13.11.1953
Neðri deild: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (2606)

85. mál, kosningar til Alþingis

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er ekki margt, sem ég þarf að taka fram í minni ræðu nú, en þó eru einstök atriði, sem þörf er á að leiðrétta í því, sem fram hefur komið. Ég vil í fyrsta lagi vekja athygli á því, að mér leiðist að hafa valdið hv. 3. landsk. slíkum sársauka sem fram kom í ræðu hans. Ég var ekki að amast við honum hér á þinginu, vegna þess að hann er löglega kosinn þm. eftir þeim reglum, sem eru. En ég sagði í minni ræðu, að það væru margir af kjósendum, sem hefðu látið í ljós þær skoðanir, að þeir ættu erfitt að fella sig við uppbótarkerfi, sem ráðgerði eins konar afturgöngur í þinginu. Hann tók þetta mjög til sín, og það var ekki meining mín að særa hann, en ég get hins vegar skilið, að það búi enn í honum nokkur sársauki eftir síðustu alþingiskosningar, og það er sennilega ekki nema mannlegt, að svo sé.

Hv. 3. landsk. sagði, að ræður okkar hv. þm. A-Húnv. hefðu ekkert verið annað en grín og gaman og algerlega efnislausar. En 1. landsk., meðflm. Hannibals Valdimarssonar, talaði skömmu á eftir og taldi mína ræðu hafa verið aðeins í einu tilfelli gamansama, en að öðru leyti rökfasta ræðu, sem hægt væri að rökræða um. Þeir hafa dálítið mismunandi skoðanir um þetta. Ég verð að segja, að þær voru nokkuð ólíkar í fleiri tillitum, ræður 3. landsk. og 1. landsk. Ég gekk hér fyrir framan dyrnar, þegar 3. landsk. var að halda sína ræðu, og heyrði einhvern segja: Bara að Hannibal meiði sig nú ekki á munnvatni sínu. — Og mér fannst það alger vorkunn, því að sannast að segja sneiddi þessi hv. þm. algerlega hjá öllu, sem snertir efnishlið málsins. En hv. 3. landsk. er nógu óskammfeilinn til þess að koma hér upp í ræðustólinn í þessari hv. deild og segja, að það séu ósannindi, að nokkurt kosningabandalag hafi átt sér stað milli Framsfl. og Alþfi. á Ísafirði í sumar, og hann viti ekki til, að á framsóknarmenn á Ísafirði hafi verið lagt nokkurt „press“ til þess að reyna að koma honum á þing. Ja, ég vil skora á þennan hv. þm. og spyrja hann, hvort hann hafi kjark til þess að koma hér upp og endurtaka það, að hann viti ekki til, að á framsóknarmenn hafi verið lagt nokkurt „press“ til þess að kjósa hann. Ef Hannibal Valdimarsson gerir þetta, þá veit ég, að hann er vísvitandi að segja hér ósatt í þingsölunum. Það vita allir, að Hannibal Valdimarsson fór sjálfur skömmu fyrir kosningar til Ísafjarðar til þess að undirbúa það, að honum gætu hlotnazt atkv. framsóknarmanna í kosningabandalagi við alþingiskosningarnar, sem þá fóru í hönd, og það er einnig alkunnugt, að einn af miðstjórnarmönnum Framsfl. gekk dagana fyrir kosningar milli þeirra kjósenda á Ísafirði, sem áður höfðu kosið Framsfl., með skilaboð frá formanni Framsfl. um að kjósa Hannibal Valdimarsson. Og það þarf enginn að halda, að Hannibal Valdimarssyni hafi ekki verið kunnugt um þetta.

Hv. 3. landsk. sagði, að við sjálfstæðismenn vildum vísa þessu frv. frá, til þess .að alþm. eigi ekki kost á að taka afstöðu til málsins. Þetta er alger misskilningur. Það er okkar skoðun, að þessu frv. beri að eisa frá í því formi, sem það er flutt. Og ég tók beinlínis fram í minni ræðu, að þingið gæti fjallað um þetta mál sem stjórnarskrárbreytingu, sem frv. til stjórnskipunarlaga. Það er okkar skoðun, að ef einhverjir hv. þm. óska að koma ákvæðum þessa frv. í lög, þá verði að koma grundvallarefni þeirra inn í stjórnarskrána. Og það er þeim frjálst, hv. flm., að flytja sínar till. sem stjórnskipunarlagatillögur, eins og þær eiga að flytjast á þinglegan hátt að okkar dómi.

Hv. 1. landsk. talaði um það, að sjálfstæðismenn hefðu staðið að því að setja svipaða kássugerð inn í stjórnarskrána á sínum tíma, þar sem eru hlutfallskosningaákvæðin. Það er í samræmi við skoðanir okkar nú, að þá töldum við, að slík ákvæði yrðu að eiga heima í stjórnarskránni, og þess vegna voru þau sett sem stjórnarskrárákvæði, en við hefðum auðvitað snúizt öndverðir gegn slíkum till., ef þær hefðu verið bornar fram í almennu lagafrv.

Það er annars einkennilegt, að ræður flm. þessa frv. stangast í fleiri tilfellum heldur en ég hef nú bent á. Hv. 3. landsk. sagði: Þessu frv. er ekki stefnt gegn neinum, það geta hvaða flokkar sem eru gert bandalag. — Þetta er út af fyrir sig rétt hjá honum. En hv. 1. landsk. kemur svo og segir orðrétt: Þetta frv. segir, að stærsti flokkurinn eigi ekki að ráða eins miklu og áður. — Þetta eru orðrétt hans ummæli. En ég spyr: Hvar stendur þetta í frv.? Hitt er svo alveg rétt, sem hv. þm. A-Húnv. benti á, að í þessum tilgangi er frv. flutt af þessum hv. flm. Auðvitað segir ekki frv. þetta.

Þessir hv. þm. hafa mikið talað um lýðræði og tala um, að núverandi kosningareglur veiti flokkunum ekki lýðræðislegan rétt. Þeir hafa viljað gera því skóna, að við sjálfstæðismenn viljum viðhalda því kosningalagafyrirkomulagi, sem nú er, og þar með séum við berir að því að vilja viðhalda miklu lýðræðislegu ranglæti. Þetta er algerlega rangt. Við sjálfstæðismenn höfum engan veginn sagt, að við viljum núverandi skipun kosningalaganna. Þvert á móti. Sjálfstæðismenn voru þeir fyrstu og eru þeir einu, sem borið hafa fram í stjórnarskrárnefndinni till. um breytingar einmitt á kjördæmaskipun, sem mundu leiða af sér allt annað fyrirkomulag í kosningalöggjöf heldur en nú er. Þess vegna þarf ekki um það að deila hér, að það er margt í núverandi kosningalöggjöf, sem þarfnast breytingar, og margt er ranglátt, og við höfum heldur aldrei sagt, að það væri ekki hugsanlegt að breyta eitthvað reglum um hlutfallskosningar frá því, sem nú er. En flm. þessa frv. hafa a. m. k. ekki hitt þann lýðræðisnagla á höfuðið. Þeir eru alltaf að tala um, að það eigi, með því að flokkar geti lýst yfir bandalagi, að koma réttar fram og lýðræðislegar fylgi flokkanna á þingi. Hvernig er þessu nú varið? Ég þykist vita, að flm. séu búnir að sitja lengi með sveittan skallann og reikna út, hvað Framsfl. og Alþfl. gætu nú saman fengið marga þm., eftir þessu frv., enda brosir nú hv. 1. landsk. og lítur í tóma stólinn, þar sem fjmrh. situr vanalega, — en hvað hafa þessir tveir flokkar mikið af kjörfylginu í landinu? Ætli það sé ekki eitthvað nálægt 37%. Ef þeir gera ráð fyrir, að allir kjósendur hafi kosið eins í sumar og eftir þessum reglum, hvað ætli þessir tveir, flokkar hefðu þá fengið marga þingmenn? Ætli það sé ekki eitthvað nálægt 52%. Þar með hefðu 37% af kjósendunum fengið 52% þm. M. ö. o.: Þeir eru að gagnrýna löggjöfina eins og hún er núna, en bera bara ekki fram réttlátari skipun en þessa. Það er þannig engan veginn víst, að meira lýðræðislegt réttlæti fáist með þeirri skipun, sem hér er borin fram.

Hv. 1. landsk. taldi, að þar sem Norðmenn og Svíar hefðu á sínum tíma leitt í lög hjá sér kosningabandalög, þá mætti auðvitað augljóst vera, að það bryti ekki í bága við okkar stjórnarskrá, og þar sem mætti breyta með lögum útreikningsreglu hlutfallskosninganna þá væri það líka sönnun fyrir því, að slík kosningabandalög mætti innleiða með almennum lögum. Hann gerði ekki ráð fyrir að heyra nein mótmæli frá mér gegn þessu. En þessu vil ég fyrir mitt leyti mótmæla og með þeim forsendum, að ég tel, að okkar stjórnarskrá sé þannig úr garði gerð, að hún byggir á flokkum og flokkaskiptingu í þinginu, og það er hvergi nokkurs staðar gert ráð fyrir neinu í stjórnarskránni öðru en einhverju hlutfallslegu jafnrétti á milli flokka, en ekki þannig, að það sé hægt að reikna út samanlögð atkvæði flokka til þess að ná ákveðinni þingmannatölu. Stjórnarskráin segir í 31. gr., að það séu alls 8 þm. kosnir í Rvík með hlutfallskosningu. Það er svo látið eftir kosningalögunum að ákveða, hvernig sú hlutfallskosning skal útreiknast. Hún segir líka, að það séu kosnir 6 þm. í kaupstöðum og 27 þm. í ein- og tvímenningskjördæmum. Hún segir ekkert berum orðum um það, hvernig þingmennirnir eigi að kjósast, þessir 6 þm. í kaupstöðunum, og ekki heldur, hvernig þingmennirnir eigi að kjósast í einmenningskjördæmunum. En það vita allir hv. þm., að þegar þessi ákvæði stjórnarskrárinnar eru sett, þá er gengið út frá því af stjórnarskrárgjafanum, að kosning í einmenningskjördæmum fari ekki fram með öðrum hætti en þeim, að sá, sem fær flest atkvæði, er kosinn. Þess vegna felst þetta óvírætt í stjórnarskránni. Það var líka í gamla Rómaréttinum, að þar voru engin ákvæði um hegningar gegn föðurmorði. Það var af því, að Rómverjarnir vildu ekki vera að skrifa svo augljósan bókstaf. Það var ekki vegna þess, að það væri löglegt að myrða föður sinn í Rómaríki í þá daga. Hér er um svo augljósan anda og grundvallaratriði stjórnarskrárinnar að ræða, að það er það, sem menn fyrst og fremst verða að byggja á, þegar á að gera sér grein fyrir því, hvort hægt er að að taka upp slíkt kosningalagakerfi eins og hér er gert ráð fyrir án þess að leggja grundvöllinn að því í stjórnarskránni áður. Um það atriði skal ég svo ekki fara fleiri orðum. Það verður úrskurðað á síðara stigi þessa máls, eins og hæstv. forseti hefur gert grein fyrir.

Ég vil aðeins í lok ræðu minnar taka undir það, sem hv. þm. A-Húnv. sagði, að enda þótt flm. hyggi gott til glóðarinnar, þegar þeir hafa nú setið yfir að semja þetta frv., þá er auðvitað engan veginn víst, hvernig kjósandinn snýst við því, þegar hann á að kjósa eftir kosningalöggjöf sem þessari. Og ég sagði í niðurlagi minnar ræðu, að það væri ekki aðeins vegna þess, að frv. bryti gegn stjórnarskránni, sem það væri óþinghæft, heldur líka að efni til, vegna þess að það færi algerlega í bága við þau meginlögmál, sem allur þorri íslenzkra kjósenda hefur gert og gerir kröfur til að gilda skuli í baráttu stjórnmálamanna og flokka til þess að ná kosningu á Alþingi. Þetta held ég að mundi sýna sig, ef nokkurn tíma kæmi til slíks.