08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (2708)

125. mál, húsaleiga

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af meðferð málsins í heilbr.- og félmn. Hv. frsm. meiri hl. (KK) og hv. 4. þm. Reykv. (HG) hafa gert efnislega grein fyrir þessu máli frá sjónarmiði meiri hl. n., og ég sé ekki ástæðu til að bæta við það sérstaklega.

Frsm. minni hl., hv. þm. Barð., gerði töluvert hark út af afgreiðslu þessa máls í nefndinni í sinni löngu ræðu í fyrrakvöld og taldi, að formaður hefði beitt mjög óþinglegri aðferð við meðferð málsins í nefnd. Ég á dálítið erfitt með að átta mig á, hvað hv. þm. er að fara í þessu. Það er satt að vísu, að ég vildi ekki fallast á að senda málið til umsagnar til tiltekinna aðila úti í bæ, eins og þessi hv. þm. lagði til, — það var vitanlega alveg það sama og stöðva málið, eins langt og er komið á þingtíma, það var öllum ljóst. Hins vegar voru kvaddir til viðtals fulltrúar frá þessum aðilum og þeir fengnir til að lýsa sinni afstöðu, og einstakir nefndarmenn fengu tækifæri eftir vild til að ræða við þá um tiltekin atriði málsins. Þetta eru náttúrlega ekkert nýstárleg vinnubrögð í þingsögunni, að mál sé afgreitt á þennan hátt í nefnd, þegar stutt lifir þings. Þetta veit hv. þm. ósköp vel og þarf þess vegna ekki að vera með ólíkindalæti eins og hann þó gerði hér í sinni ræðu í fyrrakvöld. Meðferðin í nefndinni var ákaflega venjuleg og áminningar í því sambandi gersamlega óþarfar.

En hitt er svo annað mál, að þessi hv. þm., sem nú og fyrr hefur talið sig sjálfkjörinn siðameistara hér í hv. deild og hv. Alþingi yfirleitt, hefði þá átt að gæta að því að fara rétt með, þegar hann skýrði frá því, sem gerðist á fundum í nefndinni. Hann sagði m. a. í sinni ræðu, að formaður nefndarinnar teldi það ágætt, ef fyrirmæli frv. gætu stöðvað byggingar í Reykjavík. Þetta er vitanlega alveg tilhæfulaust og er hér með vísað heim. Hann sagði líka, að meiri hl. n. hefði verið þess albúinn að stöðva málið, ef annað mál yrði stöðvað á þingi samtímis. Mig undrar það satt að segja og skil ekki, hvað veldur því, að hv. þm. telur sig til neyddan að hafa svona málflutning í frammi hér í hv. deild. Enn átaldi hv. frsm. minni hl. það, að ég mætti ekki á fundi í Fasteignaeigendafélagi Reykjavíkur samkvæmt tilmælum formanns félagsins. En ég get sagt hv. þm., að ég tel það enga skyldu þm. að sækja fundi hinna ýmsu hagsmunafélaga hér í höfuðstaðnum. Þeir aðilar hafa sannarlega nóg önnur tækifæri til að koma sínum málum á framfæri við hv. Alþingi og það fyllilega til jafns við aðra landsmenn. Þeir geta fylgzt með gangi þingmála frá degi til dags, þeir geta lagt erindi sín bréflega fyrir þm. án allra þeirra tafa af strjálum samgöngum, sem aðrir landsmenn þurfa að lúta, og þingnefndir eru jafnan fúsar til viðtals við áhugamenn um einstök þingmál. Það gerði líka heilbr.- og félmn. í þessu máli. Hún kvaddi til fundar fulltrúa frá þeim tveimur samtökum, sem hér eiga fyrst og fremst hlut að máli, og ræddi við þá mjög ýtarlega.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en vísa gersamlega á bug öllum ásökunum hv. þm. Barð., frsm. minni hl., um sérstaklega óþinglega og svívirðilega meðferð þessa máls í heilbr.- og félmn.