19.11.1953
Neðri deild: 25. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í C-deild Alþingistíðinda. (2662)

102. mál, fiskiskipasmíð innanlands

Flm. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Frv. það til laga, sem hér liggur fyrir á þskj. 173 og flutt er af þm. Sósfl., er um það, að ríkissjóður skuli lána fiskveiðasjóði Íslands 20 millj. kr. á árinu 1954 og skuli sjóðurinn lána þetta fé til smíði fiskibáta innanlands. Þá er gert ráð fyrir því, að lánin skuli veitt til 20 ára og vextir séu ekki hærri en 4%. Ríkissjóði verði heimilað að taka á þessu ári 20 millj. kr. lán innanlands eða erlendis.

Það ætti að vera óþarfi að fjölyrða í löngu máli um nauðsyn þess, að Íslendingar smíði sjálfir fiskiskip sín. Um þetta hafa þó verið allskiptar skoðanir. Menn hafa haldið því fram, að íslenzk skip eða skip smíðuð í íslenzkum skipasmíðastöðvum væru ekki samkeppnisfær við erlendar skipasmíðastöðvar. Þessi skoðun mun vera mjög hæpin, þegar allar aðstæður eru athugaðar nánar. Það er alkunna, að flestir þeir fiskibátar, sem fluttir hafa verið til landsins, hafa þurft allmikillar aðgerðar við, auk þess sem flestir þessara erlendu báta hafa ekki reynzt eins traust og góð sjóskip og þeir, sem smíðaðir hafa verið innanlands. Sérstaklega hefur þetta þó komið greinilega í ljós, þegar um notuð skip hefur verið að ræða, sem keypt hafa verið inn erlendis frá. Þá hefur verið um að ræða margvíslegar aðgerðir bæði á skipi og vél o. s. frv. Skipin hefur orðið að taka til stórfelldrar viðgerðar og setja í þau ýmis nauðsynleg tæki, sem eru í íslenzkum fiskiskipum, jafnvel umfram það, sem er oft og tíðum í þeim erlendu. Útkoman hefur því orðið sú, að þessi notuðu erlendu skip hafa orðið eins dýr og þó að þau hefðu verið smíðuð hérlendis. En eitt er staðreynd, að gamalt verður alltaf gamalt og verður aldrei nýtt, hvað mikið sem gert er við það og hvað miklu sem til þess er kostað.

Nokkur undanfarin ár hefur nýsmíði fiskibáta í innlendum skipasmíðastöðvum stöðvazt að mestu leyti. Skipasmíðastöðvunum hafa ekki borizt nein verkefni í nýsmíði. Til þessarar öfugþróunar liggja margar orsakir; þó mun hafa valdið mestu hin alþekkta lánsfjárkreppa, sem legið hefur eins og mara á öllu atvinnulífi Íslendinga nú undanfarin ár. Ég þekki fjöldamarga dugandi sjómenn og útgerðarmenn, sem hefðu viljað ná sér í góðan fiskibát og ekkert kosið frekar en að fá hann smíðaðan hér innanlands. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, göngu eftir göngu til nefnda og aftur nefnda, til banka og aftur banka, til viðræðu um útvegun fjár til bátakaupanna, hefur þeim ekki tekizt að fá neina aðstoð til slíkra framkvæmda. Skipasmíðastöðin hefur misst af smíðinni, sjómennirnir af bátnum og vonir verkafólks í landi um aukna atvinnu í sambandi við ný fiskiskip í bæinn eða sjávarþorpið hafa að engu orðið.

Þá hefur hinn illræmdi söluskattur haft sín áhrif í þá átt að gera innlendum skipasmíðastöðvum erfiðara fyrir og hækka verð skipanna um allverulega upphæð. Innlendar skipasmíðastöðvar hafa að mestu verið starfræktar sem viðgerðarstöðvar fyrir bátaflotann. Vöntun á nýsmíðum, á nýjum verkefnum, hefur leitt til þess, að skipasmíðastöðvarnar hafa misst úr þjónustu sinni marga ágæta fagmenn. Samtök iðnaðarmanna hafa margbent á hættuna, sem af slíkri öfugþróun stafar, og ef ekki fengist grundvöllur fyrir nýsmíði fiskibáta, væri rekstrargrundvelli stöðvanna stefnt í beinan voða, þar sem algerlega vantaði verkefni yfir langan tíma á hverju ári.

Fiskifélag Íslands hefur á undanförnum árum birt fróðlegar skýrslur um skipasmíði, skipabrautir o. fl. Á þessum skýrslum sést, hvað samdrátturinn í þessari iðngrein hefur verið mikill undanfarin ár og hvað fiskibátafloti landsmanna hefur minnkað. Er á þetta bent í grg. í frv., og læt ég nægja að vísa til hennar um þetta mál að mestu leyti. Þó er rétt að benda á, að á árinu 1946 voru smíðaðir 16 nýir bátar, alls um 800 rúmlestir, og þá unnu 448 menn við skipasmíðar hérlendis. 1947 voru smíðaðir 17 bátar alls, um 900 rúmlestir; þá unnu við slíkan atvinnurekstur 420 manns. Það er rétt að taka það fram, að þarna eru ekki meðtaldir vélsmiðir eða vélvirkjar. Þá var líka mikill framfarahugur hjá íslenzku þjóðinni, þá var engin tilbúin lánsfjárkreppa, enda hafði þá hin óheillavænlega hernámsstefna ekki gegnsýrt atvinnulíf landsmanna, eins og síðar varð. Síðan 1947 hefur stöðugur samdráttur á þessu sviði átt sér stað. Árin 1951 og 1952 er svo komið, að nýsmíði fiskiskipa og báta innanlands er úr sögunni að mestu eða öllu leyti.

Öllum, sem um þessi mál hugsa, verður að vera það ljóst og er það ljóst, að hér er stefnt í beinan voða með þennan atvinnuveg, ef ekki verður farið inn á nýjar brautir, sem leitt geti til úrbóta á þessu sviði. Þörfin fyrir endurnýjun og stóraukningu fiskiskipastólsins er knýjandi nauðsyn. Eftirspurn eftir fiskibátum fer nú ört vaxandi. Nú stendur til og er reyndar hafinn innflutningur notaðra fiskibáta erlendis frá í tugatali. Það má vel vera, að margir þessara innfluttu báta séu sæmileg sjóskip, en eitt er víst, og það er, að þessi erlendu skip og vélarnar, sem í þeim eru, eru nokkurra ára gömul og ekki byggð eftir þeim kröfum, sem gerðar eru, þegar um nýsmíði fiskiskipa innanlands er að ræða, enda hefur reynslan sýnt það og mun halda áfram að sýna það, að notaðir fiskibátar, keyptir erlendis frá, verða eigendunum ekki ódýrari, þegar allt kemur til alls, en bátar af sömu stærð smíðaðir innanlands. Í nokkrum skipasmíðastöðvum hér og þó aðallega við Faxaflóa er nú hafin nýsmíði fiskibáta. Enn þá eru flestar skipasmíðastöðvarnar annars staðar á landinu, sem enga nýsmíði hafa með höndum. Margir aðilar víðs vegar um land hafa fullan hug á því að fá smíðuð traust og góð fiskiskip og báta innanlands. Alls staðar er mikil þörf fyrir ný fiskiskip og báta, fólkið víðs vegar í sjávarþorpum og kaupstöðum landsins beinlínis bíður eftir nýjum skipum og bátum í plássin og það vill mikið á sig leggja til að fá þessi nauðsynlegu framleiðslutæki. Sjómennirnir íslenzku vilja stunda fiskveiðar á góðum og öruggum skipum, og verkafólkið í landi vill fá að vinna við nýtingu aflans í vel uppbyggðum fiskvinnslustöðvum. Vinnandi stéttir Íslands krefjast þess að fá að vinna við hagnýt störf, hver heima í sínu byggðarlagi, og losna þar með undan því ófremdarástandi að þurfa að sækja vinnu suður á Keflavíkurflugvöll til erlends stórveldis við byggingu hernaðarmannvirkja og þess háttar.

Það, sem vantar til að tryggja stóraukna fiskiskipabyggingu innanlands, er aukin lánastarfsemi til slíkra framkvæmda. Þessu frv., ef að lögum verður, er ætlað að greiða fyrir því, að svo geti orðið. Eins og bent er á hér í grg., má það teljast nokkurn veginn öruggt, að fái fiskveiðasjóður 20 millj. kr. lán, mun það fé nægja til að hrinda af stað smíði 25–30 vandaðra og stórra fiskibáta í innlendum skipasmíðastöðvum. Auk þess ætti stofnlánadeild sjávarútvegsins að hafa yfir að ráða allmiklu fé, sem hægt væri að lána út til eflingar útgerðinni og vinnslustöðvum í landi, ef frv. það, sem hv. 2. þm. Reykv. (EOl) o. fl. flytja á þskj. 58, um breytingar á stofnlánadeildarlögunum, nær fram að ganga.

Þá er rétt að benda á sem þýðingarmikil rök í þessu máli, að ef skipasmíðastöðvarnar fá næg verkefni við nýsmíði fiskibáta og skipa, tryggja þær hundruðum Íslendinga örugga atvinnu og þjóðinni munu sparast milljónir í gjaldeyri. Þjóð, sem vill í raun og sannleika teljast sjálfstæð, verður að keppa að því að byggja upp atvinnuvegi sína á sem öruggastan og beztan hátt. Það gildir jafnt um alla höfuðatvinnuvegi okkar Íslendinga, landbúnaðinn, sjávarútveginn, siglingarnar og iðnaðinn. Það er því óumdeilanleg skylda Alþingis að vera vel á verði í hvert sinn, sem það sýnir sig, að einhver grein af þessum aðalatvinnuvegum þjóðarinnar er að verða á eftir tímanum og getur ekki fullnægt þeim kröfum, sem til hennar eru gerðar á hverjum tíma. Jafnframt er það óumdeilanleg skylda ríkisvaldsins og Alþingis að styrkja þessa atvinnuvegi með öllum ráðstöfunum sem hægt er, svo sem með útvegun nauðsynlegs fjármagns og öðrum þeim fyrirgreiðslum, sem nauðsynlegar eru og kunna að teljast á hverjum tíma. Við Íslendingar erum lánsamir að búa í ágætu landi. Í hafinu kringum strendur þess eru einhver auðugustu fiskimið í heimi. Meðal okkar er einhver duglegasta og afkastamesta sjómannastétt í heimi, sem aflar meiri verðmæta með starfi sínu á sjónum en nokkur önnur þjóð í veröldinni, miðað við fjölda þeirra manna, sem fiskveiðar stunda. Markaðir fyrir íslenzkar fiskafurðir eru sífellt að aukast. Alls staðar blasa við stór verkefni, ef við bærum gæfu til að nota þau. Það þarf að skapa hjá þjóðinni aukna trú á landið og gæði þess. Það verður að skaffa öllum íslenzkum starfsstéttum næg íslenzk verkefni til að starfa við. Það er bezta og eina varanlega vörnin fyrir okkar sjálfstæði og okkar frelsi.

Ég vonast svo til þess, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og sjútvn.