16.11.1953
Neðri deild: 23. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í C-deild Alþingistíðinda. (2658)

98. mál, almannatryggingar

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það eru enn þá einu sinni fluttar hér brtt. við almannatryggingalögin. Þessi löggjöf var sett 1946 og þá miðuð við þær fjárhagslegu aðstæður, sem þjóðin hafði við að búa og voru einhverjar þær glæsilegustu, sem nokkru sinni hafa komið yfir íslenzku þjóðina. En því hefur nú ekki verið svo farið á undanförnum árum, að það sé hægt með sanni að segja, að tekjur þjóðarinnar hafi verið jafnglæsilegar og þær voru á þeim tíma. Löggjöfin var einmitt við það sniðin, að hagur þjóðarinnar yrði ekki verri á komandi árum en hann var á þeim tíma, sem lögin voru samþykkt. En mér er vel kunnugt um það, að þessi löggjöf hefur komið mjög illa við mörg minni sveitarfélög þessa lands, ég tala nú ekki um, þar sem kannske þriðjungur eða helmingur af bændabýlunum í sumum sveitum er kominn í eyði og þau fáu býli, sem eftir eru, verða að rísa undir þeim útgjöldum, sem miðuð eru við allar fasteignir sveitarinnar, eins og þær væru fullnytjaðar, og svo eru kannske sumir hinir sömu einstaklingar líka það illa stæðir, að þeir eru ekki skyldugir samkv. almannatryggingal. að greiða sín iðgjöld, þannig að viðkomandi sveitarfélag verður að greiða þau fyrir þá, og er slíkt erfitt að þola til lengdar.

Það er líka margt varðandi þessa löggjöf, sem þarf mjög gaumgæfilegrar athugunar við, og vil ég beina því til þeirrar n., sem fer með þessi mál, að almannatryggingalögin verði verulega tekin til endurskoðunar. Ég vil benda á það t. d., að atvinnurekendagjöldin eru mjög ósanngjörn. Mér finnst það ósanngjarnt, t. d. til sveita, að þeir bændur, sem búa við mesta örðugleikana hvað alla tækni snertir og verða að halda flest verkafólk, verði þess vegna að borga margfalt meira til almannatrygginganna en hinir, sem hafa meiri tækni og þurfa þess vegna færra fólk í sinni þjónustu. Það er því óhugsandi, eins og sakir standa nú, að aukaútgjöld Tryggingastofnunar ríkisins án þess að tekjustofnarnir séu jafnframt teknir til gaumgæfilegrar athugunar. Og það er einnig það, sem ég vil beina til n., sem fer með málið, að sú hlið málsins sé ekki síður tekin til meðferðar en útgjaldaliðirnir. Ef Tryggingastofnunin á að geta sinnt sínu hlutverki: að vera traust stoð þeim aðilum, sem eiga að njóta réttinda samkv. lögum hennar, þá verða fyrst og fremst tekjustofnarnir að vera traustir. Og ég hygg, að það sé kannske nokkuð að bresta á það nú, að tekjustofnarnir séu eins traustir og vera skyldi.

Á s. l. ári voru réttindi manna samkv. þessari löggjöf aukin allverulega frá því, sem áður var. Þá var samþ. af Alþ., að það væri í raun og veru engin fjölskylda í þjóðfélaginu, sem gæti séð fyrir tveimur börnum og fleiri án þess að fá einhvern styrk frá því opinbera. Slíkt hlýtur að vera fjarstæða ein. Það kann að vera undir einstökum kringumstæðum, að þörf sé á því að greiða með öðru og þriðja barni í fjölskyldu, en sem betur fer, þá held ég undir flestum kringumstæðum, að flestum þætti sinn sómi meiri, ef þeir þyrftu ekki á slíku að halda. En því hefur verið haldið fram, að með því að breyta þessu ákvæði væru rofnir þeir samningar, sem voru gerðir fyrir ári, þegar vinnudeilurnar stóðu yfir. Það kann vel að vera, að svo sé, en ég hygg þó, að þetta verði áður en langt um líður að taka til gaumgæfilegrar athugunar. Ég sé ekki, að hinum fátækari stéttum líði neitt betur fyrir það, þó að þeir, sem betur eru stæðir í þessu þjóðfélagi, taki ekki á móti slíkum styrk. Ég sé ekki, að það þurfi að koma neitt við kaupsamning, og þess vegna vil ég beina því til n., að hún taki þetta atriði einnig til athugunar, því að ef nú samkv. þessu frv., sem fyrir liggur, ætti að auka útgjöld Tryggingastofnunarinnar, þá mundi það þýða það, að tekjur þeirra, sem njóta réttinda samkv. þessum lögum, yrðu enn þá óvissari í framtíðinni en verið hefur, að það er vitað, að Tryggingastofnunin bar sig ekki 1952, og enn þá meiri líkur til þess, að hagur hennar hafi farið versnandi á yfirstandandi ári. Þess vegna finnst mér tæplega hægt að bera fram svona frv. eins og það, sem nú er til umræðu, nema jafnframt komi tillögur um það, á hvern hátt Tryggingastofnuninni verði séð fyrir þeim tekjum, sem geta risið undir þeim útgjöldum, sem hún hefur þurft að inna af hendi á undanförnum árum og kynni að þurfa að inna af hendi samkv. þessu frv., ef það yrði að lögum.