27.03.1954
Neðri deild: 71. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í C-deild Alþingistíðinda. (2686)

125. mál, húsaleiga

Frsm. 2. minni hl. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að ræða efni sjálfs frv., það var rækilega gert við 2. umr. En í tilefni af fram kominni brtt. frá hv. þm. A-Sk. og hv. 2. þm. Rang. vil ég taka það fram, að ég tel þá till. ekki miða í rétta átt. Ég held, að það hafi verið samkomulag um það í þeirri n., sem undirbjó frv., að ríkið annaðist kostnaðinn af húsaleigunefndunum og framkvæmd laganna. Ég vil einnig benda á það í þessu sambandi, að fjárhagur bæjarfélaganna er ekki það góður, að ástæða sé til þess að bæta á þau auknum útgjöldum. Á ríkið því að taka á sig þann kostnað, sem stafar af framkvæmd húsaleigulaganna. Um þetta þarf ég ekki að hafa fleiri orð, en vil endurtaka það, að ég er á móti þeirri brtt., sem fram hefur komið.