27.03.1954
Neðri deild: 71. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í C-deild Alþingistíðinda. (2685)

125. mál, húsaleiga

Frsm. 1. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Það hefur komið í ljós, að við athugun á þessu máli hefur hv. félmn. sést yfir það, að á einum stað í frv. hefur orðið prentvilla, sem veldur efnisbreytingu, ef hún verður ekki leiðrétt. Ég hef því leyft mér ásamt 2. þm. Rang. (BFB) að bera fram á þskj. 562 brtt. til leiðréttingar á þessu. Í 59. gr. frv., eins og það liggur fyrir prentað, segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Kostnaður við húsaleigunefndir greiðist úr ríkissjóði, og ákveður sveitarstjórn þóknun til húsaleigunefndarmanna.“ Það liggur í augum uppi, að það væri mjög óvenjulegur háttur, ef sveitarstjórnir ættu að ákveða þóknun, sem greiða á úr ríkissjóði. Til þess að taka af öll tvímæli í þessu efni hefur þetta verið borið saman við frv., sem lá fyrir 1951 um sama efni, og kemur í ljós við þann samanburð, að hér er um prentvillu að ræða. Í þriðja lagi vil ég enn fremur geta þess, til þess að taka af öll tvímæli, að skrifstofustjórinn í félmrn. hefur með bréfi tekið fram, að hér sé um prentvillu að ræða og hann hafi veitt þessu eftirtekt. Ég vil því benda mönnum á, að sú brtt., sem fyrir liggur á þskj. 562, er aðeins leiðrétting á þeim mistökum, sem orðið hafa við prentun þessa frv.