13.11.1953
Neðri deild: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í C-deild Alþingistíðinda. (2601)

85. mál, kosningar til Alþingis

Jón Pálmason:

Herra forseti. Mér þykir ástæða til að bæta fáeinum orðum við það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði út af því frv., sem hér liggur fyrir og skiljanlega er hápólitískt mál.

Í ræðu sinni í gær fór hv. 1. landsk. víða yfir, og mátti segja, að ræða hans væri svipuðust eins og þegar blæs af öllum áttum og maður veit ekki, hvaða vindátt verður einna mest ofan á, því að hv. þm. talaði mjög um stjskr., hvaða breytingar þyrfti að gera á henni o. s. frv., rétt eins og hann væri hér að tala fyrir stjórnarskrárbreytingu. En þetta frumvarp er nú flutt sem kosningalagabreyting, og var sá hluti ræðunnar þess vegna að miklu leyti utan efnis. Þó er það tvennt í þessari ræðu, sem hvort tveggja var rétt og mér þykir ástæða til að víkja að. Annað var það, að hv. þm. héit því fram, sem auðvitað er rétt, að það væri nauðsynlegt að fá meirihlutavald inn í Alþ., meirihlutaflokk, til þess að það yrði meiri festa í stjórnarstarfsemi. Þetta er auðvitað hárrétt, og það hafa margir séð á undanförnum árum. En þessi hv. þm. vék líka að öðru, sem einnig er rétt, að eins og sakir standa í okkar þjóðfélagi, þá væri það aðeins einn flokkur, sem hefði möguleika til þess að ná meiri hluta í landinu, og það er Sjálfstfl. En til þess að koma í veg fyrir þann möguleika, að þetta gæti átt sér stað, þá virðist hann flytja sitt frv.; sem sagt, því er stefnt gegn Sjálfstfl. beinlínis, þeim flokki, sem er fjölmennastur í landinu, af því að hann hefur réttasta stefnu og er vinsælastur meðal fólksins.

Nú er það svo, að mér er kunnugt um það, að þetta frv. hefur haft nokkuð langan aðdraganda — og aðdraganda með sérstökum hætti. Sá aðdragandi er á þá leið, að nokkrir pólitískir braskarar, ef svo mætti segja, sem tilheyra Alþfl. og Framsfl., hafa á undanförnum tveimur árum verið að reyna samninga um það, að í síðustu kosningum yrði algert bandalag milli þessara flokka. Þessi hugsun hefur nú kannske átt meira fylgi utan þings heldur en innan, en þó er það kunnugt, að tveir hv. þm., sem eru fyrstu flm. þessa frv., hafa verið meðal aðalmanna í þessu. En þetta fyrirhugaða bandalag strandaði fyrir síðustu kosningar á því, að ég hygg, að það var meiri hluti í báðum flokkum, a. m. k. þingflokkum, gegn því að stofna til þessarar verzlunar. Þó var gerð tilraun í þá átt að sjá, hvernig þetta mundi nú heppnast, og hún var gerð í a. m. k. þremur kjördæmum. Hún var gerð í Ísafjarðarkaupstað, hún var gerð í Dalasýslu, og hún var gerð í Vestur-Skaftafellssýslu. Þetta heppnaðist nú hvorki í Vestur-Skaftafellssýslu né Ísafjarðarkaupstað. Í Dalasýslu aftur á móti heppnaðist það, og er þó mjög vafasamt, hvort það hafi nokkur áhrif haft, því að ég hygg eftir atkvæðatölum, að hv. þm. Dal. mundi hafa komizt að, jafnvel þó að hann hefði ekki fengið bragðbætinn frá Alþfl. í viðbót við sitt eigið fylgi. En þegar þessi tilraun hefur þannig misheppnazt, eins og sannaðist í þessum þremur kjördæmum, eða sérstaklega tveimur þeirra, þá eru ýmsar „spekúlasjónir“ uppi meðal sömu manna um það, hvernig þeir skuli nú geta komið sínum verzlunarhugmyndum á framfæri á annan hátt. Og þess vegna hygg ég að þeir í örvæntingu sinni flytji þetta frv., sem er, að ég hygg, eitthvert undarlegasta frv., sem sézt hefur hér á Alþingi.

Ég verð nú að segja það, að þegar ég fór að athuga þetta frv., þá datt mér í hug gömul saga, sem gerðist fyrir 60 árum á einu skólasetri hérlendis. Þar var matráðskona, sem þótti heldur spör á góðan mat. Einn dag eru þar bornar á borð birgðir af keti, en það er allt saman ket af sjálfdauðu pestarfé, svo að skóladrengir snertu ekki á því, þannig að það kom allt saman fram í eldhúsið aftur. En þá sagði sú gamla: „Það skal nú í þá samt,“ og lét búa til úr því kássu og bera það fyrir skólasveina þannig, að það voru líkur til, að þeir snertu eitthvað við því, þegar þeir voru orðnir nógu hungraðir.

Sama grundvallarhugsun virðist liggja fyrir því frv., sem hér liggur fyrir, að þó að það séu boðnir fram frambjóðendur hingað og þangað í kjördæmum landsins, sem fólkið vill ekki og snertir ekki við, þá á samkv. lögum að fylgja reglunni: Þeir skulu nú í þá samt, m. ö. o., það á að búa til kássu, og má því segja, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé tilraun til þess að lögfesta eins konar kássureglu í alþingiskosningum, og sú regla mundi þá geta komið víða við, ef það væri farið eftir sömu lögum.

Nú skal ég nefna hér nokkur dæmi um það, hvernig þessi kássuregla hv. þingmanna mundi hafa verkað í síðustu kosningum, því að auðvitað er hún fyrst og fremst við það miðuð, að það sé stokkað saman spilunum á sérstakan hátt hjá Alþfl. og Framsfl. Hv. þm. Borgf. (PO) er búinn að vera lengst allra manna hér á Alþ., og hann hefur jafnan verið kosinn með yfirburðum. Þessi maður var kosinn í síðustu kosningum í Borgarfjarðarsýslu með 337 atkv. fram yfir næsta frambjóðanda, þann sem næstflest atkv. fékk. En samkv. kássureglunni, sem þetta frumvarp fer fram á, ætti þessi þm. að falla. Hann hefði átt að falla vegna þess, að samanlögð atkvæðatala tveggja frambjóðenda, frambjóðanda Alþfl. og frambjóðanda Framsfl., er rúmum 20 atkv. hærri, og hefðu þeir verið í bandalagi, þá hefði þessi þm., elzti þm. landsins eða sá, sem lengst hefur setið á þingi og hefur verið kosinn með yfirburðum, átt að falla samkv. þessari reglu, sem hv. 1. landsk. hefur fundið hér upp; hann ætti ekki að koma til greina á Alþingi, en varaformaður Alþfl. ætti samkv. kássureglunni að verða þm. Borgf., þrátt fyrir það þó að kjósendurnir þar hefðu ekki viljað líta við honum. Þó má segja, að þetta taki nærri því út yfir, þegar þetta á líka að ganga yfir hlutfallskjördæmin, tvímenningskjördæmin og Reykjavík, þar sem eru samkv. stjórnarskránni og kosningalögum lögboðnar hlutfallskosningar eftir eðlilegum reglum. En ef kássureglan hefði verið í lögum í síðustu kosningum, þá hefði t. d. hv. 2. þm. Eyf. (MJ), sem var kosinn með talsverðum atkvæðamun samkv. reglum stjórnarskrárinnar og kosningalaganna, átt að falla, ef það hefði verið bandalag milli þeirra tveggja flokka, sem þarna er helzt ætlazt til að verði í bandalagi, þó að það sé auðvitað alveg eins heimilt, ef þetta frv. næði fram að ganga, að það væru fleiri flokkar, sem snerust í bandalag og væru stokkaðir saman á þennan sérstaka hátt gegn stærsta flokki þjóðarinnar, og þeir menn, sem kosnir væru í kjördæmunum, væru látnir falla, en aðrir komast að, sem kjósendurnir kærðu sig ekkert um.

Nú er það svo, að ef þetta ætti að færast út á víðara svið, þá gæti þetta komið fram alveg eins í skólaprófum og íþróttum. Hv. 1. landsk. er eins og kunnugt er kennari við háskólann, og hv. 3. landsk. er skólastjóri vestur á Ísafirði. Ef þessir menn vildu nú beita þessari reglu, sem þeirra frv. fer fram á, við prófin í sínum skólum, þá ætti sá, sem hæstan stigafjöldann fær í skólunum, alls ekki að vera neinn yfirburðamaður þar eða koma til greina hvorki til verðlauna eða vera efstur. Ef það væri bandalag milli tveggja lélegra manna, sem fengju heldur meiri stigahóp samanlagt en sá efsti, þá ættu þeir að vera taldir yfir hinum, sem hæstur væri, eftir sömu reglum. Alveg eins mætti þetta útfærast á íþróttasviðinu. Ef tveir linir menn væru í bandalagi, þá ættu þeir að fá verðlaun, en alls ekki sá, sem mesta afrekið gerði.

Þetta er þess vegna, hvort sem það er tekið sem kosningalagafrv., eins og það er, en virðist, eins og síðasti ræðumaður vék að, mjög undarlegt, ef hægt er að láta það koma til atkvæða hér, — en frá hvaða hlið sem það er skoðað, þá er það svo fráleitt, að þessi regla verði nokkurn tíma lögfest í okkar landi varðandi alþingiskosningar, að mér þykir undarlegt, ef það verða margir háttvirtra þingmanna, sem verða því fylgjandi. En af þessu fáum við reynslu, ef hér kemur til atkv. Auðvitað kemur ekki til mála, að nokkur sjálfstæðismaður greiði atkv. með frv., sem er beinlínis stillt upp til þess að koma í veg fyrir, að þessi stærsti flokkur þjóðarinnar nái því valdi, sem honum ber. Við fáum reynslu fyrir því, hvort það verða margir af hv. þm. Sósfl., sem vilja fylgja kássureglunni, eða hvort það verða þm. Þjóðvfl., og síðast, en ekki sízt, og það sem kannske mestu skiptir, hvort það verða margir af hv. þm. Framsfl., sem vilja ganga inn á þessar brautir í þeim tilgangi einum að blekkja kjósendur í kosningum, því að það er ekkert annað en tilraun til að blekkja kjósendur í kosningum, ef það á að vera lögfest, að atkv. frambjóðenda tveggja flokka, þó að þeir séu kallaðir í bandalagi, eigi að leggja saman, eftir að kosningunni er lokið, og annar þeirra eigi þá að fá kosinn þingmann. Hitt er eðlilega ekkert við að athuga, þó að bandalagsreglan, sem hér hefur oft gilt, sé áfram. Það er ekkert því til fyrirstöðu samkv. núgildandi kosningalögum og okkar stjórnarskrá, að einn flokkur bjóði ekki fram á móti öðrum, eins og átti sér stað á Ísafirði og í Vestur-Skaftafellssýslu, og það bandalag er í alla staði löglegt og getur staðizt. En þessi regla, sem hér er fundið upp á, er svo fyrir neðan allar hellur, að mér þykir alveg furða, að ekki ógreindari menn heldur en þeir, sem hér eru flutningsmenn að, skuli láta sér detta í hug að sýna þetta hér á hv. Alþingi.