13.11.1953
Neðri deild: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í C-deild Alþingistíðinda. (2599)

85. mál, kosningar til Alþingis

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Stjórnarskráin gerir ráð fyrir pólitískri flokkaskipun og að menn séu kosnir á þing sem fulltrúar flokka. Samkvæmt stjórnarskránni verða menn kosnir með eftirtöldum hætti: Í einmenningskjördæmum með meirihlutakosningu, þannig að sá er kosinn, sem flest hlýtur atkvæði. Í tvímenningskjördæmum og Reykjavík með hlutfallskosningu, þannig að listar flokka fá kjörna þingmenn í hlutfalli við atkvæðatölu lista hvers flokks. Loks gerir stjórnarskráin ráð fyrir 11 þingsætum til jöfnunar milli þingflokka. Fleiri leiðir eru ekki til samkv. ákvæðum og anda stjórnarskrárinnar, — eða dettur einhverjum hv. þm. í hug, að löglegt hefði verið að taka upp í kosningalög reglurnar um uppbótarþingsæti fyrr en stjórnarskráin sjálf gerði ráð fyrir þessu kosningafyrirkomulagi? Engum Alþýðuflokksmanni datt slíkt í hug, meðan Jón Baldvinsson var formaður flokksins. Öllu fráleitara er það nú að ætla, að hægt sé að setja spánnýjar reglur um kosningabandalög, eins og felast í frv. þessu á þskj. 121, með almennum lögum, án þess að þær eigi stoð í ákvæðum stjórnarskrárinnar. Hv. 1. flm. frv. viðurkennir þetta líka alveg ótvírætt í upphafi máls síns, þar sem hann sagði við framsögu málsins, að það hefði einmitt frestazt að ganga frá endurskoðun stjórnarskrárinnar vegna ágreinings um kjördæmaskipun og kosningareglur, þ. e., hvaða grundvallarreglur skuli gilda um skipun þingsins. Með þessu er vissulega játað og það réttilega, að slíkar reglur eiga heima í stjórnarskránni. En hér eru róttækar breyt. á þeim reglum, sem gilt hafa um skipun þingsins, bornar fram í almennu lagafrumvarpi. Auk þess vek ég athygli á því, að meginefni framsöguræðu hv. 1. flm. þessa frv. til rökstuðnings því var um það, hvernig hægt væri að skapa öryggi og festu um stjórnarmyndanir, þ. e. a. s. um það, hvaða stjórnskipunarreglur gætu eða ættu að gilda, eða m. ö. o., hvernig stjórnarskrárákvæði ættu að vera. Þetta kemur einnig berlega fram í sjálfri grg. frv. Í þessu felst, að 1. flm. frv. hefur í raun og veru tjáð sig, e. t. v. óafvitandi, sammála mér um það, að reglur þessar um kosningabandalög eru eðli málsins samkvæmt stjórnarskrárákvæði og því ekki leyfilegt að fjalla um frv. í þinginu í því formi, sem það er flutt. Þingið gæti afgreitt þetta mál sem breytingu á eða viðauka við stjórnarskrána, sem frv. til stjórnskipunarlaga, en öðruvísi ekki.

Þar sem hæstv. forseti hefur samt látið gott heita, að umr. hefjist um þetta frv., vil ég fara fáeinum orðum um málið að öðru leyti.

Efni þessa frv. er, að flokkar geti lýst því yfir fyrir kosningar, að þeir séu í kosningabandalagi. Samt eiga kjósendur hvors eða hvers flokks um sig að kjósa sérstaklega sinn flokk. Nú falla frambjóðendur bandalagsflokkanna, og þá á yfirlýsingin um bandalagið að hafa það lagagildi, að ef hinir föllnu fá samanlagt fleiri atkv. en sá frambjóðandi, sem kosinn var, skuli hann aftur leiddur úr þinginu, en sá af fallframbjóðendum, sem flest atkvæði hafði, setjast í sæti hans á þingbekkjum. Ætla menn ekki að verða mundi mikil reisn yfir slíkum þingskörungum? Veitum því einnig athygli, að allir fjórir flm. þessa frv. eru frambjóðendur, sem náðu ekki kosningu við síðustu alþingiskosningar í þeim kjördæmum, þar sem þeir buðu sig fram. Þessir fjórmenningar hafa hins vegar verið reistir úr valnum og leiddir inn í þingsalina þrátt fyrir fallið vegna svokallaðs uppbótarkerfis kosningalaganna. Þess hefur oft orðið vart, en e. t. v. helzt eftir síðustu kosningar, að kjósendurnir í landinu eiga erfitt með að sætta sig við slíkt kerfi, sem ráðgerir eins konar pólitískar afturgöngur í þingsölunum. Almenningur hneigist að einföldum, rökréttum og almennt viðurkenndum leikreglum. Sá, sem er kosinn, á að fara á þing, hinn fallni á að sitja heima. Þetta byggist á því, að þó að uppbótarkerfið megi rökstyðja og rökstyðjist við það að ná hlutfallslegu jafnvægi milli flokka, þá vill kjósandinn, að heiðarlegar og auðskildar reglur gildi um það, hverjir nái kosningu, og er því mótfallinn flóknum útreikningi á atkvæðatölu frambjóðenda og flokka, finnst það tilbúningur hinna æfðu stjórnmálamanna, eins og komizt hefur verið að orði, og e. t. v. nálgast misnotkun á atkv. kjósandans. Það er t. d. enginn vafi á því, að margir Alþýðuflokksmenn hér í Reykjavík og víðar um land hafa sagt við sjálfa sig og aðra í sumar við alþingiskosningarnar: Ég vil ekki láta nota atkv. mitt til þess að koma Hannibal Valdimarssyni á þing. — Slíkum mönnum voru í of fersku minni aðfarir núverandi formanns Alþfl. fyrr og síðar og hefðu því grátið þurrum tárum, þótt hann hefði legið kyrr, þar sem hann var fallinn. Samt varð það svo að vera vegna uppbótarreglna kosningalaganna, að atkv. slíkra manna voru notuð til þess að koma þessum fallna frambjóðanda inn fyrir þingdyrnar, og því er hann hér.

Ég hef viljað vekja athygli á, að kjósendum finnst vissulega nú þegar nóg um annarleg ákvæði kosningal., og þess vegna hafa verið uppi raddir um, að uppbótarkerfið ætti að hverfa með öllu úr sögunni. En þá er það, að nýir spámenn rísa upp hér á meðal vor, og á ég þar við flm. þessa frv. Þeir eru búnir að finna upp spánnýtt kerfi, þessir heiðursmenn. Nú á að bæta inn í kosningalögin nýjum kafla um kosningabandalög. Oft er þörf, en nú er nauðsyn. Alþýðuflokksframbjóðendur féllu mjög unnvörpum í kjördæmum sínum í sumar. Einn var kosinn á þing í kjördæmi, efsti maður á lista í Reykjavík. Það er ekki efnilegt fram undan, og hvað skal þá til varnar verða vorum sóma? Hinir föllnu frambjóðendur Alþfl., sem flytja þetta frv., halda, að þeir hafi hitt naglann á höfuðið. Það, sem þeir leggja til í raun og veru, þegar umbúðirnar eru teknar utan af, er að lögfesta, að þó að þeir falli við kosningar, skuli mega vísa hinum kjörnu þingmönnum aftur út úr þingsölunum, en í þeirra stað vísa hinum föllnu til sætis til starfa á Alþingi. Hafa nú ekki þessir góðu menn með þessum frumvarpsóburði færzt nokkuð mikið í fang? Hvað mundu íþróttamennirnir segja, ef þrír menn keppa og einn verður hlutskarpastur, að þá geti samt númer tvö fengið fyrstu verðlaun með því að fá lánað afrekið hjá númer þrjú og komast þannig framar þeim, sem fyrstur varð í keppninni? Það eru slíkar drengskaparreglur, sem farið er fram á að lögfesta með þessu frv. Hvernig er svo sú hlið málsins, sem veit að kjósandanum? Jú, Hannibal og Gylfi koma fram fyrir sína kjósendur og segja: Auðvitað erum við jafnaðarmenn, sannir sósíaldemókratar. Þess vegna kjósið þið frambjóðanda ykkar flokks, sósíaldemókrata. – Og flokksfélagi þeirra skilar sínu atkv. með góðri samvizku. Hann hefur kosið sinn mann, jafnaðarmanninn. En til hvers? Hannibal og Gylfi voru búnir að lýsa yfir kosningabandalagi við t. d. andstöðuflokk sósíalismans, segjum Framsfl., sem hefur lýst sig andstæðan sósíalismanum. Atkv., sem greitt er jafnaðarmanni, er þá ef til vill með fyrir fram tilbúnum ráðum notað til þess að koma á þing allt öðrum manni og jafnvel andstæðingi jafnaðarstefnunnar. Í frv. fjórmenninganna er að vísu gert ráð fyrir, að kjörseðlar séu þannig úr garði gerðir, að kjósandi geti bannað, að „atkv. hans sé reiknað öðrum frambjóðanda eða framboðslista en hann kýs“. Þetta er orðrétt úr grg. frv. — og að hugsa sér aðra eins náð: Kjósandinn á að eiga þess kost að skrifa á kjörseðilinn, að atkv. hans skuli ekki teljast öðrum en hann vill kjósa. Í ofanálag eru svo flm. þessa frv. nógu djarfir til að segja í grg. um þetta náðarsamlega ákvæði: „Með því er útilokað, að reglur þessar verði hagnýttar af stjórnmálaflokkum til brasks með atkv. gegn vilja kjósendanna.“ Það er einmitt allt og eina efni þessa frv., að óvandaðir stjórnmálamenn geta hagnýtt reglur þess til brasks með atkv. gegn vilja kjósendanna.

Flm. þessa frv. eru ekki öfundsverðir. Ég held, að það þurfi ekki mikla framsýni til þess að sjá, að það á eftir að verða þeim sjálfum til mestra leiðinda. Hannibal Valdimarsson reyndi samvinnu við annan flokk sér til bjargar í sumar. Sú samvinna kostaði að vísu það, að flokksmenn annars flokks urðu að kjósa Hannibal. Það brást. Þá er fundið upp þetta fangaráð, að leyfa flokksmönnum hins flokksins að kjósa sinn eigin flokk, en atkvæðið skal samt teljast Hannibal. Mundi nú slíkur manndómur duga betur?

Ég vil þakka hv. 1. flm. þessa frv. fyrir að hafa leiðrétt í framsöguræðu sinni það, sem fram kemur í grg. um, að fordæmi séu fyrir slíkum kosningabandalögum annars staðar, þar sem nefnd er Svíþjóð, og stendur, að reglurnar um þau hafi gefizt vel þar í landi. Ég hef ekki átt kost á því að kynna mér þetta mál nánar, en það kom fram af framsöguræðu 1. flm., að í fyrsta lagi hefðu reglurnar um kosningabandalög í Svíþjóð verið öðruvísi en þær, sem hér eru lagðar til, og því ekki fordæmis fyrir þeim að leita í þessum sænsku reglum, og enn fremur, að það væri nú búið að afnema þessi kosningabandalög. Það er út af fyrir sig ekkert við því að segja, þó að slæðist inn skekkjur í grg. frv. hjá hv. þm., þegar þeir sjálfir leiðrétta það, sem missagt er. Það má aðeins segja, að í þingfréttum er — held ég — gerð grein fyrir aðalefni frv. og þá væntanlega atriðum eins og þessum, og væri náttúrlega mjög æskilegt, þegar slíkar leiðréttingar koma fram, sem nokkuð mikils virði eru, að þá fari það einnig í þingfréttirnar, svo að almenningur, sem hlustar á útvarpið, áttaði sig á því.

Niðurstöður mínar varðandi þetta mál eru tvíþættar. Ég tel í fyrsta lagi, að það samrýmist ekki ákvæðum stjskr. um það, með hverjum hætti frambjóðandi geti náð kosningu til Alþingis. Í öðru lagi tel ég, að ákvæði þessa frv. fari algerlega í bága við þau meginlögmál, sem allur þorri íslenzkra kjósenda hefur gert og gerir kröfur til að gilda skuli í baráttu stjórnmálamanna og flokka til þess að ná kosningu til Alþ. Af þessum sökum er að mínum dómi um að ræða óþinghæft mál, bæði að formi og efni, og leyfi ég mér að vænta þess, að örlög þess ákvarðist samkvæmt því.