08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í C-deild Alþingistíðinda. (2705)

125. mál, húsaleiga

Guðmundur Í. Guðmundsson [frh.]:

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að þeim hluta frv., sem fjallar um heimildarákvæðin fyrir sveitarstjórnirnar til þess að láta ganga í gildi þau ákvæði frv., sem mjög takmarka ráðstöfunarrétt íbúðaeigenda yfir íbúðunum.

Eins og ég sagði í upphafi, þá er það ekki tilætlun mín að fara að taka þátt í þeim umræðum eða þeim deilum, sem um það mál hafa orðið hér. Ég get hins vegar með fáum orðum viðurkennt, að það eru mjög róttækar ráðstafanir, sem í því mundu felast, ef sveitarstjórnirnar létu koma til framkvæmda þau ákvæði, sem þetta frv. hefur að geyma og þeim er heimilt að láta framkvæma, ef það verður samþ. Það er ekkert um það að deila, að þau ákvæði munu ganga mjög nærri ráðstöfunarrétti manna yfir íbúðum þeirra og skerða frelsi þeirra á ýmsan hátt mjög verulega. Hins vegar er því haldið fram af formælendum þessa hluta frv., að það ástand geti verið fyrir hendi, að ekki verði komizt hjá því að grípa til jafnróttækra ráðstafana og í þessu frv. felast til þess að reyna að ráða fram úr þeim vandræðum, sem af húsnæðisleysi kunna að skapast. Um það verður ekki deilt, að það eru fyrst og fremst sveitarstjórnirnar, sem eru hæfastar til að dæma um það, hvort ástandið í raun réttri er þannig, að nauðsynlegt sé að grípa til svo alvarlegra ráðstafana sem í þessu frv. felast.

Hins vegar hef ég og meðflm. minn að till. á þskj. 644 viljað vekja athygli á því, að ef á annað borð þykir ástæða til að gefa sveitarstjórnunum þá heimild, sem í frv. þessu felst, þá er ekki rétt að ganga þannig frá þeim heimildarákvæðum, að þeim fylgi ýmsir óaðgengilegir annmarkar fyrir sveitarstjórnirnar, annmarkar, sem raunverulega hafa ekkert með lausn húsnæðisvandamálsins að gera. En við teljum, að í frv. sé að finna ákvæði, sem gera þessi heimildarákvæði það óaðgengileg fyrir sveitarstjórnirnar, að þær mundu hika við að nota ákvæðin af þeim ástæðum, enda þótt þær teldu nauðsynlegt að grípa til þeirra vegna húsnæðisvandræðanna sjálfra. Þetta eru einmitt ákvæðin, sem leggja mjög mikinn kostnað á sveitarstjórnirnar og sveitarsjóðina við framkvæmd þessa kafla laganna. Meiri hl. félmn. gerir ráð fyrir því í till. sínum, að sveitarstjórnirnar skuli bera kostnaðinn af húsaleigunefndunum, og frv. gerir ráð fyrir því, að sveitarstjórnirnar skuli vera ábyrgar fyrir greiðslu húsnæðis, sem þær hafa tekið leigunámi, auk þess sem frv. gerir ráð fyrir því, að sveitarstjórnirnar skuli vera ábyrgar fyrir kostnaði og tjóni vegna þess, að húsaleigumiðstöð hefur ráðstafað íbúð öðruvísi en húseigandi vildi. Ég óttast mjög, að þessi ákvæði kynnu að verða kannske ein af meginástæðum hjá sveitarstjórnum, þegar þær færu að gera það upp við sig, hvort þörf væri á að láta þennan kafla l. koma til framkvæmda eða ekki. –[ Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég átti rétt aðeins eftir að minnast á nokkur atriði, þegar hléið var gert og ég varð að hverfa frá í ræðu minni áðan.

Ég var að gera grein fyrir því, hvers vegna við hv. 6. landsk. þm. (FRV) töldum, að það væri ríkissjóður, en ekki sveitarfélögin, sem ætti að bera kostnaðinn af framkvæmd húsaleigulaganna og þá sérstaklega heimildarkafla þeirra, ef þeir yrðu látnir koma til framkvæmda.

Ég hafði minnzt á, að eitt meginatriði, sem fyrir okkur vakti, var það, að þegar sveitarfélögin væru að gera upp við sig, hvort ástandið í húsnæðismálum væri slíkt, að ástæða væri til að láta heimildarkaflann koma til framkvæmda eða ekki, þá væri eðlilegt og sjálfsagt, til þess að lögin næðu sínum tilgangi, að sveitarstjórnirnar gætu tekið ákvarðanir sínar eingöngu út frá því sjónarmiði, hvort þörf væri á því að láta þessi heimildarákvæði koma til framkvæmda eða ekki, en að þau þyrftu ekki að láta það verða kannske meginákvörðunarástæðu fyrir sig, hvort fjárhagur sveitarsjóðsins leyfði, að heimildarkaflinn kæmi til framkvæmda eða ekki. Virðist mér, að það liggi alveg í augum uppi, að þessir heimildarkaflar geta ekki náð þeim tilgangi, sem þeim er ætlað að ná, ef það á að búa þannig um hnútana, að sveitarfélög, sem kannske telja sér nauðsynlegt að láta þá ganga í gildi, verði frá því að hverfa vegna þess, að þau telji það fjárhag sínum ofvaxið.

Ég vil einnig leyfa mér að minna á það, að við höfum um langt skeið haft húsaleigulöggjöf, sem í meginatriðum var mjög svipuð þeim heimildarköflum, sem í þessum l. eru. Þá var þessum málum þannig skipað, að það var ríkissjóðurinn einn, sem greiddi kostnað við framkvæmd húsaleigulaganna. Hann greiddi laun húsaleigunefndanna og annan kostnað í þeirra starfi. Þetta þótti réttlátt og sjálfsagt þá, og mér er ekki kunnugt um, að neitt það hafi gerzt síðan, sem geti leitt til þess, að það, sem þótti sjálfsagt réttlæti, óumdeilanlegt fyrir nokkrum árum, sé nú orðið ranglæti, sem ekki sé hægt að fallast á.

Ég vil líka leyfa mér að vekja athygli á því, að húsaleigunefndirnar eru í raun og veru dómstólar. Þær eiga eins og aðrir dómstólar í landinu að dæma um ágreining manna og skera úr honum sem algerlega óvilhallur aðili. Hingað til hefur það verið regla í þessu landi, að það væri ríkissjóðurinn, sem bæri kostnað að öllu leyti af dómstólunum, en ekki þau sveitarfélög, sem dómstólarnir störfuðu í.

Mér virðist því, að það eigi að fara með húsaleigunefndirnar og þær aðrar stofnanir, sem eiga að annast framkvæmd þessara laga, ef til kemur, alveg eins og dómstóla og alveg eins og gert var áður, meðan húsaleigulögin voru í gildi, að það sé ríkissjóður, sem á að borga hér allan kostnað.

Þá vil ég líka að lokum leyfa mér að minna á, að ef það ástand kann að skapast í einhverju sveitarfélagi, að grípa verður til þess að láta heimildarkafla húsaleigulaganna koma til framkvæmda, þá er það ástand til komið eingöngu vegna þess, að ríkisvaldið hefur annaðhvort vanrækt að gera það, sem nauðsynlegt var að gera til að koma í veg fyrir húsnæðisvandræði, eða beinlínis gert eitthvað, sem skapað hefur húsnæðisvandræðin, því að það er að sjálfsögðu fyrst og fremst skylda ríkisvaldsins að halda þannig á málunum, að húsnæðisvandræði skapist ekki á hinum einstöku stöðum. Það er t. d. fullkomlega vegna aðgerðaleysis hins opinbera, ef til þess kemur, að fólk hrúgast frá einhverjum stað yfir á annan stað og myndar þar húsnæðisvandræði. Það er vegna þess, að ríkisvaldið hefur þá vanrækt svo að búa um þann stað, sem menn voru á áður, að fólkið gæti hafzt þar við. Það er þess vegna augljóst mál, virðist mér, að ef til slíks vandræðaástands kemur á einhverjum stað, að grípa verður til þess að láta þessa kafla l. koma til framkvæmda, þá er það annaðhvort vegna þess, að ríkisstj. hefur vanrækt að gera það, sem hún átti að gera, eða gert einhverjar ráðstafanir, sem til þess ástands hafa leitt.

Ég hef hér í huga ekki hvað sízt eitt ákveðið dæmi, sem ég þekki hér úr nágrenninu. Það er suður í Keflavíkurkaupstað og Njarðvíkurhreppi. Þar eru í dag meiri húsnæðisvandræði en nokkurs staðar annars staðar á landinu og meiri húsnæðisvandræði sennilega en við höfum áður þekkt, og þar er áreiðanlega meiri þörf fyrir það að láta þessa heimildarkafla koma til framkvæmda en nokkurs staðar annars staðar, hvort sem að því verður horfið, ef þetta verður að l., eða ekki, en það er áreiðanlegt, að þar er ástandið erfiðara í húsnæðismálunum en nokkurs staðar annars staðar á landinu og verra en það hefur verið nokkurs staðar annars staðar. Þetta ástand er ekki verk Keflvíkinga eða Njarðvíkinga sjálfra. Það er ekki þeirra verk. Það er eingöngu vegna þess, að ríkisvaldið hefur gert ráðstafanir, sem hafa leitt til þess, að fólk hefur hrúgazt á þessa staði, án þess að ríkisvaldið hafi jafnframt gert ráðstafanir til þess að mæta mannflutningunum á staðina, og það væri mjög ósanngjarnt gagnvart þessum sveitarfélögum, ef þau ættu að standa undir kostnaði við framkvæmd húsaleigulaga sem verður ef til vill óhjákvæmilegt að framkvæma vegna aðgerða og aðgerðaleysis ríkisvaldsins.

Þetta eru þá þær meginástæður, sem ég hef viljað benda á fyrir því, að ég tel, að ríkissjóður eigi að borga kostnað af framkvæmd húsaleigulaganna.

Ég skal að endingu geta þess, að hv. þm. S-Þ. (KK), sem því miður er fjarverandi, gat þess, að inn í frv. kæmi smávægileg málvilla, ef brtt. okkar hv. 6. landsk. þm. (FRV) yrðu samþykktar. Ég vildi leyfa mér að vænta þess, að þegar hv. þm. S-Þ. er búinn að samþykkja með okkur þessar brtt., þá muni skrifstofa Alþingis leiðrétta þessa villu, sem er bersýnilega málvilla, en ef hæstv. forseti kynni að draga í efa, að skrifstofan gæti leiðrétt þetta, þá mun ég að sjálfsögðu setja út brtt. þessu til leiðréttingar.