16.11.1953
Neðri deild: 23. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í C-deild Alþingistíðinda. (2610)

85. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Sjaldan hafa stjórnmálariddarar riðið jafngeyst að heiman og ræðumenn Sjálfstfl. í umræðunum s.l. föstudag, og sjaldan hafa stjórnmálariddarar riðið jafnhógværir heim til sín og þeir gerðu að þeim loknum. Allt, sem þeir höfðu sagt, hafði verið hrakið, öll meginatriði, sem þeir höfðu fært fram gegn þessu frv., höfðu verið hrakin gersamlega. Meira að segja gamansemin, sem þeir höfðu reynt að beita í ræðum sínum, varð fyrst og fremst að gamansemi um þá sjálfa og fortíð þeirra í þessum málum. Frv. átti að vera stjórnarskrárbrot, það átti að tryggja föllnum þm. þingsæti og það átti að lögleiða pólitískt brask. Allt saman var þetta afsannað rækilega.

Er frv. stjórnarskrárbrot? Hvað stendur í stjórnarskránni um þessi atriði? Þar er kveðið á um tölu þm., þar er kveðið á um kjördæmaskipun, hvort kosið skuli í einmenningskjördæmum, tvímenningskjördæmum eða stærri kjördæmum með hlutfallskosningu, og þar er kveðið á um úthlutun uppbótarþingsæta. Við engu þessara atriða — við bókstaflega engu þeirra er hið minnsta haggað í þessu frv. Allt saman helzt þetta óbreytt. Frv. fjallar aðeins um breytta aðferð við kosningar frá því, sem nú er. En einmitt í stjórnarskránni er kveðið svo á, að í kosningalögum skuli kveðið á um kosningaaðferðina. Það er gert í núgildandi kosningalögum, og þetta frv. breytir þeim ákvæðum nokkuð. Það tekur af öll tvímæli um, að þetta frv. snertir ekki stjórnarskrána, að nákvæmlega sams konar ákvæði og hér hefur verið lagt til að tekin verði í okkar kosningalög hafa verið í gildi í tveim nálægum löndum, Noregi og Svíþjóð, um langan aldur. Mér vitanlega hefur engum, hvorki lögfróðum manni né ólögfróðum, dottið í hug þar í landi að halda því fram, að ákvæði um kosningabandalög, eins og giltu þar og lagt er til að gildi hér, breyti grundvallaratriðum í stjórnarskránni. En eins og kunnugt er, er okkar stjórnarskrá grundvölluð á alveg sömu grundvallaratriðum og stjórnarskrá Norðmanna og Svía.

Frv. átti að tryggja föllnum þm. þingsæti. En sannleikurinn er sá, að það tryggir, ef að lögum yrði, miklu frekar en nú, að meiri hluti kjósenda standi á bak við kjörinn þm. Samkvæmt núgildandi reglum getur hæglega svo farið, að þm. sé kjörinn, þótt hann hafi ekki þriðjung af kjósendum bak við sig. Ef flokkar eru margir í kjördæmi, gæti hann verið kjörinn, þótt hann hefði ekki nema fimmtung kjósenda á bak við sig. En með þessu frv. er bandalagi gefinn kostur á því að njóta sama réttar og stærsti flokkurinn hefur nú, og þá eru tvímælalaust auknar líkur fyrir því, að það stæði meiri hluti kjósenda á bak við kjörinn þm., frá því, sem nú á sér stað. Með þessu væri því stigið stórt spor í þá átt, að þm. verði því aðeins kjörinn, að meiri hluti kjósenda í kjördæminu standi á bak við hann. Sannleikurinn er þveröfugur við það, sem ræðumenn Sjálfstfl. vildu vera láta.

Frv. átti að tryggja pólitískt brask vegna þess, að farið væri aftan að kjósendum. En sannleikurinn er þveröfugur. Það útilokar einmitt pólitískt brask. Nú á sér stað pólitískt brask í sambandi við kosningar að því leyti, að sex flokkar ganga til kosninga, hver með sína stefnuskrá, og enginn kjósandi veit, hvaða stjórn hann er að kalla yfir sig eftir kosningar með því að greiða ákveðnum flokki atkvæði sitt. Það veit enginn kjósandi í kosningum, hvers konar stjórn kemur upp úr kosningunum. Hann veit ekkert um það, hvort mynduð verður hægrisinnuð stjórn, vinstrisinnuð stjórn, flokksstjórn eða samsteypustjórn tveggja, þriggja eða fjögurra flokka. Það er pólitískt brask í kosningum, að flokkar skuli geta komizt upp með það að láta ekki í ljós skýrt og ákveðið fyrir kosningar, hvers konar stjórnarsamvinnu þeir ætla að taka upp eftir kosningar, og einn kjarni frv. miðar einmitt að því að torvelda slíkan óheiðarleika í kosningabaráttu, að torvelda slíkt kosningabrask. Það stuðlar að því að skapa hreinar línur fyrir kosningar í stað þeirra óhreinu lína, sem verið hafa í öllum kosningum hér síðan í kosningunum 1934.

Þegar þetta er athugað, þá er í raun og veru ekkert undarlegt, þó að hv. ræðumenn Sjálfstfl. hafi riðið hljóðir og hógværir heim frá umr. s. l. föstudag. Og þá er kannske líka skiljanlegt, að reynt skyldi að bæta þetta upp með stórum fyrirsögnum og myndum í Morgunblaðinu, en Morgunblaðið eyddi á þessar umr. s. 1. föstudag meira rúmi en það hefur eytt í nokkrar aðrar umr. undanfarin þing hér á Alþ. Það var beitt stærsta fyrirsagnaletri, fimm dálka fyrirsögn með stærsta letri, sem Morgunblaðið hefur yfir að ráða. Það var eytt álíka púðri í það að lyfta undir ræðumenn Sjálfstfl. í þessum umr. eins og þegar sagt var frá friðarsamningunum í síðustu heimsstyrjöld og þegar sagt var frá láti Roosevelts og Stalins. Svo merkileg tíðindi þóttu hér hafa verið á ferðinni, svo nauðsynlegt þótti að bregða svolitlum ljóma á riddarana eftir heimreið þeirra úr umr. á föstudaginn.

Hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) talaði í ræðu sinni rétt eins og til væri aðeins ein regla til að reikna út, hverjir hefðu náð kosningu í kjördæmum með hlutfallskosningu, þar sem kosnir eru fleiri en tveir menn og raunar þó aðeins tveir séu kosnir. Allir, sem þekkja rækilega til þess, sem snertir kosningatilhögun í stjórnskipunarlögum, vita, að mörgum aðferðum má beita í þessu sambandi og að sú aðferð, sem hér er beitt og hefur verið algengust, hin svo kallaða de Hondt-aðferð, að deila með tveimur, þremur, fjórum, fimm og þar fram eftir götunum, er mjög umdeild og engan veginn einhlít. Það er eðli hennar að ívilna stærsta flokknum, en aftur á móti halla mjög á hina minni, svo sem greinilega sést á því, að við beitingu hennar hér í alþingiskosningum er niðurstaðan sú, að Sjálfstfl. með 39% af atkvæðum bak við sig fær 50% af kjörnum þm., fær 4 af 8 þm. Alls staðar annars staðar, þar sem um þessi mál hefur verið rætt af viti og þar sem menn þekkja til þeirra mála, sem þeir eru að ræða um, hefur mönnum orðið mjög ljóst, að þetta er mjög hæpið, og tilhneigingin er alls staðar í þá átt að breyta þessari aðferð til þess að skapa réttlátari hlutföll í úrslitum kosninganna. Og eins og ég skýrði frá í ræðu minni á föstudaginn, var þetta einmitt gert bæði í Noregi og Svíþjóð til þess að rétta hlut smáu flokkanna, um leið og þeir voru sviptir skilyrðunum til kosningabandalaga, og þess vegna er það líka þannig eins og ég sagði frá, að ef þeirri aðferð, sem nú gildir í Noregi og Svíþjóð og allir flokkar sameinuðust um að teija skynsamlegri og réttari en de Hondt-aðferðina, sem beitt var þar og beitt er hér enn, þá hefðu kosningaúrslitin hér í Reykjavík á s. l. ári orðið önnur en þau urðu, fjórði þm. Sjálfstfl. hefði fallið. Ég hygg, að það sé hv. 7. þm. Reykv., sjálfur borgarstjórinn í Reykjavík, sem samkvæmt núgildandi ákvæðum í Noregi og Svíþjóð hefði fallið hér í sumar, en fyrrv. 8. þm. Reykv., frambjóðandi Framsfl., Rannveig Þorsteinsdóttir, hefði komizt að. Það er því rétt fyrir hv. þm. Sjálfstfl. að hugsa sig vel um, ef þeir mæla með því að taka upp núgildandi skipun á Norðurlöndum, en þeir vísa mjög í það, að nú sé búið að afnema kosningabandalög á Norðurlöndum. Ef þeir vilja taka sér Norðurlöndin til fyrirmyndar, þá verða þeir líka að mæla með því að breyta aðferðinni við útreikning í hlutfallskosningum með þessum afleiðingum að óbreyttum atkvæðatölum. Hvort tveggja hefði engum á Norðurlöndum dottið í hug að gera, að banna kosningabandalögin og hafa óbreytta hlutfallstöluaðferð. Þetta tvennt fer ekki saman. Annaðhvort var að leyfa kosningabandalögin áfram og hafa þá óbreytta hlutfallstöluaðferð eða afnema kosningabandalögin og breyta útreikningsaðferðinni til þess að halla ekki óeðlilega á minni flokkana. Sjálfstfl. ætti því að hugsa sig vel um, áður en hann tekur mjög skarpa afstöðu gegn kosningabandalagshugmyndinni, með tilvísun til þess skipulags, sem bræðraþjóðir okkar í Noregi og Svíþjóð hafa tekið upp, því að það er ekki hægt að vísa til afnáms kosningabandalaganna þar, nema því aðeins að vera reiðubúinn að taka upp hina breyttu útreikningsaðferð, sem þessar þjóðir tóku upp.

Ræðumenn Sjálfstfl. töluðu um þetta frv. eins og það væri frv. um kosningabandalag Framsfl. og Alþfl. Þetta er í raun og veru eitt gleggsta dæmið um alger rökþrot þessara hv. ræðumanna í umr. Frv. er um kosningabandalög almennt. Allir flokkar gætu hagnýtt sér ákvæðin Framsfl. og Sjálfstfl., eða stjórnarflokkarnir, gætu hagnýtt sér þau og hvaða aðrir tveir, þrír eða fjórir flokkar sem væru.

Það er rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. benti á, að útkoman er nokkuð mismunandi eftir því, hverjir hagnýta sér kosningabandalögin. Kosningabandalögin verða til þess að auka hlutfallslega fulltrúatölu bandalaganna á Alþ., og þau geta gert fulltrúaskiptinguna réttlátari en hún yrði án bandalaga. En hugsanlegt er líka, að misréttið ykist, ef þeir flokkar, sem fæsta þm. hafa á bak við sig núna, mynduðu kosningabandalag. Fyrir fram verður ekki um þetta vitað. Það er eins um þetta og allar kosningareglur, að það er ekki hægt að miða ákvæðin í heild við það, hverjir koma til með að nota sér þau. Þess vegna verður að ræða þessi mál algerlega sem meginreglu, og þá er aðalatriði í sambandi við málið það, að allar líkur eru á því, að það mundi stuðla að því, að auðveldara yrði að mynda samhentan meiri hluta á Alþ. og að minni flokkarnir hefðu með þessu fyrirkomulagi skilyrði til að njóta sama réttar og einn stór flokkur hefur nú, og er það kjarni málsins.

Hitt er svo annað mál, að það er spaugilegt, að Sjálfstfl., sem nú er í stjórnarsamstarfi við Framsfl., skuli tala um það sem hreinan glæp, ef Framsfl. hefði kunnað að detta í hug að ganga í kosningabandalag við Alþfl., en allur bægslagangur í hv. Sjálfstfl. er auðsjáanlega við það miðaður, að samstarfsflokkurinn í ríkisstj. kunni nú að sitja á einhverjum svikráðum við Sjálfstfl. og gæti hugsað sér að samþykkja þetta frv. með það bak við eyrað, að takast kynni málefnasamstaða með honum og Alþfl. í sambandi við kosningar. Sjálfstfl., sem nú er trúlofaður Framsfl. í stjórnarsamstarfi, er m. ö. o. logandi hræddur um að missa kærustuna til annars flokks. Við í Alþfl. höfum ekki svo náin samskipti við Framsfl., að við höfum nokkra hugmynd um það, hvort sá flokkur kann að hafa einhver slík brigð í huga við núverandi kærasta sinn, og við hugsum ekki sérlega mikið um það. Frv. er borið fram sem almenn hugmynd til þess að leiðrétta áberandi galla, sem nú eru á kosningakerfinu. Þegar það hefur verið samþykkt, þá er komið algerlega nýtt viðhorf í íslenzkum stjórnmálum, sem þá mundi auðvitað verða athugað. En hitt er spaugilegt, að Sjálfstfl. skuli bregðast þannig við málinu, að í ljós komi ótti við að missa núverandi kærustu í stjórnmálunum, Framsfl. Þetta verður enn þá spaugilegra, þegar það er haft í huga, hvernig þessi kærasta hefur reynzt Sjálfstfl. á undanförnum árum, en þessir flokkar eru búnir að vera pólitískt trúlofaðir nú í 3 ár. Sannleikurinn er sá, að Framsfl. hefur ekki reynzt svo góður kærasta sínum, að ástæða væri til að halda, að Sjálfstfl. væri sérstök eftirsjá að kærustunni. Þess er skemmst að minnast, að Framsfl. samþykkti vantraust á hæstv. dómsmrh. á flokksþingi sínu. Þetta var auðvitað mikil hneisa fyrir dómsmrh. og þann flokk, sem hafði sett hann í þetta sæti og vildi halda honum í sætinu. Á það má líka minna, að sjálfur fyrrverandi forsrh., núverandi landbrh., sagði fyrir síðustu kosningar í framboðsræðu á Siglufirði, að innan Sjálfstfl. væri að finna einhver spilltustu öfl, sem nú fyndust í íslenzku þjóðfélagi. Eftir þessar kveðjur, sem Sjálfstfl. hefur fengið frá Framsfl. alveg nýverið, kemur það satt að segja mjög undarlega fyrir sjónir, að hann skuli ætla að tryllast af tilhugsuninni um að missa þá kærustu, sem hefur leikið hann svona.

Það er ein af aðalfyrirsögnunum í Morgunblaðinu á laugardagsmorguninn í frásögninni af umr. á föstudaginn var, að það væri lýðræðishugsjón Alþfl. að 37% af greiddum atkvæðum skyldu duga til þess að fá 52% af kjörnum þm. Þetta prentaði Morgunblaðið, þó að búið væri að skýra frá því hér í ræðum á föstudaginn var, að lýðræðishugsjón Sjálfstfl. væri sú, að hér í Reykjavík fengi hann helming, 50%, kjörinna þm. út á 39% greiddra atkvæða. Það fannst Sjálfstfl. sjálfsagt, en síðan er það efni í stórt fyrirsagnaletur og mikla hneykslun, ef þetta frv. gæti leitt til þess, að út á 37% kjósenda kæmu 52% kjörinna þm. Sjá nú ekki allir hv. þdm., um hvers konar málflutning hér er að ræða? Sjálfstfl. ætlar af göflunum að ganga, ef svo gæti farið, að aðrir flokkar fengju nákvæmlega sama rétt og hann hefur nú. En þetta er þó ekki allt. Mig rámar í það, að það hafi verið ein af aðalkosningabombum Sjálfstfl. í síðustu kosningum, hvað nærri lægi, að Sjálfstfl. gæti fengið hreinan meiri hluta í þessum kosningum. Ég fletti Morgunblaðinu kosningamánuðinn til þess að athuga, hvort þar væri ekki einhverjar skýrar heimildir að finna um þessar tilraunir Sjálfstfl. til þess að fá hreinan meiri hluta í síðustu kosningum út á tiltölulega fá atkvæði. Og ég þurfti ekki að fletta mjög lengi. 23. júní 1953 stendur í feitum og gleiðgosalegum ramma í Morgunblaðinu þessi klausa, og það er auðséð, að þetta átti að vera ein af stóru bombunum í þeim kosningum. Hún er mjög stutt og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aldrei fyrr hefur Sjálfstæðisfl. átt eins glæsilega sigurmöguleika og í væntanlegum þingkosningum. Ekki skortir sjálfstæðismenn nema 344 atkv. frá andstæðingum sínum til þess að vinna 10 ný kjördæmi og fá með því hreinan meiri hluta á þingi þjóðarinnar. 344 atkv. standa í vegi fyrir heilbrigðu, ábyrgu meirihlutastjórnarfari á Íslandi í stað pólitískra hrossakaupa samsteypustjórnanna, þar sem illgerlegt er fyrir kjósendur að greina, hvaða flokkur á lof og hver last skilið fyrir stjórnarframkvæmd sína. Atkvæðin, sem Sjálfstfl. skortir, eru þessi: Hafnarfjörður 52, Ísafjörður 5, Siglufjörður 84, Mýrasýsla 9, Dalasýsla 6, Vestur-Ísafjarðarsýsla 82, Vestur-Húnavatnssýsla 50, Norður-Múlasýsla 26, Austur-Skaftafellssýsla 27 og Vestur-Skaftafellssýsla 3.“

Samtals eru þetta 344 atkv.

Þetta var og líklega er lýðræðishugsjón Sjálfstfl., að vinna 10 ný þingsæti út á 344 atkvæði, þ. e. a. s. 34 atkv. bak við hvern kjörinn þm. Þannig er lýðræðishugsjón þessa flokks. Og svo telur hann sig þess umkominn að básúna það út, hvílíkt hneyksli það sé, að svo gæti farið, að aðrir flokkar fengju 52% af kjörnum þm. út á 37% af atkvæðum. Sigur Sjálfstfl. út á þessi 344 atkvæði hefði auðvitað þýtt það, að hann hefði misst þá 2 uppbótarþingmenn, sem hann hafði, svo að heildarþingmannaaukning hefði ekki verið nema 8, en það eru 43 atkv. á þm. Sjálfstfl. ætlaði sér m. ö. o. að vinna hreinan meiri hluta á Alþ. með þm., sem 43 kjósendur stæðu á bak við að meðaltali. Þetta er það lýðræði sem Sjálfstfl. vill, það réttlæti, sem hann vill sitja einn að. Þetta finnst honum ágætt, meðan hann getur einn hagnazt á því, en hann ætlar að tryllast, ef aðrir flokkar, tveir, þrír eða fleiri vilja fá sömu möguleika. Sjálfstfl. tókst hluti af þessari fyrirætlun sinni. Hann vann tvo nýja þm., tvö þingsæti. Ég skýrði frá því síðast, að hann vann þessi tvö nýju þingsæti út á 74 atkvæði. Á bak við hvorn af þessum nýju þm. standa 37 ný atkvæði hjá Sjálfstfl. Honum heppnaðist fyrirætlunin að sumu leyti enn betur en ráðgert var, því að það áttu þó að standa 43 atkvæði á meðaltali á bak við hvern af hinum 8 nýju, en hann fékk 2 út á 74, 37 atkvæði á hvorn. (Gripið fram í: Hvaða þm. er kosinn með 37 atkv.?) Ég sagði síðast, að flokkurinn fékk tvo nýja þm., og atkvæðaaukningin er 74 atkvæði samtals, og það gerir — við kunnum ábyggilega báðir að deila — 37 atkv. á hvorn þm. Eins og ég sagði síðast, gætu þeir komið öllum kjósendum sínum fyrir í einum almenningsvagni. Það hefði átt við um alla hina 8 nýju þm. Sjálfstfl., ef hin stóra áætlun hans hefði tekizt, að hver þm., sem færði flokknum meiri hlutann, hefði getað keyrt hingað með alla kjósendur sína í einum rútubíl. Þetta er lýðræðishugsjón Sjálfstfl. Nú skýrði hv. 2. þm. Reykv. frá því, að eftir síðustu kosningaúrslitum þyrftu ekki nema 164 kjósendur Framsfl. að flytja sig yfir á Sjálfstfl., til þess að hann fengi hreinan meiri hluta. Eftir því sem bilið milli þessara flokka minnkar, er að skapast alveg sérstakt ástand í íslenzkum stjórnmálum.

Það er um að ræða tvær meginleiðir í þessu máli. Annaðhvort er að viðurkenna þessa staðreynd og haga kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulagi á þann veg, að stórar heildir séu styrktar, að heildir, sem eru komnar upp fyrir 35% af atkvæðum, hafa 35–40% af atkvæðum með þjóðinni, hafi skilyrði til þess að fá hreinan meiri hluta. Það er stefna út af fyrir sig. En hin leiðin er svo sú að haga kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulagi þannig, að fulltrúatala á þingi sé sem svipuðust kjósendatölunni. En þetta mál er ekki til umr. hér. Þetta er stjórnarskráratriði, og það er ekki það, sem hér er um að ræða. Þegar stjórnarskráin er rædd, þá má ræða þessar tvær meginreglur, hvort á að styrkja stóru heildirnar á kostnað hinna smáu eða hvort það á að stefna að því, að fulltrúatalan í þinginu sé sem réttust mynd af flokkaskiptingunni með þjóðinni. Um þessar tvær meginreglur má deila, og margt segja til lofs og lasts um hvora um sig. En þetta mál liggur ekki fyrir. Það, sem hér liggur fyrir, er það, að nú hefur stærsti flokkurinn skilyrði til þess að fá hreinan meiri hluta á Alþ. út á aðeins 35–40% af greiddum atkvæðum. Sá möguleiki er fyrir hendi. Hann er svo greinilega fyrir hendi, að stærsti flokkurinn hefur þegar notað það sem stóra kosningabombu að hafa þennan möguleika. Hann er fyrir hendi samkvæmt stjórnarskránni, eins og hún er núna. Það eina, sem lagt er til í þessu frv., er að láta stærsta flokkinn ekki einan hafa þennan rétt, fyrst hann sé fyrir hendi, þá eigi minnihlutaflokkarnir með því að sameina sig líka að hafa sama rétt. Þetta er grundvallarhugsun, sem hefur verið viðurkennd a. m. k. í Noregi og Svíþjóð um áratugi. Þess vegna má það furðulegt heita, að Sjálfstfl., sem hefur ætlað sér að nota réttinn, ætlað sér að græða á því að hafa hann, skuli nú ætla að tryllast, þó að hann sjái framan í frv. um það, að aðrir flokkar fái nákvæmlega sama rétt og hann nú þegar hefur sjálfur.

Þetta er mergurinn málsins. Það er þetta, sem í raun og veru gerir þetta mál að stórmáli, eins og allir hafa vafalaust gert sér ljóst að það er. Það ástand, sem nú ríkir í þessum málum, er algerlega óviðunandi. Auðvitað væri æskilegt, að sjálf stjórnarskráin væri endurskoðuð sem allra fyrst, og þá koma mörg atriði til greina. En ýmislegt bendir til þess, að sú endurskoðun muni dragast á langinn, og meðan hún er ekki um garð gengin, er bráðnauðsynlegt að gera þessa breytingu á kosningalögunum, bráðnauðsynlegt til þess að láta ekki einn flokk hafa skilyrði til að fá meiri hluta, heldur skapa sama rétt fyrir aðra flokka.

Að síðustu vildi ég svo leyfa mér að óska þess, herra forseti, að málinu verði vísað til allshn. og atkvgr. fari fram um það þegar í stað. Það hafa engin frambærileg rök komið fram við þessa umr. fyrir því, að frv. brjóti í bága við stjórnarskrána. Það var rétt hjá hæstv. forseta, öldungis rétt hjá honum, að fallast á að hlýða á mál manna, hlýða á rök manna fyrir því, að einhver ákvæði frv. kynnu að vera hæpin, kynnu að vera á takmörkum þess að brjóta í bága við stjórnarskrána. Ég held, að engum, sem hlýtt hefur á þessar umr., geti blandazt hugur um, að engin slík rök hafa komið fram, og þess vegna er það, að ég óska þess mjög eindregið, að það fari þegar í stað fram atkvgr. um það að vísa málinu til allshn. Mótmæli ég því mjög eindregið, að málið verði tafið með nokkrum hætti.