu máli, og væri þá hægurinn hjá að bera fram brtt. við þetta frv. En atvinnuleysistryggingar þarf hið vinnandi fólk að fá, meðan ekki eru gerðar neinar viðhlítandi ráðstafanir til að draga úr atvinnuleysinu á Íslandi.