12.11.1953
Neðri deild: 21. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (2597)

85. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Stjórnarhættir okkar Íslendinga eru gallaðir að ýmsu leyti. Það hefur dregizt of lengi að endurskoða gildandi stjórnarskrá ríkisins. Höfuðástæða þess mun vera sú, að ágreiningur er um meginatriði á því sviði, t. d. um sjálfa kjördæmaskipunina. En meðan stjórnarskráin er ekki endurskoðuð, er nauðsynlegt að reyna að stuðla að heilbrigðari stjórnarháttum eftir þeim leiðum, sem færar eru, án þess að stjórnarskráin sé endurskoðuð.

Aðalkostir ríkjandi stjórnarhátta íslenzkra eru þeir, að þeir grundvallast á lýðræði. Aðalgallarnir eru hins vegar þeir, að gætt hefur um of skorts á stjórnfestu. Stjórnarkreppur hafa verið of tíðar, það hefur gengið of illa að mynda samhentan meiri hluta á Alþingi, og síðast en ekki sízt, að kjósendur vita það yfirleitt ekki í kosningum, að hvers konar stjórn þeir eru að stuðla að loknum kosningum.

Rúmir þrír áratugir eru nú síðan fyrsta ráðuneytið var myndað á Íslandi. Fyrst eftir að íslenzk ráðuneyti voru mynduð, reyndust stjórnarmyndanir tiltölulega auðveldar. Hér var íhaldsstjórn að völdum til ársins 1927, hrein flokksstjórn. Síðan var meirihlutastjórn tveggja flokka með vinstrisinnaða stjórnarstefnu á árunum 1927–1938. En frá 1939 til 1950 sátu hér ávallt að völdum samstarfsstjórnir þriggja flokka, og áttu allir stjórnmálaflokkar þjóðarinnar einhverju sinni aðild að stjórn landsins. Og nú frá árinu 1950 hefur setið að völdum samstjórn tveggja flokka með íhaldssinnaða stjórnarstefnu. Á síðasta áratug hafa verið í landinu fjórar til fimm meiri háttar stjórnarkreppur. Um það getur því varla verið ágreiningur, að einhverjar breytingar þarf að gera á stjórnarháttum ríkisins. Við svo búið má ekki lengur standa.

Ég tel, að markmiðin með þessum breytingum eigi að vera fyrst og fremst þrjú: í fyrsta lagi viðleitni til að koma í veg fyrir langæjar stjórnarkreppur, í öðru lagi viðleitni til að tryggja samhentan meiri hluta á Alþingi og í þriðja lagi, og ekki sízt, að barátta um sjálfa stjórnarstefnuna komi skýrt fram í kosningum, þannig að þá sé í raun og veru kosið um meginstjórnarstefnur, kosið á milli ríkisstjórna.

Til þess að ná þessum markmiðum mætti fara tvær meginleiðir, annars vegar að halda fast við þingræði, svo sem gert er á Bretlandseyjum, á Norðurlöndum og í Frakklandi, en hins vegar að afnema þingræði og taka upp svipaða stjórnarhætti og eiga sér stað t. d. í Bandaríkjunum eða Svisslandi. Ef sú leið væri farin að afnema þingræði, en lýðræði má að sjálfsögðu halda í fullum heiðri þrátt fyrir það, þá þyrfti að styrkja mjög frá því, sem nú er, aðstöðu ríkisstjórna, til þess að það kæmi ekki að sök, þótt löggjafarþingið væri margklofið í flokka og ef til vill smáa. Koma einkum til greina þrjár leiðir í því sambandi, ef þingræði væri afnumið, þ. e. a. s. menn þekkja þrenns konar form á lýðræði, þó að ekki sé stuðzt við þingræði.

Í fyrsta lagi kæmi þá til greina, að forsetinn sjálfur sé kosinn af þjóðinni, jafnvel meirihlutakosningu, þannig að kosning yrði endurtekin, þangað til meiri hluti þjóðarinnar stæði á bak við hann, og hann yrði jafnframt forsætisráðherra. Þetta væri sú tilhögun, sem Bandaríkjamenn hafa valið sér í sinni stjórnarskrá. Þegar framkvæmdavaldið verður svo sterkt sem þar er um að ræða og er þjóðkjörið, þá gerir minna til en ella, þótt löggjafarþingið sé klofið í marga flokka. Önnur leiðin væri sú að kjósa forsætisráðherra eða jafnvel alla ríkisstjórnina listakosningu og forsetinn yrði áfram ópólitískur þjóðhöfðingi. Þá fengi stærsti flokkurinn ávallt stjórnartaumana í sínar hendur, ef ekki yrði samvinna um kosningarnar milli annarra minni flokka. Þriðja leiðin væri svo sú, að Alþingi kysi forsætisráðherra eða stjórnina alla, og þá kæmi tvennt til greina, annaðhvort, að ríkisstjórnin yrði kosin listakosningu á Alþ., þannig að stærsti flokkurinn eða stærsta flokkabandalagið fengi stjórnina alla, eða þá að stj. yrði kosin með hlutfallskosningu, en það er það fyrirkomulag, sem Svisslendingar hafa á þessum málum, þannig að þar er í raun og veru stöðugt samstarfsstjórn flokka í réttu hlutfalli við flokkastærðina í löggjafarsamkomunni.

Ég hygg, að óhætt sé að fullyrða, að engin þessara leiða hafi verulegt fylgi meðal íslenzku þjóðarinnar, þ. e. a. s. engin þeirra leiða til úrbóta á ástandinu, sem fæli í sér afnám þingræðisins, á fylgi að fagna með íslenzku þjóðinni. Auk þess er þess að geta, að allar þessar breytingar, sem hér er um að ræða, þýddu breytingu á sjálfri stjórnskipuninni, á stjórnarskránni. En hvað væri hægt að gera til þess að ráða bót á annmörkum ríkjandi stjórnarhátta, ef þingræði er haldið, svo sem mun vera vilji yfirgnæfandi meiri hluta íslenzku þjóðarinnar?

Það, sem þarf fyrst og fremst að gera, er að stuðla að myndun samhents meiri hluta á löggjafarsamkomunni. Til þess virðast mér einnig liggja þrjár meginleiðir: Í fyrsta lagi að haga kjördæmaskipun þannig, að einvörðungu yrði kosið í einmenningskjördæmum. Höfuðkostir þess væru auðvitað þeir, að auknar líkur væru þá fyrir myndun meiri hluta, samhents meiri hluta, jafnvel meiri hluta eins flokks, á löggjafarsamkomunni, og er það vissulega kostur út af fyrir sig. Hins vegar eru gallar þessarar skipunar margir og miklir. Í jafnfámennu landi og Íslandi yrðu kjördæmin mjög smá, og það yrði mjög hætt við, að óheilbrigð hreppapólitík mótaði kosningabaráttuna í hinum smáu kjördæmum á mjög óheppilegan hátt. Það væri hætt við því, að óheilbrigð persónuleg tengsl sköpuðust milli kjósendanna og fulltrúa þeirra á löggjafarsamkomunni. þannig að persónuleg sjónarmið hefðu oft og einatt óhæfilega mikil áhrif á afgreiðslu mála á löggjafarsamkomunni, og gæti það og hreppapólitíkin orðið undirrót ýmiss konar pólitískrar spillingar. Ég tel því, að einmenningskjördæmaleiðin væri ekki æskileg til þess að ráða bót á megingöllum ríkjandi stjórnarhátta. Nefna má aðra ráðstöfun, aðra leið, sem hreyft hefur verið opinberlega í blaði eða blöðum, en hún er sú, að takist ekki myndun meiri hluta á löggjafarsamkomunni innan ákveðins frests frá því að þing er kosið, þá skuli stærsti flokkurinn fá þá viðbótarþingmenn, sem nægilegir væru til þess að hann hefði hreinan meiri hluta. Þessa leið teldi ég ekki æskilega. Það er óeðlilegt að veita nokkrum stjórnmálaflokki þann rétt að tilnefna sér þingmenn eða veita nokkru stjórnvaldi þann rétt að tilnefna ákveðnum stjórnmálaflokki ákveðna tölu þingmanna. En í þessu sambandi vildi ég nefna till., sem ég hef heyrt hjá ungum menntamanni og ég álít vera mjög athyglisverða og er að vissu leyti skyld meginhugsuninni, sem ég var að lýsa áðan, en hún er sú, að tilhögun uppbótarsætakerfisins, sem við nú búum við, yrði breytt þannig, að kosið yrði um öll uppbótarsætin í einu með listakosningu, þ. e. a. s. meirihlutakosningu, þannig að sá landslisti með öllum 11 uppbótarsætunum. sem fengi flest atkv., fengi alla landslistamennina kjörna. Í þessu mundu auðvitað vera fólgnar stórauknar líkur fyrir því, að samhentur meiri hluti myndaðist í þinginu, annaðhvort meiri hluti eins flokks eða þá flokkabandalags, sem hefði haft samvinnu um framboð á slíkum landslista. Ég geri þessa till. ekki að minni, en læt hennar aðeins getið, þar eð ég hef ekki orðið þess var, að hún hafi komið fram opinberlega, en er óneitanlega athyglisverð og í öllu falli athyglisverðari og skynsamlegri heldur en hin, að láta stærsta flokkinn geta tilnefnt sér eða tilnefna handa honum ákveðna tölu þingmanna, ef um stjórnarkreppu er að ræða. Í þriðja lagi væri svo hægt að gera þá ráðstöfun, ef þingræði ætti að halda. að heimila bandalög flokka í kosningalögum, þ. e. a. s. að veita í kosningalögum bandalögum flokka sama rétt og bandalagið væri einn flokkur, m. ö. o. kveða svo á, að bandalag skyldi fá jafnmarga þingmenn kjörna og samanlögð atkv. bandalagsflokkanna veita því rétt til og einn flokkur mundi fá út á jafnmörg atkv. Ef þessi skipun yrði tekin upp, þá mynduðust með því auknar líkur fyrir því, að kosningabarátta yrði fyrst og fremst barátta milli tveggja stórra aðila, t. d. tveggja stórra bandalaga. sem bæði hefðu sömu möguleika til þess að öðlast meiri hluta og hefðu bæði sömu skilyrði til þess að fá þingmenn kjörna og einn flokkur hefði.

Til allra þeirra ráðstafana, sem ég nefndi, nema þessarar, þyrfti að breyta stjórnarskrá ríkisins. En heimild til kosningabandalaga á tvímælalaust heima í kosningalögum einvörðungu. Kjarni málsins er þessi: Tveir eða fleiri flokkar eiga að geta fengið þá tölu þingfulltrúa, sem samanlögð atkv. þeirra veita þeim rétt til og þeir mundu fá, ef þeir væru einn flokkur. Ef flokkar koma sér saman um sameiginlega stefnuskrá, er mjög óeðlilegt, að þeir þurfi að mynda nýjan flokk til þess að geta fengið þá tölu þingfulltrúa, sem samanlögð atkvæðatala veitir þeim rétt til, og það er mjög mikilvægt, að kjósendur viti í kosningum, hvers konar stjórn þeir eru að kjósa, en að það komi ekki flatt upp á þá eftir kosningarnar, að hvers konar stjórn þeir voru raunverulega að stuðla. Heimild til kosningabandalaga og ákvæði um það, að bandalag skuli fá sömu tölu þingfulltrúa og einn flokkur mundi fá, veitir að vísu enga tryggingu fyrir myndun samhents meiri hluta á Alþingi, en það eykur líkur á slíku, þ. e. a. s., það eykur rétt stærri heilda í kosningunum og á Alþingi frá því, sem er samkvæmt gildandi skipulagi.

Það er einn alvarlegasti gallinn á núverandi kosningatilhögun og stjórnarháttum, að fyrir kosningar veit í raun og veru enginn, hvaða stjórn verður mynduð eftir kosningarnar eða hvers konar. Nú sem stendur er Sjálfstfl. næst því allra flokka að geta fengið hreinan meiri hluta. Án stórbreytinga gæti enginn flokkurinn fengið hreinan meiri hluta, og þó helzt Sjálfstfl. En enginn annar flokkur hefur slíka möguleika. Þess vegna væri samvinna tveggja eða fleiri flokka nauðsynleg, til þess að þeir hefðu slíka möguleika. En ef tveir eða fleiri flokkar af þeim fimm öðrum, sem til eru í landinu, gerðu með sér kosningabandalag um sameiginlega stefnuskrá, þá mundu auðvitað aukast mjög líkurnar á því, að slíkt bandalag stæði a. m. k. jafnt að vígi og stærsti flokkurinn til þess að fá hreinan meiri hluta. Bandalag hvaða flokka sem er mundi auka þingmannatölu bandalagsins undir venjulegum kringumstæðum, og er það fullkomlega eðlilegt.

Galli núverandi kosningatilhögunar, sem er ekki meirihlutakosning, heldur fólgin í því, að sá, sem fær flest atkv., nái kosningu, er auðvitað fólginn í því, að minnihlutaframbjóðandi getur náð kosningu og að hreinn minnihlutaflokkur getur fengið hreinan meiri hluta á löggjafarsamkomunni. Þegar þrír flokkar eða fleiri keppa um þingsæti, þá getur sá, sem er í algerum minni hluta, náð kosningu. Kosinn þm. þarf ekki að hafa nema rúml. þriðjung kjósenda á bak við sig. Sú aðferð að kjósa þingfulltrúa á þennan hátt í einmenningskjördæmum er í raun og veru miðuð við tveggja flokka kerfi. Kosningaaðferðin er hugsuð út frá tveggja flokka kerfi, miðuð við baráttu tveggja aðila um þingsætið. Þess vegna er það líka, að sums staðar, þar sem einmenningskjördæmi eru, gilda þau ákvæði, að kjósa skal endurtekinni kosningu, þangað til einn frambjóðenda hefur fengið hreinan meiri hluta í kjördæminu. Það er viðurkenning á því, að kosningabarátta í einmenningskjördæmum er í raun og veru miðuð við baráttu milli tveggja aðila, þar sem sá, sem er stærri, á að hafa meiri hluta á bak við sig. En að því er ég bezt veit, er Frakkland eina landið, sem hefur einmenningskjördæmi og slíka endurtekna kosningu til þess að tryggja það, að hinn kjörni þingmaður hafi í raun og veru meiri hluta á bak við sig, sem vissulega er eðlilegt, þegar um einmenningskjördæmi er að ræða. Hins vegar er það einn megintilgangur hlutfallskosningafyrirkomulagsins að leiðrétta það misræmi, sem af því hlýzt, að ekki er látið kjósa endurtekinni kosningu til þess að fá meiri hluta á bak við þann þingmann, sem kjörinn er.

Hér á landi höfum við hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum og í Reykjavík. Það er óneitanlega mjög umdeilanleg regla að kjósa hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmi, þar sem annar þeirra, sem kjörinn er, getur orðið kosinn með rúmlega einum þriðja þeirra atkv., sem standa á bak við báða hina kjörnu þingmenn, og hlýtur það að teljast mjög óeðlileg niðurstaða.

Hér í Reykjavík eru líka hlutfallskosningar, þar sem kjörnir eru átta þingmenn. Við útreikning á því, hvaða þm. teljist kjörnir, er beitt reikningsaðferð, sem mjög ívilnar stærsta flokknum eða stórum flokkum. En það er hinn mesti misskilningur, þótt mjög útbreiddur sé, að ein aðferð sé annarri fremur sjálfsögð við skiptingu á þingsætum, þegar kosið er hlutfallskosningum. Við það eru til margar aðferðir, sem hver um sig hefur sína kosti og sína galla. Þessi aðferð, sem hér er beitt, ívilnar mjög, eins og ég sagði áðan, stærsta flokknum eða stóru flokkunum á kostnað þeirra, sem minni eru, svo sem t. d. má sjá af því, að hér í Reykjavík fékk við síðustu kosningar stærsti flokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, 39% greiddra atkvæða, en fékk engu að síður fjóra þm. af átta, þ. e. a. s. helming kjörinna þingmanna út á ekki 40% greiddra atkvæða.

Í heild má segja um kosningakerfi okkar, að stóru flokkunum er þar mjög ívilnað. Það er stefna út af fyrir sig að láta stórar heildir fá tiltölulega mikinn rétt við niðurstöðu kosninganna til þess að forðast glundroða. En það er fráleitt að láta þessa ívilnun gilda um flokka eina. Það er sjálfsagt að láta hana þá líka gilda um flokkabandalög, þ. e. a. s. um flokka, sem eru reiðubúnir til þess að ganga til kosninga um sömu stefnuskrá. Annaðhvort verður að gera, að hafa algerlega hlutfallslegt fulltrúaval til löggjafarsamkomunnar, þannig að litlir flokkar hafi tiltölulega nákvæmlega sama rétt og stórir flokkar, eða þá að skapa minni flokkum sama rétt og hinir stóru hafa með því að heimila þeim myndun bandalaga. Í aðra hvora áttina verður að ganga.

Til þess að sýna fram á, hversu ríkjandi skipulag er óeðlilegt, má taka mjög einfalt dæmi. Gerum ráð fyrir því, að þrír flokkar, A, B og C, keppi um þingsæti í einmenningskjördæmi. Hugsum okkur, að A fái 1000 atkv., B fái 900 atkv. og C fái 800 atkv. Gerum ráð fyrir því, að A sé hægrisinnaður frambjóðandi eða frambjóðandi hægrisinnaðs flokks, en B og C séu frambjóðendur tveggja vinstrisinnaðra flokka. Hægri stefnan hefur þá 1000 af 2700 atkv. í kjördæminu, þ. e. a. s. liðlega einn þriðja af atkvæðunum, en í hreinum minni hluta í kjördæminu. Vinstrisinnaða stefnan, sem tveir frambjóðendur fylgja, hefur 1700 atkv. af 2700. Samkv. gildandi kosningareglum sigrar frambjóðandi A með rúmlega 1/3 kjósenda á bak við sig. Meginhluti kjósendanna vill það ekki, er andvígur honum og stefnu hans, en samt sigrar hann. Það er mjög ósanngjarnt gagnvart kjósendum B og C að krefjast þess, að þeir sameini sig um einn frambjóðanda, til þess að sú stefna, sem þeir aðhyllast, fái framgang í kosningunum. Fyrir fram verður ekki vitað um úrslit kosninganna. Ef A er hvort eð er í hreinum meiri hluta í kjördæminu, þá vill kjósandi t. d. B og C auðvitað heldur láta sinn flokk einan njóta atkvæða sinna fyrst og fremst, ef um er að ræða uppbótakerfi eins og við höfum hér nú. En hann vill þó heldur láta annaðhvort B eða C fá sitt atkv. heldur en A. Og til þess á hann að hafa rétt, til þess að það geti komið fram, að meiri hluti, að yfirgnæfandi meiri hluti kjósenda í kjördæminu aðhyllist stefnu B og C fremur en stefnu A. Þetta væri beinlínis trygging fyrir því, að lýðræði fengi notið sín. Það nýtur sín ekki, ef sá hlýtur kosningu, sem yfirgnæfandi meiri hluti manna í kjördæminu er andvígur. Auðvitað er það dæmi hér tekið af handahófi, að frambjóðandi stærsta flokksins fylgi hægrisinnuðum flokki. Það væri auðvitað nákvæmlega jafnrangt, að hann næði kosningu með rúmlega 1/3 atkvæða á bak við sig, þótt hann væri vinstrisinnaður, ef næstum 2/3 kjósenda í kjördæminu væru á annarri skoðun í þeim efnum.

Þetta er meginhugsunin, sem liggur á bak við það frv., sem hér er nú til 1. umr. Það er aðalatriði þess, að flokkar geti gert með sér kosningabandalag, og þá skulu þeir í hverju kjördæmi fá jafnmarga þm. kjörna og heildaratkvæði þeirra í kjördæminu veitir þeim rétt til. Í einmenningskjördæmum er þetta mjög einfalt. Það verður þannig, að atkvæði bandalagsflokka eru lögð saman, og ef það nægir til þess, að sá frambjóðandi þeirra, sem hærri atkvæðatölu hlaut, sé kosinn, þá reiknast öll atkvæði honum, og þá nær hann kosningu. Ef samlagning atkvæða nægir hins vegar ekki, þá eru atkvæði reiknuð hverjum þeim frambjóðanda, sem þau eru greidd. Málið er líka einfalt í tvímenningskjördæmum. Ef annar bandalagsflokkanna fengi tvo menn kjörna, án þess að bandalagið kæmi til framkvæmda, þá reiknast atkvæðin hvorum flokknum um sig. Ef annar þeirra fær hins vegar einn mann kjörinn, en atkvæði beggja bandalagsflokkanna mundu nægja til þess að hann fengi þá báða kjörna, þá eru atkvæðin reiknuð þeim bandalagsflokkanna, eða þeim framboðslista, sem fleiri atkvæði fékk, og hljóta þá báðir kosningu. Í Reykjavík, þar sem einnig er hlutfallskosning, yrði niðurstaða hugmyndarinnar sú, að bandalagsflokkar fái ávallt jafnmarga þingfulltrúa kjörna og samanlögð atkvæði þeirra veita þeim rétt til, þ. e. a. s. bandalagið ætti ávallt að fá jafnmarga þm. kjörna og það fengi, ef það væri einn flokkur. Ef báðir bandalagsflokkarnir fengju menn kjörna án bandalags og ættu ekki rétt á fleiri samkv. heildaratkvæðatölu sinni, er ástæðulaust annað en að reikna atkvæði hvorum flokknum um sig, en ef þeir ættu rétt á viðbótarþingmanni kjörnum, þá teldist sá kjörinn, sem næst stóð kosningu, og þá væri lista hans reiknuð þau atkv. bandalagsflokksins, sem hefðu verið nauðsynleg til þess að tryggja kosningu hans.

Hafa þarf í huga, að slík ákvæði sem þessi yrðu ekki til þess að tryggja smáflokkum eða flokksbrotum þingsæti, þannig að þau yrðu hagnýtt gegn því, sem á að vera aðaltilgangur þeirra, þ. e. að stuðla að myndun samhents meiri hluta á Alþingi. En til þess að koma í veg fyrir slíkt er kveðið svo á í frv., að flokkur, sem hafi ekki náð þingsæti án kosningabandalags, geti ekki hlotið þingsæti vegna þess. Og af svipuðum ástæðum eru í kjördæmi með hlutfallskosningum, þar sem aðeins annar listinn fær mann kjörinn, atkvæðin ávallt reiknuð stærri flokknum og hann látinn hljóta viðbótarþingmanninn, ef svo bæri undir, en ekki sá frambjóðandi, sem næst stæði kosningu, og er þetta svipuð hugsun og ræður við úthlutun uppbótarþingsætanna samkv. núgildandi kerfi. En þegar uppbótarþingsætum er úthlutað milli flokka, verður að sjálfsögðu að taka tillit til þess, ef flokki hafa verið reiknuð atkvæði bandalagsflokks og hann hefur fengið kjörinn þm. vegna þeirra. Þau atkvæði mega auðvitað ekki verða til þess að hjálpa öðrum flokki til þess að fá þingmann kjörinn og jafnframt til að hjálpa þeim flokki, sem fékk þau greidd, til að fá uppbótarþingmann kjörinn. Það er augljóst. Þess vegna er það ákvæði í frv., að við úthlutun uppbótarþingsæta skuli flokki ekki reiknuð þau atkv., sem honum hafi verið greidd, heldur að viðbættum þeim, sem honum hafa verið reiknuð frá bandalagsflokkum, og að frádregnum þeim, sem bandalagsflokki hafa verið reiknuð frá honum, þannig að sama atkvæði getur aldrei haft áhrif á kjör þingmanns og kjör uppbótarþingmanns hvort frá sínum flokknum, svo að gildi þeirra verður aldrei tvöfalt, ekki heldur innan bandalagsins.

Sjálfsagt er og að tryggja kjósanda rétt til þess að neita því, að atkv. hans sé reiknað öðrum frambjóðanda eða framboðslista en hann sjálfur kýs. Það væri óeðlilegt að heimila flokksstjórnum að kveða svo á, að atkvæði skuli reiknað öðrum flokki en þeim, sem kjósandinn sjálfur hefur kosið. Þess vegna er gert ráð fyrir því, að kjörseðlarnir verði þannig úr garði gerðir, að á þeim geti kjósandinn neitað því, að atkv. hans sé reiknað öðrum flokki en þeim, sem hann raunverulega greiddi atkvæði.

Segja má, að regla þessi feli það í sér, að kjósandinn greiði sínum flokki atkvæði fyrst og fremst og öðrum flokki eða öðrum frambjóðanda til vara, þannig að hann hafi fyrir fram lýst því yfir, að atkv. sitt megi teljast fallið á annan frambjóðanda, ef það dugi honum til þess að ná kosningu fram yfir þann, sem kjósandinn vill ekki að nái kosningu.

Ég tel, að reglur þessar auki og tryggi lýðræði á Íslandi ótvírætt. Þær stuðla að myndun stórra fylkinga, sem njóta sama réttar og einstakir flokkar njóta nú. Ég hef heyrt þá gagnrýni á þeim hugmyndum, sem hér er um að ræða, — því að þær eru ekki nýjar, — að það væri óeðlilegt að láta fallinn frambjóðanda í kjördæmi teljast kosinn. En hér er í raun og veru um hugsunarvillu að ræða, vegna þess að frambjóðandi bandalagsflokks, þó að hann sjálfur hafi fengið færri atkv. en einhver annar frambjóðandi, er einmitt ekki fallinn, því að meiri hluti kjósenda hefur lýst því yfir, að hann vilji hann frekar en þann flokksframbjóðanda, sem flest atkv. fékk. Atkvæði yrði greitt bandalagsflokknum með því fororði af hálfu kjósandans, að telja megi atkvæðið hvorum sem er af tveim eða fleiri bandalagsframbjóðendum, sem kjósandinn vill heldur en þriðja eða fjórða frambjóðandann. Það er beinlínis rangt að láta þann, sem fær flest atkv. af mörgum, komast að, ef meiri hluti kjósenda er búinn að lýsa því yfir, að þeir vilji hann einmitt ekki, heldur annan hvorn eða einhvern af tveim eða fleiri frambjóðendum, sem eru í bandalagi, þ. e. a. s. þann, sem fær fleiri eða flest atkv. af bandalagsframbjóðendunum.

Hvað mætti þá segja um uppbótarkerfið, sem er í gildi hér? Það er kunnugt, að frambjóðandi getur náð kosningu, þó að hann hafi færri persónuleg atkv. en andstæðingur hans, samkv. gildandi reglum. Og auk þess getur fallinn frambjóðandi í kjördæmi náð kosningu sem landsk. þingmaður, og hefur engum þótt neitt við þetta að athuga. Mætti þó miklu frekar gagnrýna þessi ákvæði heldur en þau, sem stungið er upp á í því frv., sem hér er til umr., því að tilgangur þeirra er einmitt að tryggja, að sá, sem meiri hl. kjósenda vil] ekki, nái ekki kosningu. En niðurstaða reglnanna eins og þær eru núna er einmitt sú, að ef þrír eða fleiri flokkar keppa, þá getur sá hæglega náð og nær oft kosningu, sem meiri hlutinn er algerlega andvígur. Ef kjósanda flokks er sama, hvor andstæðingur hans sigrar, og vill ekki láta atkvæði sitt koma öðrum til góða en sínum eigin flokki, þá hefur hann skilyrði til þess samkv. ákvæðum frv., eins og þau eru. En ef hann vill, að annar af tveim andstæðingum sinum komist miklu fremur að heldur en hinn, þá á hann, einkum ef flokkar þeirra hafa gert með sér málefnasamning fyrir kosningar, að hafa skilyrði til þess að stuðla að því, að sá frambjóðandi verði kosinn. Ef tveir eða fleiri flokkar hafa gert með sér bandalag um málefni, gæti þannig farið eftir núgildandi reglum, að þeir töpuðu kosningum, þó að þeir hefðu hreinan meiri hluta kjósenda á bak við sig, og sú stjórnarstefna, sem boðuð hefði verið í kosningum af bandalagi tveggja eða fleiri flokka, og ótvíræður meiri hluti kjósenda hefði lýst fylgi við, yrði ekki framkvæmd á næsta kjörtímabili. Ef einn af andstæðingunum er stærri en hvor bandalagsflokkurinn um sig, en minni en báðir, fengi hann fleiri þm. en bandalagið eftir núgildandi reglum. Má hver sem vill kalla þetta eðlilegt eða skynsamlegt lýðræði. Það er ekki heilbrigt lýðræði, að stefna, sem meiri hluti þjóðarinnar hefði lýst fylgi við, yrði ekki framkvæmd. Það er ranglátt. Og það er ósanngjarnt að heimta það, að flokkar, sem geta komið sér saman um sameiginlega stefnu, þurfi að leysa sig upp og stofna nýjan flokk til þess að hafa skilyrði til þess að fá hana framkvæmda. Kjósandinn veit um þessa reglu fyrir fram. Hann greiðir frambjóðanda bandalagsflokks atkvæði, ef það dugir honum, og hann getur neitað, að atkvæðið sé reiknað öðrum, ef hann vill ekki, að það sé gert, þannig að atkvæðið er í raun og veru ávallt greitt þeim, sem kosningu hlýtur.

Að síðustu skal ég svo láta þess getið, að í niðurlagi grg., þar sem sagt er frá ákvæðum um kosningabandalög í Svíþjóð er ekki alls kostar rétt frá hermt. Kosningabandalög voru tekin í sænsku kosningalögin árið 1921, og tilhögun kosningabandalaganna þar var sú, að tvenns konar bandalög voru heimiluð, annars vegar bandalög á milli flokka og hins vegar bandalög á milli einstakra frambjóðenda sama flokks, þannig að flokkur gat boðið fram tvo eða fleiri frambjóðendur og látið leggja saman atkv. þeirra og talið þau öll greidd flokknum í heild. Einkum síðara fyrirkomulagið hafði sætt talsverðri gagnrýni í Svíþjóð. En reynslan af kosningabandalögunum í heild hafði þó sýnt, að þau stuðluðu að jafnari skiptingu þingsæta þar í landi heldur en ella, en þar eru ekki einmenningskjördæmi, heldur alls staðar kosið hlutfallskosningum í fleirmenningskjördæmum. Þetta ákvæði hafði verið rætt mjög á síðasta ári eða síðustu tveim árum í Svíþjóð, og á síðasta ári, rétt fyrir kosningar, var gerð breyting á sænsku kosningalögunum til bráðabirgða, þar sem heimildin til kosningabandalaga var afnumin, en hins vegar breytt þeim reglum, sem gilda við útreikning kjörinna þingmanna í kjördæmum, þar sem kosið er hlutfallskosningum, en það eru öll kjördæmi í landinu, þannig að réttur minni flokkanna var skertur með afnámi heimildarinnar til kosningabandalaga, en rétturinn hins vegar aukinn með breyttri aðferð við útreikning á kjörnum þingmönnum í kjördæmunum. Væri kannske ástæða til þess að ræða þetta mál síðar eða skýra nánar frá þessari tilhögun, ef umr. um þetta mál lengdust. En vegna þess að hér var um bráðabirgðabreytingu að ræða, sem átti að taka til endurskoðunar aftur eftir kosningarnar og er nú í endurskoðun í Svíþjóð, þá var þessi breyting ekki í því lagasafni, sem ég fékk lánað í sendiráði Svía hér í bæ, þegar þetta frv. var í undirbúningi, og hélt ég því. að þær reglur, sem verið hafa í gildi í Svíþjóð frá 1921, væru í gildi enn, en þeim hefur sem sagt verið breytt með bráðabirgðabreytingu og eru nú enn í endurskoðun. (Forseti grípur fram í.) Ég skal ljúka máli mínu eftir eina mínútu.

Reglur um kosningabandalög hafa einnig verið í gildi í Noregi alllengi, en þar hefur kosningalögum og stjórnarskipun enn fremur verið breytt alveg nýlega, og mundi ég hafa farið um það nokkrum orðum, ef svo stæði ekki á, að fundartíma væri alveg að ljúka. En máli mínu vildi ég ljúka með þessum orðum: Ástandið hér er nú að ýmsu leyti ekki ósvipað og í Noregi og Svíþjóð, þegar kosningabandalög voru þar fyrst leidd í lög. Það er mjög óheilbrigt, að ekki skuli vera hægt að mynda meirihlutastjórn hér á landi nema sem samstarfsstjórn Sjálfstæðisflokksins og einhvers hinna flokkanna, sem alla greinir í raun og veru mjög á við Sjálfstfl. um grundvallaratriði í þjóðmálum. Það gilti hér öðru máli, ef hér væru til fleiri algerlega borgaralegir flokkar, sem ekki hefðu innan sinna vébanda nein vinstrisinnuð öfl. Samvinna milli þeirra og Sjálfstfl. í kosningabandalögum eða á annan hátt væri vissulega mjög eðlileg. En staðreyndirnar eru auðvitað þær, að kjósendurnir skiptast í tvær meginfylkingar, í hægrisinnaða kjósendur og vinstrisinnaða kjósendur, og kosningatilhögunin á að stuðla að því, að línurnar verði sem skýrastar milli hægrisinnaðrar stefnu og vinstrisinnaðrar stefnu, þannig að við hefðum annaðhvort hægri stjórn eða vinstri stjórn, en ekki einhvern hrærigraut þar á milli. Flestir játa með vörunum kosti slíks kerfis, eins og það er t. d. í Bretlandi. T. d. hefur stærsta blað landsins, Morgunblaðið, hvað eftir annað skrifað um nauðsyn þess og kosti, að slíkir stjórnarhættir kæmust hér á. En í þessu frv. felst einmitt tækifæri til þess að stuðla að því, að þeir komist á. Og það er eitt aðalatriði það er einn af hyrningarsteinum lýðræðis, að kjósandi geti gert sér ljóst, hvers konar stjórn hann er að kjósa í kosningum, að hann geti kosið á milli tveggja meginfylkinga. Síðan 1934 hefur aldrei legið ljóst fyrir í kosningum hér á landi, að hvers konar stjórn kjósandinn væri að stuðla með atkv. sínu, og þegar svo er, þá er í raun og veru verið að kippa einum hornsteininum undan lýðræðinu. Valdið til þess að ráða stjórnarmyndun er dregið úr höndum þjóðarinnar sjálfrar, úr höndum kjósendanna, og fengið litlum hópi stjórnmálamanna, en það er óeðlilegt, það er ekki hið sanna lýðræði. Það er höfuðkostur þess, að stórar fylkingar eigist við í stjórnmálabaráttunni, að þýðing hrossakaupa eftir kosningar verður þá minni en ella, að það verður kjósandinn sjálfur, sem hefur mest að segja um stjórnarmyndunina eftir kosningar. — Að lokinni umr. leyfi ég mér svo að óska þess, að frv. verði vísað til hv. allshn.