16.11.1953
Neðri deild: 23. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (2609)

85. mál, kosningar til Alþingis

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það hefur verið þó nokkuð rætt um það í sambandi við þetta frv., hvort þetta væri að einhverju leyti brot á stjórnarskránni, og ekki hafa sízt hv. þm. Sjálfstfl. hér í d. komið fram með þá aths. Guð láti gott á vita, liggur mér við að segja, þegar þeir fara að bera stjórnarskrána fyrir brjósti. Það hefur nú ekki verið sérstaklega mikið verið að vanda framferðið gagnvart því plaggi hér á undanförnum áratugum, svo að það væri nú óskandi, að það væri þá farið að hafa hana eitthvað ofur lítið meira í heiðri en verið hefur hingað til, þegar sérstaklega hefur þurft á því að halda. 1941 tók meiri hluti þm. sig saman um það að sleppa öllum kosningum, sitja bara áfram og samþykkja lög, og til þeirra, sem mótmæltu, var ekkert tillit tekið, og stjórnarskráin var ósköp rólega brotin, og grundvöllurinn að miklu af því, sem gerzt hefur á síðustu áratugum, var lagður af því þingi, sem raunverulega hafði ekkert umboð eða hafði gefið sjálfu sér umboð. Ég held nú þess vegna, að það sé alveg óþarfi allt í einu að fara að taka þessa hluti svona nærri sér. — Ég ætla ekki að fara að minnast hérna á, hvernig farið var með 21. gr. í stjórnarskránni 1951 af hálfu hernámsflokkanna allra þriggja, það var alveg nákvæmlega sams konar stjórnarskrárbrot. Þess vegna varð ég dálítið undrandi, að menn skyldu nú fara að nefna snöru í hengds manns húsi og fara að tala um stjórnarskrá og að þetta mundi vera brot á henni. Ég held satt að segja, að það hefði frekar verið ástæða til að tala um hana í sambandi við önnur frv. en þetta. Hins vegar er alveg sjálfsagt að gera sér grein fyrir því, fyrst minnzt er á þetta.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að ég lít svo á, að þetta frv. brjóti ekki í bága við stjórnarskrána, ekki tilgangur þess sem heildar, það megi ræða um einstakar greinar úr því, hvort þær samrýmdust þeim skilningi, sem við leggjum í 31. gr. stjórnarskrárinnar. Og hvað slíkt snertir, þá er náttúrlega lítill vandi að laga þannig einstakar greinar, ef mönnum sýnist svo. Ég held þess vegna, jurediskt séð, að þetta frv. sé eitt af þeim, sem frekar sjaldan og í frekar fáum greinum brýtur í bága við hana, ef borið er saman við það, sem við almennt höfum átt hér að venjast, þannig að það sé lítill vandi að laga það, sem þannig kunni að einhverju leyti að álítast fara afvega, en tilgangur frv. í heild sé í samræmi við hana.

Svo komum við aftur á móti að öðru í sambandi við þetta frv., og það er raunverulega ekki bara það lögfræðilega gildi þess, heldur það siðferðilega eða pólitíska gildi þess, þ. e., er þetta frv. réttlátt, miðar þetta frv. að því að skapa meira réttlæti í sambandi við kosningar og úrslit þeirra á Íslandi? Það virðist nú kenna dálítils ruglings í því, hvað menn séu að tala um sem kost við það, hvernig kosningalög og jafnvel hvernig stjórnarskrár séu. Við hvað erum við að miða? Að hverju ætlum við að stefna, hvort heldur sem við erum nú að semja breytingar á stjórnarskrá eða við erum að laga kosningalög, að svo miklu leyti sem það sé hægt, án þess að það brjóti í bága við stjórnarskrána? Erum við að miða að því að skapa sterka stjórn í landinu? Erum við fyrst og fremst að hugsa um það að gera þægilegra fyrir að mynda ríkisstjórn, sem hafi öll völd hér á Alþ.? Erum við fyrst og fremst að hugsa um það, að það sé helzt einn flokkur, sem, ef hann er sterkastur með þjóðinni, verði svo sterkur, að hann geti haft hreinan meiri hluta á Alþ., þó að hann hafi ekki hreinan meiri hluta hjá þjóðinni? Er þetta sá tilgangur, sem við eigum að miða við í sambandi við stjórnarskrá og kosningar? Ég álít það ekki og hef aldrei litið svo á og mun síðar koma nánar að því. Ég álít, að öll þróunin hjá okkur í stjórnmálunum á Íslandi hafi miðað að því að skapa allt annan tilgang með stjórnarskránni og kosningalögunum. Hins vegar hefur mikið verið rætt um þetta hérna. Bæði hefur verið minnzt á það sem eitt af því, sem nauðsynlegt væri, og eins hefur Sjálfstfl., þegar hann hefur talað hérna, borið þeim, sem virðast nú styðja þetta frv., það á brýn, að þeir væru að miða að því að skapa möguleika til að mynda ríkisstjórn fyrir flokka eða flokkasamsteypur, sem hefðu minni hluta þjóðarinnar að baki sér. Fulltrúar Sjálfstfl. sögðu hér, að svo framarlega sem Alþfl. og Framsfl. gerðu bandalag eftir þessu frv., ef það yrði að lögum, þá mundu þeir geta með 37% kjósenda náð 52% þingmanna. Þetta er rétt hjá Sjálfstfl., þetta mundu vera möguleikar, og þetta mundu vera möguleikar, sem ég álít að væru í ósamræmi við þann tilgang og þá stefnu, sem alltaf hefur verið að sigra meir og meir á okkar landi í sambandi við breytingar á stjórnarskrá og kosningalögum, það sem af er þessari öld.

En þetta er ekki aðeins rétt hvað snertir það, ef Framsfl. og Alþfl. færu að mynda bandalag sín á milli. Þessi gagnrýni á möguleikum, sem felast í núverandi kjördæmaskiptingu til að skapa rangláta útkomu úr kosningum, á ekki aðeins við, ef Framsfl. og Alþfl. mynduðu bandalag með sér og reyndu að notfæra sér ákvæði svona laga til þess að ná meiri hluta þings með 37% kjósenda. Þetta á ekki síður við viðvíkjandi Sjálfstfl. sjálfum. Sjálfstfl. hefur við undanfarnar kosningar alveg sérstaklega lagt upp úr því og sérstaklega „agiterað“ með því, að það væri eitt það mesta happ, sem fyrir þjóðina gæti komið frá þeirra sjónarmiði, að hann fengi hreinan meiri hluta á Alþ., þó að hann fengi ekki hreinan meiri hluta hjá þjóðinni. Stundum hefur hann reiknað út, að hann þyrfti ekki nema 300–400 atkvæði til þess, ef þau væru á réttum stöðum, færðust til á réttum stöðum, þá væri Sjálfstfl. búinn að ná meiri hluta á Alþ., þó að hann hefði ekki meiri hluta hjá þjóðinni. Ef það á að fara að álíta það allt saman tómar kássur, sem myndað sé, ef það verður meiri hluti hér á Alþ., sem sé fenginn með alls konar skrýtinni útkomu í kjördæmum, hvernig sem hún er nú sköpuð, þá fara nú margir að verða sekir um kássutilbúning, ekki aðeins þeir, sem bjuggu til Bændaflokkinn hér á árunum, heldur líka þeir, sem reyna að ná meiri hluta núna með því að skírskota til kjósenda um, að þeir fái örugga stjórn, ef 300–400 kjósendur flytja sig til. Og sannleikurinn er, að Sjálfstfl. er enn þá nær þessu en menn almennt máske hafa reiknað út. Það þurfa ekki að flytjast nema 164 atkvæði beint frá Framsfl. til Sjálfstfl. í réttum sex kjördæmum í landinu til þess, að Sjálfstfl. hafi 27 þm., þó að hann hafi ekki nema 37–38% kjósenda. Svona er nú ranglætið í núverandi kjördæmaskipun enn þá mikið þrátt fyrir þær breytingar, sem gerðar hafa verið á þessari öld.

Það er þess vegna tvennt til ranglátt í sambandi við bæði stjórnarskrána og meira að segja þetta frv., sem hérna liggur fyrir. Það er hægt að skapa meiri hluta á Alþ. fyrir flokk, sem hefur ekki nema 37–38% kjósenda á bak við sig. (Gripið fram í.) Þetta breytist ekki við frv., þetta er hægt alveg jafnt núna og mundi vera hægt með frv., og það væri hægt með frv. að skapa þetta líka, ef t. d. flokkar eins og Framsfl. og Alþfl. stæðu þar saman. Af hverju? Af því að þetta frv. sjálft breytir ekki þeim ákvæðum stjórnarskrárinnar, sem gera mögulegt ranglætið. Ranglætið, sem enn þá er eftir úr gömlu einmenningskjördæmunum og öðru slíku, heldur áfram að vera til, og svo framarlega sem bandalag er gert við flokk, sem græðir á ranglætinu, þá þýðir það um leið, að það eru enn þá fleiri möguleikar til þess að skapa enn þá meira ranglæti í sambandi við kosningarnar, og það er það, sem við verðum að gera okkur ljóst. Ef við erum að berjast fyrir þessu kosningabandalagsfrv. með það fyrir augum að skapa meira réttlæti í útkomunni í kosningunum á Íslandi, þá sköpum við það réttlæti ekki, svo framarlega sem við gerum bandalag við þá flokka, sem græða á ranglætinu, og útkoman skekkist þannig enn þá meir og lýðræðið verður enn þá meiri skrípamynd. Þetta er atriði, sem við verðum alveg að gera okkur ljóst og við verðum að taka tillit til, þegar við erum að hugsa um þetta frv. Það væri hægt að misnota þessi lög, alveg eins og það er hægt að misnota stjórnarskrána núna, ef bandalagið er gert við flokka, sem græða á ranglæti kjördæmaskipunarinnar, og bandalagið verður þannig til þess að auka á þetta ranglæti. Hins vegar er líka hægt að láta svona kosningabandalag og svona frv. verða til þess að auka réttlæti, efla lýðræðið í landinu, en það yrði því aðeins að þeir flokkar stæðu saman í bandalagi, sem græða ekki á ranglætinu, heldur væru að vinna að því að skapa meira réttlæti í útkomunni, gera lýðræðið — gera þess mynd hreinni og réttari og ekki neina skrípamynd. Sósíalistaflokkurinn, Alþýðuflokkurinn og Þjóðvarnarflokkurinn, sem hafa ýmislegt sameiginlegt, — og Sósfl. hefur boðið þeim flokkum samstarf um mörg af þeirra hagsmunamálum, þessir þrír flokkar til samans eru sterkasta samsteypa, sem til er hjá þjóðinni, sterkari en Sjálfstfl., miklu sterkari en Framsfl. En þessir þrír flokkar til samans hafa jafna þingmannatölu og Framsfl., færri en Sjálfstfl. Ef slíkir flokkar stæðu saman um kosningabandalag, þá mundi lýðræðið ekki verða sú skrípamynd, sem það er núna að þessu leyti, þá mundi vera miðað í þá átt að skapa meira réttlæti í sambandi við þessa útkomu. Það er þess vegna með kosningabandalögin og það frv., sem hérna liggur fyrir, eins og er með svo mörg lög: Að hverju vilja menn vinna með því að framkvæma þau? Vilja menn vinna að því að skapa meira réttlæti í sambandi við kosningarnar, gefa vilja fólksins réttari mynd, eða vilja menn vinna að því að skapa jafnvel meiri skrípamynd en orðið hefur áður? Þetta eru hlutir, sem þarf að athuga sem menn þurfa að gera sér ljósa, þegar þeir ræða þessi mál. Það er enginn efi á því, að það þarf að vinna áfram að því að skapa meira jafnrétti í. útkomunni á kosningunum hér á Íslandi, gera þingræðið sjálft að réttari mynd af lýðræði og vilja fólksins, og það er hægt að nota þetta frv. til þess.

Það var minnzt á það hér í umræðunum af hálfu Sjálfstfl.-þm., að það væri verið að skapa möguleika fyrir alls konar flokkaverzlun og öðru slíku í sambandi við þessi kosningabandalög. Satt að segja rifjaðist alveg upp fyrir mér, þegar sumir hv. Sjálfstfl.-þm. töluðu hérna núna, hvað Framsókn sagði við okkur á þinginu 1942. Það voru nákvæmlega sömu rökin, sem notuð voru, þegar verið var að tala um, að það yrðu alls konar undarleg bandalög og annað slíkt í sambandi við þetta, og framsóknarþingmennirnir notuðu á móti tvímenningskjördæmunum þá. Þetta kæmi nú dálítið einkennilega við mann, ef maður vissi ekki, hvernig breytingarnar væru orðnar. Það sem af er öldinni, hefur Sjálfstfl. venjulegast staðið með verkalýðsflokkunum í því að breyta stjórnarskránni þannig, að það yrði meira réttlæti, og það hefur verið af þeim eðlilegu ástæðum, að borgarastéttin íslenzka hefur átt einmitt sameiginlega hagsmuni með verkalýðnum í því að veita bæjunum, þéttbyggðinni, jafnóðum sem hún skapast, mannréttindi og jafnrétti, þar sem hins vegar öll gamla kjördæmaskipunin var miðuð við sveitirnar og þeirra vald. 1933–34 stefndu þess vegna Sjálfstfl. og verkalýðsflokkarnir saman í þessari baráttu alveg eins og 1942. Framsókn stendur þarna á móti. Framsfl. hafði um tíma haft meiri hluta hér á Alþ., þó að hann hefði minni hluta með þjóðinni, og það var sú aðstaða, sem hann hafði hugsað sér að reyna að halda, og sú aðstaða, sem hann hefur alltaf verið að reyna að halda í. En nú hefur það gerzt, að Sjálfstfl. hefur tekið upp einmitt þessa framsóknaraðferð, gerir sér sömu vonirnar og Framsókn gerði sér einu sinni og reynir nú með sömu röksemdum og Framsókn beitti áður að halda í, þegar reynt er nú með lögum, þó að það hafi áður verið með stjórnarskrárbreytingum, að miða eitthvað í þá átt að skapa meira réttlæti.

Það er engum vafa bundið, að það er hægt að laga þá agnúa á þessu frv., sem menn kynnu að álíta að einhverju leyti annars að kynnu eitthvað að snerta sum ákvæði stjórnarskrárinnar um of. Það er hægt að laga það, og það er alveg nauðsynlegt að laga ýmsa hluti í því. Það nær t. d. ekki nokkurri átt að heimila kosningabandalög, sem eru aðeins í einstökum kjördæmum, og er raunverulega í mótsetningu við alla þá hugmynd, sem á bak við þetta frv. liggur. Kosningabandalög í einstökum kjördæmum þýða bara röskun. Svo framarlega sem einmitt á að reyna að skapa þann kost, sem það væri, að þjóðin vissi, að hverju hún væri að ganga um stjórnarmyndanir fyrir kosningar, þá verður kosningabandalag óhjákvæmilega að ná til allra kjördæma. Tveir eða fleiri flokkar yrðu að vera fastbundnir um það að haf.a bandalag í öllum kjördæmum og vinna saman eftir ákveðinni kosningastefnuskrá, þar sem þeir segja þjóðinni, hvað þeir ætli að gera, svo framarlega sem þeir ná meiri hluta. Það er alveg rétt, að sá feluleikur, sem verið hefur með stjórnarmyndanir á undanförnum áratugum, er alveg óþolandi. Þjóðin hefur hvað eftir annað fengið þveröfuga stjórn út úr kosningunum, þveröfuga við það, sem hún hefur ætlazt til. 1937 kaus t. d. þjóðin 30 vinstri menn á þing. Meðvitandi var hún að vinna að því að skapa vinstri meiri hluta á þingi. Það, sem hún fékk upp úr þeim kosningum, var þjóðstjórnin, argasta afturhaldsstjórn, sem verið hefur til á Íslandi, alveg þveröfugt við það, sem meiri hluti fólksins hafði ætlazt til. 1946 var þjóðin að kjósa alveg sérstaklega ákveðna stjórn, nýsköpunarstjórnina, og alveg sérstaklega um ákveðið mál, á móti herstöðvunum, og hvað fékk hún upp úr kosningunum? Hún fékk það, að nýsköpunarstjórnin var drepin og Ísland gekk inn í hernaðarbandalag, amerísk leppstjórn mynduð á Íslandi. Það er svo sem alveg gefið mál, ef að einhverju leyti væri hægt að stuðla að því með lögum, að þjóðin fengi að vita af því fyrir kosningar, um hvers konar stjórn hún væri að kjósa, þá væri það óskaplegur munur og spor í mjög rétta átt.

Öll þróunin hjá okkur viðvíkjandi kosningarréttinum, kjördæmunum, kosningatilhöguninni í heild hefur gengið í þá átt að komast burt frá einmenningskjördæmunum, komast burt frá möguleikunum á því, að flokkur eða flokkar gætu haft meiri hluta á Alþ., sem væru í minni hluta hjá þjóðinni. Og þessi tilhneiging, þessi þróun hefur verið í ætt við kröfurnar um jafnrétti, um að allir menn, hvar sem þeir búa í landinu og hvaða skoðun sem þeir hafa, eigi að hafa sömu möguleika til þess að hafa áhrif á, hvernig því er stjórnað. Þessar tilhneigingar hafa þess vegna alltaf verið að afgerast, þróunin hefur alltaf verið að ganga í þá áttina að draga úr því ranglæti, sem einmenningskjördæmin voru, svo að ég tali nú ekki um tvímenningskjördæmin, meðan ekki fór fram hlutfallskosning í þeim. Þess vegna er það gefið, að að svo miklu leyti sem þetta frv. miðar í þá átt að skapa meira réttlæti í þessum efnum, réttari útkomu, án þess að einstakir flokkar geti í skjóli þess grætt meira á ranglæti í kjördæmaskipun en þeir gera nú, — að þessu leyti miðar þetta frv. í rétta átt. Og ég efast ekki um, að það sé hægt að laga í n. það, sem eru gallar á því, þannig gallar, sem m. a. Sjálfstfl. hefur bent hérna á. Ég held þess vegna, að þetta frv. sé fyllilega þess virði, að það sé unnið að því að reyna einmitt innan þess ramma, sem stjórnarskráin gefur okkur, möguleika til að bæta eins og hægt er úr því ranglæti, sem nú á sér stað í sambandi við þá útkomu í kosningunum, sem skekkir alveg vilja fólksins í landinu. Ég er þess vegna eindregið á því, að þetta frv. eigi að fara til nefndar nú og það eigi að reyna þar að laga þá galla, sem á því eru, og að frv. sem heild brjóti engan veginn í bága við stjórnarskrána og það sé satt að segja undarlegt, að það sé komið fram með þá hluti eftir þá meðferð, sem stjórnarskráin hefur fengið áður hér á Alþingi.