16.11.1953
Neðri deild: 23. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í C-deild Alþingistíðinda. (2652)

95. mál, tollskrá o. fl.

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. er lagt til, að nokkrar smávægilegar breytingar verði gerðar á gildandi lögum um tollskrá. Í breytingunum felst fyrst og fremst, að nótnabækur og nótnablöð fyrir hljóðfæri skuli vera tollfrjáls, en um þetta efni gilda nú þær reglur, að íslenzkar nótnabækur eru tollaðar, þegar þær eru prentaðar erlendis, svo sem nær allar íslenzkar nótnabækur eru gerðar, sökum þess að ekki er hægt að prenta nótur með góðu móti innanlands. Nótur eru tollaðar eftir sömu tollstigum og íslenzkar bækur, prentaðar erlendis, en ákvæðin um tollun íslenzkra bóka hafa verið sett sem tollvernd fyrir íslenzka bókagerð. Má segja, að ekki sé óeðlilegt, að nokkur tollur sé greiddur af þeim íslenzkum bókum, sem prentaðar eru erlendis, vegna þess að hægt er að prenta þær innanlands. Um nótnabækur gegnir hins vegar öðru máli. Þær er ekki hægt að prenta hér innanlands. Það verður að prenta þær erlendis, og þess vegna er eðlilegt, að um það gildi sama og um erlendar bækur, sem auðvitað verða ekki prentaðar eða gefnar út hér innanlands, og þær verði einnig tollfrjálsar.

Enn fremur felst það í frv., að grammófónplötur skuli verða tollfrjálsar eins og erlendar bækur. Í raun og veru er enginn eðlismunur á grammófónplötu og bók, hvort tveggja gegnir nákvæmlega sama eða hliðstæðu hlutverki. Meðan bækur eru tollfrjálsar, er eðlilegt, að grammófónplötur séu það líka. Þörf manna fyrir að lesa erlenda bók er alveg sama eðlis og þörf manna fyrir að hlusta á grammófónplötu, og ættu því sömu reglur að gilda um þetta tvennt.

Í þriðja lagi felst það í frv., að helztu hljóðfæri skuli vera tollfrjáls. Rökstuðningurinn fyrir því er sá, að sé um að ræða tæki, sem mikilsverð séu til þess að efla heilbrigt menningarlíf með þjóðinni, þá sé eðlilegt, að þau séu tollfrjáls. Í gildandi lögum er heimild til þess að undanþiggja viss hljóðfæri, sem flutt eru inn fyrir kirkjur og skóla, tolli, og það mun hafa verið gert. Mér og meðflutningsmanni mínum finnst eðlilegt, að sama gildi um þessi hljóðfæri yfirleitt til þess að stuðla að notkun þeirra með þjóðinni og efla þannig þann hluta íslenzks menningarlífs, sem er ekki lítilvægastur, sem sé tónlistarlífið.

Ríkissjóður mundi ekki missa verulega í tekjum, þótt þessi ákvæði yrðu samþykkt. Ég hef ekki getað fengið um það nákvæmar upplýsingar, hvað tollur á þessu á s. l. ári hafi verið mikill, en ég fullyrði, að hér er um fremur smávægilegar upphæðir að ræða. Af þeim sökum þyrftu hv. þm. ekki að líta þetta frv. óhýru auga.

Ég leyfi mér að óska þess, að frv. verði vísað til hv. fjhn.