08.02.1954
Neðri deild: 42. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í C-deild Alþingistíðinda. (2677)

125. mál, húsaleiga

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, af því að mér fannst hæstv. ráðh. hafa misskilið nokkuð orð mín. Í fyrsta lagi það, að ég hefði mælt gegn frv. Ég gerði það að vísu í því formi, sem það liggur fyrir nú, en tók, að ég hygg, mjög skýrt fram, að ég áliti, að það væri mikil nauðsyn á því að lögfesta almenn ákvæði um samskipti leigusala og leigutaka, eins og lagt er til í hinum almennu ákvæðum þessa frv., enda var í n., sem undirbjó frv., enginn ágreiningur um það efni og nm. allir sammála um þessi atriði. Af þeim sökum get ég ekki talið, að ég hafi mælt gegn frv., nema síður sé. Hins vegar var, eins og hæstv. ráðh. gat um, ágreiningur um hin sérstöku atriði, sem snerta bindingu húsnæðis og umráðaréttar yfir því, sem um ræðir í X. og XI. kafla frv.

Það var sérstaklega eitt, sem hæstv. ráðh. sagði, sem ég vildi leiðrétta, að ég hefði haldið því fram, að það væri betra að taka bindingarákvæðin upp sem lögfestingu heldur en sem heimildarákvæði fyrir bæjarstjórnir. Ég sagði það ekki sem mína skoðun, heldur gat ég um, að það sjónarmið hefði komið fram í umræddri n., einkum frá fulltrúa þeim í n., sem sérstaklega túlkaði sjónarmið bæjarstjórnar Reykjavíkur, að það væri ekki óskað eftir því að fá slíkt sem heimildarákvæði, heldur, ef á annað borð Alþ. fyndist rétt að slíkt gilti, þá yrði það sem bundið ákvæði. En það er ekki mín skoðun, sem túlkast í því viðhorfi.

Hæstv. ráðh. sagðist ekki mundu hafa fylgt þessu frv., ef gert hefði verið ráð fyrir því, að þessi þvingunarákvæði í X. og XI. kafla væru bundin í stað þess að vera heimildarákvæði. Hins vegar er það nú svo, að það var gert ráð fyrir því, þegar frv. var fyrst lagt fyrir Alþ. af hæstv. ráðh., þó að því hafi verið breytt nú, að þessi ákvæði væru einmitt bundin í Reykjavík og nokkrum kaupstöðum öðrum, en heimildarákvæði fyrir aðra kaupstaði, þannig að það var beinlínis ekki um neitt undanfæri að ræða fyrir viðkomandi sveitarstjórnir, þó að þessu sé breytt í því frv., sem hér liggur fyrir nú. Tel ég það persónulega til bóta, þó að ég búist við, að það muni koma viss andstaða frá ýmsum bæjarstjórnum vegna þessarar breytingar.

Það, sem ég sagði um málið í minni ræðu, var fyrst og fremst til að uppiýsa ýmis atriði fyrir hv. n. með hliðsjón af því, að ég hafði átt sæti í n., sem undirbjó málið, en varðandi umr. um einstök atriði geri ég ráð fyrir, að betur eigi við að ræða það, þegar frv. verður tekið til 2. umr. Ég vildi sem sagt leiðrétta þennan misskilning, sem fram kom í ræðu hæstv. ráðh.