16.11.1953
Neðri deild: 23. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í C-deild Alþingistíðinda. (2608)

85. mál, kosningar til Alþingis

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þegar þingfundartíma lauk á föstudaginn, höfðu þrír þm. Sjálfstfl. þrumað á móti frv. okkar Alþýðuflokksmanna um kosningabandalög. Þeir fóru af stað með miklum geysingi og bægslagangi, en áberandi þótti hlustendum það, hversu mjög þeir voru orðnir hógværir menn undir lokin. Hv. 2. þm. Eyf., þ. e. a. s. hv. minnihlutaþm. Eyf. (MJ), minntist á kosningabandalagslögin á Norðurlöndum og afnám þeirra í Noregi og Svíþjóð. En hann gleymdi alveg að geta þess, að það voru einmitt hægri flokkarnir þar í löndum, sem ávallt notfærðu sér ákvæðin um kosningabandalögin og voru ákaflega tregir til að fallast á, að þau væru afnumin. En hér ætlar aftur hægri flokkur íslenzkra stjórnmála að taka þveröfuga afstöðu, og mönnum er spurn, hverju þetta sæti. Ekki gæti það þó verið, að Sjálfstfl. íslenzki ætti einhverra sérhagsmuna að gæta, sem hann vildi ekki að aðrir nytu, t. d. kosningabandalag? Ég vil a. m. k. ganga út frá því, að réttur kjósandans eigi að vera jafn, hvaða flokki sem hann tilheyrir, og kjósendur eigi að hafa jafna aðstöðu til að skera úr, hvaða stefnu þeir vilji að fylgt sé í stjórnmálunum, hvort sem að hinni mörkuðu stefnu stendur einn flokkur eða fleiri saman.

Nú hafa ræðumenn Sjálfstfl. einmitt verið að tala um möguleika sína til þess að ná hreinum meiri hluta, og það er að vísu rétt, að fræðilega hefur Sjálfstfl. eftir gildandi kosningalögum möguleika til slíks, og hefur hann þó ekki nema 39% kjósenda á bak við sig. Hann hefur fræðilega möguleika til þess að ná meiri hluta á Alþ., fá 27 þm. kjörna, en til þess vantar hann nú 6 þm., og það er ekki séð, að það sé líklegt, að til þess komi á næstunni, að Sjálfstfl. verði þess umkominn, nema kannske helzt ef skærist í odda milli tveggja fylkinga og kjósendurnir veldu, sem mér þætti nú næsta ólíklegt, á þann veg, að þeir vildu fela Sjálfstfl. meirihlutavald á Alþ. En það væri þó öllu skemmtilegra fyrir þann flokk að hafa öðlazt það í harðri keppni við annan aðila, sem þjóðin hefði þá hafnað, ef svo væri. Það var auðheyrt á ræðumönnum hv. Sjálfstfl., að þeir voru mjög roggnir yfir þessum meinta möguleika Sjálfstfl. og létu að því liggja, að það þyrfti nú eiginlega ekki að fara að gera lagabreytingar til þess að heimila öðrum aðila slíka möguleika til þess að tryggja stjórnarfarið. En hvað getur mælt á móti því að heimila kosningabandalagi sömu aðstöðu og svo segðu kjósendurnir auðvitað um, hvorum aðilanum þeir vildu að yrði falinn meiri hlutinn? Það er alveg ómögulegt að rökstyðja, að það geti kallazt ranglæti í öðru tilfellinu, nema með því að fordæma það þá einnig í hinu, fordæma það einnig, þegar Sjálfstfl. er sá, sem nýtur aðstöðunnar.

Sannleikurinn er sá, að ef frv. okkar Alþýðuflokksmanna yrði gert að lögum, þá væri stigið stórt spor í þá átt að gera íslenzkt stjórnarfar mótaðra og öruggara, og að öllu óbreyttu eru litlar líkur á því í framkvæmdinni, að nokkur einn flokkur fái meiri hluta á Alþ., en þess er þörf, að meirihlutastjórn sé hægt að mynda í landinu, svo að hægt sé að komast hjá sambræðslustjórnum, — meirihlutastjórn, sem byggi á mótaðri stefnu eins eða fleiri flokka. Nú verða tveir eða fleiri flokkar að bræða sig saman, ef unnt á að vera að tryggja þjóðinni meira eða minna starfhæfa ríkisstjórn, og oft hefur það reynzt erfitt í landi smáflokkanna, eins og dæmi undanfarinna ára sýna. Frv. Alþýðuflokksmannanna er viðleitni í þá átt að ráða bót á þessum vanda. Samþykkt þess og framkvæmd mundi hafa í för með sér, að tvær meginfylkingar ættust við í kosningum og kjósendurnir ættu þess kost að ákveða með atkvæði sínu, hvor þessara fylkinga skyldi stjórna landinu næsta kjörtímabil. Óvissan, sem nú er um þetta, mundi hverfa, en festa koma í hennar stað, og slík breyting er ómótmælanlega til bóta. Það er þegar vitað, að það eru fleiri en Alþýðuflokksmenn, sem eru þessarar skoðunar, t. d. segir annað aðalblað Framsfl., Dagur á Akureyri, um þetta atriði það, sem hér fer á eftir, með leyfi forseta, núna fyrir nokkrum dögum:

„Alþýðuflokksmenn hafa flutt frv. á Alþ., sem líklegt er til að vekja athygli og umr., því að þar er ráðgerð breyting á kosningafyrirkomulagi til Alþ. og þar með rofin þögnin, sem um það mál hefur ríkt um sinn. Mun frv. þetta þykja hið athyglisverðasta, ekki sízt vegna þess, að með því er stefnt að því að lækna eitt mesta vandamál íslenzkra stjórnmála, þ. e. óvissuna um stjórnarstefnuna, þegar gengið er til kosninga, og langvinna samninga eftir kosningar um stjórnarmyndanir. Mundi frv. þetta, ef fram næði að ganga, stuðla að sköpun samhents meiri hluta á Alþ. og er því þess vert, að það sé kynnt og rætt.“

Ég hygg það hafi verið hv. 2. þm. Eyf. (MJ), sem taldi, að með frv. Alþfl. um kosningabandalög væri verið að verzla með kjósendur, fara aftan að fólkinu og opna leiðir til blekkinga. Ég held, að þetta sé alveg þveröfugt, þarna sé sannleikanum gersamlega snúið við. Nú er það einmitt svo, að það er hægt að beita kjósendur blekkingum með róttæknisgaspri fyrir kosningar, en svo er hægt að fara að braska á bak við tjöldin og pukra og skella svo á stjórnarfari, sem er þveröfugt við það, sem kjósendurnir bjuggust við fyrir kosningar. Eftir kosningar geta menn fengið stjórn, sem þeir áttu sízt von á eftir því, hvernig málin voru túlkuð fyrir kosningar. Þetta er vitanlega óviðunandi ástand. Þetta gerir mögulegt að gera lýðræðið að vissu leyti að skrípaleik. Þetta ófremdarástand mundi frv. okkar Alþýðuflokksmanna einmitt torvelda eða jafnvel fyrirbyggja, ef það yrði að lögum. Og hversu fráleit sú staðhæfing er, að það opnuðust möguleikar til að koma aftan að fólkinu, verzla með kjósendur og þar fram eftir götunum, sést bezt á því, sem fram er tekið skýrt í frv., að kosningabandalag verður að tilkynna yfirkjörstjórn skriflega ekki síðar en 4 vikum og 3 dögum fyrir kjördag og kosningastefnuskrá kosningabandalags verður auðvitað einnig birt og túlkuð og um hana barizt í kosningabardaga fyrir kosningar. Þegar málin liggja þannig fyrir, þá á kjósandinn um það að velja að segja til fyrir kosningar, hvers konar stjórnarfar hann vill að taki við eftir kosningar. Þannig verður bersýnilega miklu minna olnbogarúm fyrir braskið og blekkingarnar, en þá kemur einmitt í ljós, að við það er engum verr en einmitt íhaldinu. Það vill, að möguleikarnir til bragða og blekkinga og verzlunar með kjósendur séu fyrir hendi eins og hingað til, og snýst þess vegna hatrammlega á móti því frv., sem torveldar þetta. Það er staðreynd, að nú vita kjósendur fátt eitt um fyrirætlanir stjórnmálaforingja um stjórnarmyndanir, þegar þjóðin gengur að kjörborðinu til þess að beita því húsbóndavaldi stjórnmálanna, sem hún á að hafa. Samningar um stjórnarmyndun koma ekki til sögunnar fyrr en að kosningum afstöðnum. Foringjar flokkanna hefja þá iðulega samstarf við aðilann, sem kjósendur viðkomandi flokks hefðu máske sízt viljað. Málefnasamningar ríkisstjórnanna verða til að tjaldabaki, eins og alkunna er, og eru raunverulega aldrei lagðir undir úrskurð kjósendanna, því að í næstu kosningum þykjast stjórnmálaforingjarnir vilja allt annað en það, sem fengin reynsla staðfestir að þeir sættu sig við í sambræðslustjórn. En frv. Alþfl. leiðir til þess, að málefnasamningar flokka, sem ætla sér að vinna saman, verði að aðalatriði kosningabaráttu og úrskurðarefni kjósendanna á kjördegi. Þannig er hér verið að tryggja kjósendum þann rétt, sem þeim ber, en torvelda möguleikann, eins og ég áðan sagði, fyrir stjórnmálaforustuna að blekkja kjósendur eftir á og koma á allt öðru stjórnarfari en kjósendurnir væntu og ætluðust til, þegar þeir greiddu atkv. í kjörklefanum.

Það er talað um, að mikil spilling sé í íslenzkum stjórnmálum, og því verður sjálfsagt ekki neitað, að þar er ekki allt eins hreint og skyldi. En raunhæfasta ráðið til þess að bæta úr því er einmitt, að íhlutunarréttur kjósendanna sé aukinn og kosningar á Íslandi látnar snúast um málefni og stefnur, sem ekkert undanfæri sé að víkja sér frá að afstöðnum kosningum. Kjósendurnir eiga að krefjast þess, að þeim gefist kostur á að vita fyrirætlanir flokkanna og stjórnmálaforingjanna, áður en þeir ganga að kjörborðinu, og val þeirra á milli stefna á einmitt að byggjast á þessari vitneskju. Þetta er nauðsynlegt í öllum lýðræðisríkjum, og ekki sízt þar sem flokkarnir eru margir og óvissa mikil í stjórnmálum, eins og hér á sér nú stað. Auk þess eru sýndarlæti og blekkingar allt of ríkur þáttur í íslenzkri stjórnmálabaráttu og Sjálfstfl. þar áreiðanlega fremstur í flokki allra.

Alþfl. er þeirrar skoðunar, að fólkið sjálft eigi að ráða því, hverjir stjórna landinu á hverjum tíma og í hvaða tilgangi. Einn þátturinn í baráttu hans fyrir þeirri skoðun er frv. um kosningabandalög stjórnmálaflokka. Það er að vísu engin framtíðarlausn í íslenzkri stjórnarskipun, það vitum við. Það fer ekki lengra en rúmast innan ramma núverandi kosningalaga. En við teljum nauðsyn að stíga þetta spor. Þess vegna verða kjósendurnir að taka þetta mál upp og bera það fram til sigurs, ef afturhaldið hér á Alþ. kemur í veg fyrir, að þetta frv. nái fram að ganga. Það er ein af þeim lýðræðislegu skyldum, sem lýðræðið sjálft leggur fólkinu á herðar.

Sjálfstfl. virðist leggja mikla áherzlu á að staðhæfa, að þetta frv. samræmist ekki stjskr. Það verður vafalaust úrskurðað hér af þeim aðila, sem það heyrir undir. En þetta virðist vera fjarstæðukennt, þetta virðist vera örþrifaráð, sem gripíð er til, þegar menn vilja ekki ræða efni máls. Stjskr. kveður á um tölu þm. Annað aðalatriðið í þessum kafla er ákvæði stjskr. um kjördæmaskiptinguna. Inn á hvorugt þetta atriði fer þetta frv. Þriðja ákvæðið í þessum kafla stjskr. er um uppbótarþingsætin, og við því skipulagi er vissulega ekki heldur hróflað í þessu frv. En allt það, sem snertir kosningatilhögun, er túlkað og ákvæði sett um það í kosningalögunum, og hér er eingöngu um það að ræða, hvernig tilhögun skuli vera um framboð og kosningar.

Á það var líka bent í umr. á föstudaginn af hv. 1. landsk. þm. (GÞG), að á Norðurlöndum hefðu eingöngu verið ákvæði í kosningalögum um kosningabandalögin, og þegar þau voru afnumin, þá var gerð breyting á kosningalögunum og annað ekki. Og ég leyfi mér að benda á það í tilefni af umr. á föstudaginn, að stjórnarskráin íslenzka og stjórnarskrár á Norðurlöndum eru ákaflega svipaðar, því að ísl. stjskr, er uppsuða úr dönsku stjskr. frá 5. jan. 1874 og í öllum aðalatriðum enn í dag samhljóða því plaggi.

Ég verð því að líta svo á, að það séu litlar líkur til þess, að Sjálfstfl. geti komizt hjá því, að þetta mál verði rætt til hlítar hér á Alþ. og að Alþ. sjálft taki ákvörðun um það, hvort heppilegt þyki að gera það að lögum. Ég trúi því ekki, að þau undanbrögð takist Sjálfstfl. að fá málið úrskurðað frá.

Það mun hafa verið hv. 5. þm. Reykv. (JóhH), sem taldi sig geta strítt mér á því, að ég væri eitthvað sár út af kosningaúrslitum á Ísafirði s.l. vor. Það er mesti misskilningur. Ég ber minn ósigur alveg eins og mér ber að bera hann, og við hv. núverandi þm. Ísaf. og ég höfum um ekkert að sakast hvor við annan. Hann hefur fallið einu sinni fyrir mér, og ég hef fallið einu sinni fyrir honum, og þar með erum við kvittir, og mun enginn sjá, að við séum neitt sárir eftir þann leik. — Ef litið er á Alþfl. og Sjálfstfl. í sambandi við Ísafjörð, þá þarf Alþfl. ekki meira að sleikja sár sín heldur en Sjálfstfl., og við skulum þess vegna alveg mætast í miðju trogi með umræður um þau mál.

Menn hafa vafalaust tekið eftir því á undanförnum árum, að einn flokkur í landinu hefur sérstaklega hamrað á því í blöðum sínum og á mannfundum, að ógæfa mikil væri það, hversu flokkarnir væru margir á Íslandi, og ekki sízt kvað það við af hendi Sjálfstfl. í síðustu kosningum, þegar flokkarnir voru orðnir sex, að það væri eðlilegt og sjálfsagt, að hreinni línur sköpuðust og stefnt væri að því að mynda tveggja flokka kerfi í landinu. Nú ber aftur svo kynlega við, að þegar frv. er borið fram á Alþ. um kosningabandalög, sem greinilega stefnir í þá átt, að kjósendurnir ættu þess kost að skipa sér í tvær meginfylkingar, berjast um tvær meginstefnur mótaðar í tveim kosningastefnuskrám og segja til um það fyrir kosningar, hvor stjórnarstefnan verður ofan á og í samræmi við hvora þeirra skuli stjórna næsta kjörtímabil, þá rís sá flokkurinn, sem hefur verið að gaspra að undanförnu um það, að það væri æskilegt, að tveggja flokka kerfi myndaðist í þessu landi, upp á skottleggina og ætlar alveg að tryllast yfir því, að nú stefni að því, að hólmganga kynni að verða milli tveggja stjórnmálafylkinga í landinu. Hvar er samræmið í þessu? Eða er Sjálfstfl. alveg horfinn frá fyrri skoðunum sínum um nauðsyn tveggja flokka kerfis? Því væri að vísu ekki fyllilega komið á með lögfestingu þessa frv., en það væri þó stórt spor stigið í þá átt, að átök mynduðust milli tveggja stjórnmálafylkinga. Sjálfstfl. hefur talað um, að glundroði skapaðist af of mörgum flokkum. Þessi glundroði ætti þá vissulega að minnka, ef takast mætti að sameina meginstefnu hinna smærri og sundruðu flokka um ákveðna kosningastefnuskrá.

Ég tel, að megintúlkun Sjálfstfl. gegn þessu frv. hafi falizt í því að saka okkur Alþfl.-menn um að vilja stefna í ólýðræðislega átt með þessu frv., þar sem möguleiki skapaðist til þess, að slíkt kosningabandalag, sem kannske fengi ekki meira en 37–39% kjósenda bak við sig, gæti fengið hreinan meiri hluta á Alþ. En þessi átylla, að þetta frv. sé ólýðræðislegt, hrynur þegar til grunna, af því að með núverandi lögum nýtur Sjálfstfl. þess og hefur oftlega lagt mikla áherzlu á það, að hann hafi möguleika til að ná hreinum meiri hluta á Alþ. að öllum lögum óbreyttum, og er þó sýnt, að hann hefur ekki nema 39% kjósenda á bak við sig, og það er ekki svo, að hann geti gert sér neinar vonir um, að fylgi hans fari vaxandi og að meiri hluti hans á Alþ. byggist á því, því að hann hefur allt frá 1930 verið að lækka hlutfallslega að fylgi hjá þjóðinni. Fyrir 1927 hafði hann yfir 50% kjósenda í landinu. Við hverjar einustu kosningar síðan hefur kjósendum hans farið fækkandi hjá þjóðinni, og núna síðast fór hann niður fyrir 40%, niður í 39%, og þar er hann nú, en samt er hann að tala um það, að hann hafi möguleika til þess að hafa hreinan meiri hluta á Alþ. En hvernig getur hann þá talað um það sem ólýðræðislegan hlut, ef flokkasamsteypa, sem hefði eina og sömu kosningastefnuskrána, fengi þennan sama rétt og þessa sömu aðstöðu sem Sjálfstfl. nú hefur? Hann getur það með því einu móti að segja: Ég nýt nú að óbreyttum lögum ólýðræðislegrar aðstöðu. En annaðhvort er að afnema hana, gera lagabreytingu í þá átt, eða að Sjálfstfl. getur sízt af öllu barizt á móti því, að annar aðili öðlist þá sömu aðstöðu, það er a. m. k. á engan hátt ólýðræðislegra.

Önnur meginröksemd Sjálfstfl. var þessi, sem ég einnig hef gert að umræðuefni hér, að það væri hægt að fara aftan að kjósendum, verzla með þá, með því að koma á kosningabandalagi. Ég hef sýnt það með skýrum rökum, að það er allt lagt á borðið fyrir fram, í upphafi kosningabardaga, hver stefnan sé og hvaða stjórnarstefna sé ætlazt til að taki við eftir kosningar, einmitt með kosningabandalögum eins og þau eru skilgreind í þessu frv. En nú er hægt að svíkja kjósendurna og verzla með þá og blekkja þá, og það er sú aðferð, sem Sjálfstfl. vill halda í.

Ekkert annað en þessar meginröksemdir hefur verið nefnt hjá forustumönnum eða málsvörum Sjálfstfl. í þessum umræðum, og verða þeir að koma með eitthvað annað fleira til, ef þeir ætla að geta rökstutt af nokkurri festu mótstöðu sína við þetta frv. Sannleikurinn er sá, að enginn stjórnmálaflokkur á Alþ. stendur eins höllum fæti til þess að standa gegn slíku frv. eins og einmitt Sjálfstfl.

Ég hirði ekki um að fara að svara þeim hv. þm., sem hér töluðu f. h. Sjálfstfl. á föstudaginn, viðvíkjandi smánarti, sem þeir beindu til mín. Ég taldi, að það væri eitt af mörgu, sem sýndi rökþrot þeirra, því að þar voru þeir að hjala um allt aðra hluti en koma þessu máli við. En þetta mál er þýðingarmikið mál og stórpólitískt mál í eðli sínu, og þess vegna er allt í lagi með að verja tveim til þrem og þó að fjórum þingfundum væri til þess að ræða það og efni þess og alveg ástæðulaust nema fyrir þá menn, sem rökþrota eru, að fara út í önnur atriði.