09.11.1953
Neðri deild: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í C-deild Alþingistíðinda. (2631)

89. mál, olíueinkasala

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hv. þdm. er kunnugt, höfum við þm. Þjóðvfl. flutt hér í þessari deild frv. um kaup á tveimur olíuflutningaskipum. Í sambandi við það frv. eða í eins konar framhaldi af því höfðum við undirbúið að nokkru frv. um olíueinkasölu ríkisins. Nú er fram komið frv. um olíueinkasölu frá hv. þm. Alþfl. hér í þessari d., og vil ég því lýsa því yfir hér, að við þjóðvarnarmenn erum því frv. fylgjandi, eða a. m. k. þeirri meginstefnu, sem þar er mörkuð. Hins vegar kann að vera, og mér þykir líklegt eftir fljótan yfirlestur, að við munum sjá ástæðu til að bera fram nokkrar brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir, og liggja þær þá væntanlega fyrir við 2. umr., en ég vil taka undir þau höfuðrök, sem hv. 1. flm. hefur hér flutt með þessu frv., og lýsa fylgi okkar þjóðvarnarmanna við meginstefnu þess.