13.04.1954
Neðri deild: 92. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í C-deild Alþingistíðinda. (2719)

125. mál, húsaleiga

Magnús Jónsson:

Ég hef sérstaka ástæðu til að taka til máls í þessu máli við þessa umr., þar sem ýmsir talsmenn þessa máls hafa í hv. Ed. sérstaklega vitnað til mín um það, að það hljóti að vera óhætt að samþ. þetta frv., þar sem ég hafi verið meðal þeirra, sem þátt hafi átt í samningu þess.

Ég má að sjálfsögðu vel við una það traust, sem þessir hv. framsóknarþingmenn hafa sýnt mér, sem sérstaklega hafa rætt þetta mál þar og jafnvel rökstutt sitt atkvæði með tilvísun í aðild mína að samningu frv. En ég hefði þó kunnað betur við, ef þeir hefðu í allri afstöðu sinni til málsins hagað sér í samræmi við það, sem ég hef gert grein fyrir, bæði í umr. hér í hv. d. og einnig kom fram í sérgrg., sem ég lagði fram með húsaleigulagafrv., þegar upphaflega var frá því gengið.

Þegar þetta mál var hér til umr. í þessari hv. d. fyrst nú á þessu þingi, þá lýsti ég þeirri skoðun minni, að það væri mjög æskilegt og enda nauðsynlegt að setja almenn húsaleigulög um samskipti húseigenda og leigjenda, þar sem um það efni giltu að mestu leyti aðeins venjuréttarákvæði. Hins vegar benti ég á, að það væri með öllu óeðlilegt og gæti ekki leitt til neins góðs, heldur miklu fremur hins gagnstæða, að við þetta frv. um almenn húsaleigulög skuli vera tengd ákvæði, sem eiga ekkert skylt við hinar almennu reglur, sem gert er ráð fyrir í samskiptum leigjanda og leigusala, heldur eru um einhliða aðgerðir af hálfu hins opinbera, sem í þá átt miða að taka að verulegu leyti undir vissum kringumstæðum eignarréttinn af þeim mönnum, sem hús eiga. Frv. er að þessu leyti til í tveimur þáttum, og þessi síðari þáttur frv., sem hefur inni að halda þvingunarákvæðin, er á engan hátt tengdur hinni almennu húsaleigulöggjöf, og hefði því verið hægt að samþ. þetta mál án þess, að þessir kaflar væru þar með.

Það hefur verið í það vitnað af talsmönnum málsins, að frv. þetta væri samið af n., sem hefði orðið sammála um málið, þ. e. a. s. algerlega sammála um 9 fyrstu kafla frv., en að meiri hluta til sammála um þvingunarákvæðin, sem ég gat um. Ég vil baka það fram hér til skýringar vegna þeirra brtt., sem komið hafa fram í hv. Ed., að eins og tekið var fram í grg., sem fylgdi frá n. hálfu í upphafi, þá var þar tekið fram, að n. hefði orðið sammála um 9 fyrstu kafla frv., en þó þannig, að það kom fram ýmiss konar sérstaða um einstök atriði. En n. allri var kappsmál að reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hin almennu réttarákvæði varðandi samskipti leigutaka og leigusala, og af því leiddi, að einstakir nm. véku í ýmsu frá sínum sérskoðunum til þess að reyna að samræma álit sín og komast að sameiginlegri niðurstöðu, þannig að því fer víðs fjarri, að ég t. d. fyrir mitt leyti hafi verið ásáttur með öll þau atriði, sem um getur í hinum almenna kafla frv. Hins vegar taldi ég engin þau ákvæði, sem þar eru sett, vera þess eðlis, að það væri ástæða til að gera um þau ágreining, enda gengu samnefndarmenn mínir til móts við mínar óskir varðandi ýmis önnur atriði, þannig að ég hygg, að eftir atvikum megi telja, að almennu ákvæðin séu sæmileg, að því undanteknu, sem bent hefur verið á bæði hér og í hv. Ed., að það er um að ræða algera nýbreytni í þessu frv., að viðhaldsskylda er lögð á leigutaka, og leiðir það af sér mjög mikil afskipti af hálfu opinberra aðila, í þessu tilfelli ýmiss konar matsmanna, og má gera ráð fyrir, að þetta skipulag geti orðið ákaflega þungt í vöfum. Við því er náttúrlega ekkert að segja, ef menn vilja taka á sig þá erfiðleika, sem þessu fylgja, og þann mikla kostnað, sem þetta hlýtur að hafa í för með sér, og það er vitanlega sjálfsagt, ef löggjafinn er að setja ákvæði sem þessi, að þá beri ríkissjóður allan kostnað af framkvæmd laganna, eins og nú hefur líka verið frá málum gengið.

Ég skal ekki ræða frekar hin almennu ákvæði laganna, en vildi leyfa mér að víkja nokkuð að heimildarákvæðunum og þó ekki orðlengja mjög um það mál, vegna þess að það er þegar margrætt, þannig að þess gerist ekki sérstaklega þörf.

Þessi heimildarákvæði eiga, að því er manni skilst, að verða til þess að bæta úr húsnæðisvandræðunum, og eiga þau auðvitað þá eina réttlætingu, ef þau megnuðu að bæta úr þeim vanda. En þá er ástæða til þess að gera sér grein fyrir því, hvort heimildarákvæðin sem slík bæta úr vandanum eða ekki. Það kann að vera, ef þessi heimildarákvæði væru notuð, að þau kynnu að binda eitthvert húsnæði á þann hátt, að komið yrði í veg fyrir, að fjölskyldum, sem þar búa, yrði sagt upp því húsnæði. En það er engin ástæða til þess að álíta, jafnvel þótt heimildarákvæðin væru notuð, — og það sýndi sig um gömlu húsaleigulögin, — að þau muni á nokkurn minnsta máta, nema síður væri, miða að því að auka íbúðarhúsnæðið, enda er þannig frá þessum kafla gengið og orðalagi hans öllu, að það er ljóst, að heimildarákvæðin, þótt notuð væru, mundu mjög leiða til þess, að menn mundu a. m. k. draga að sér hendurnar með að leigja út smáíbúðir, sem menn annars mundu nota fyrir sjálfa sig, ekki sízt þar sem um er að ræða eitt og tvö herbergi með aðgangi að eldhúsi, eins og víða er leigt út til mikilla þæginda fyrir þá, sem þess fá að njóta. Ég álít því, að jafnvel þótt heimildarákvæðin væru notuð, þá mundu þau ekki megna í þá átt að leysa á nokkurn hátt húsnæðisvandræðin, nema síður væri, og er þá alveg gengið frá því atriðinu, hversu hér er um að ræða á móti stórkostlega réttarskerðingu, enn þá meiri en nokkru sinni var í þeim húsaleigulögum, sem giltu hér á stríðstímum.

Ef við athugum svo aftur hitt, hvernig þessi lagasetning mundi verka í bæjarfélögum, þar sem heimildin er ekki notuð, þá er það alveg ljóst mál, að tilvera þessarar löggjafar mundi alveg tvímælalaust verða til þess að draga verulega úr því, að húsnæði væri leigt út, því að fólki, sem á það yfir höfði sér, að sveitarstjórn geti hvenær sem er ákveðið, að þessi þvingunarákvæði taki gildi, mun ekki þykja fýsilegt að leigja út frá sér íbúðir, þegar þannig er ástatt. Enn fremur er þess að gæta, að þessi heimildarákvæði mundu vitanlega tvímælalaust verka í þá átt, að þeir, sem eru að byggja hús, og oft er það svo, að menn byggja gjarnan svo rúmt, að þeir geti leigt eitthvað út frá sér, — þeir mundu hætta við það, þar sem þeir gætu búizt við, að slíkt húsnæði yrði af þeim tekið samkvæmt þessari löggjöf. Það eru því einnig allar horfur á því, að löggjöfin mundi að þessu leyti spilla fyrir því, að leiguhúsnæði væri byggt. Nú er það vitanlega svo, að margir hafa ekki aðstöðu til að byggja, jafnvel þótt þeir fái byggingarleyfi, efnahags vegna og mega til með að leigja, það er alltaf viss hópur fólks, og það er áreiðanlega ekki í þágu þess fólks, að það sé verið að setja lagaákvæði, sem hér er um að ræða og verða til þess eins að skapa aukin vandræði á þessu svíði.

Það kann að mega rökstyðja, að eðlilegt sé, að sveitarstjórnir hafi einhverjar heimildir í sambandi við það, ef erfiðleikar eru með húsnæði í sveitarfélaginu. En ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki hægt að veita sveitarstjórn það vald, sem gert er ráð fyrir í XI. kafla þessa frv., um húsaleigumiðstöð, þar sem svo langt er gengið, að taka má húseignir algerlega af eigandanum og leigja þær út af opinberri miðstöð og húseigandinn fær ekki einu sinni að ráða því sjálfur, hvaða leigjandi er settur þar inn. Hann hefur þann eina rétt, að hann má segja þessum leigjanda upp með 6 mánaða fyrirvara, en sá réttur er harla lítill, þegar þess er gætt, að þá hefur húsaleigunefndin aftur rétt til þess að setja inn leigjanda upp á eigin spýtur, þannig að það yrði stöðugt að ganga, að maður segði upp með 6 mánaða fresti, og hefðist það eitt upp úr því, að húsaleigumiðstöðin setti inn annan mann, alveg eftir því sem henni þóknaðist, þannig að hér eru menn gersamlega sviptir umráðarétti og raunverulega eignarrétti yfir sínum eignum, og mér finnst harla varhugavert af löggjafanum að leggja inn á að fela það á vald hverri einstakri sveitarstjórn eftir eigin geðþótta.

Ég hirði ekki, eins og ég sagði hér áðan, að fara ýtarlega út í hin einstöku atriði þessa kafla. Hv. þm. hafa vafalaust kynnt sér það rækilega á ferð þessa frv. í gegnum Alþ., bæði nú og áður. En ýmis þessi atriði eru þess eðlis, að það hefði vissulega verið ástæða til að gera sér ýtarlegri grein fyrir þeim heldur en virðist hafa verið gert af flm. þessa máls og þeim, sem sérstaklega hafa barið það áfram hér í þinginu. Það er mjög eftirtektarvert við alla meðferð þessa máls, að enginn af þm. þeirra staða, sem ætla má að þetta frv. nái til, hefur gerzt flm. málsins, heldur eru það tveir hv. þm., sem hafa ekki innan sinna kjördæma neinn þann stað, sem þetta mál mundi ná til. Mér er ekki ljóst, að þeir hafi gert sér nokkra grein fyrir því, eða það hefur a. m. k. ekki komið fram í umr. þessa máls, hvaða áhrif þessi löggjöf mundi hafa, sem þeir hér beita sér svo hatrammlega fyrir að tekin sé upp, en vilja þó hins vegar ekki fallast á að gildi um land allt, einnig í þeim sveitarfélögum, sem eru minni en segir í þessum lögum, og vissulega kynni svo að fara undir vissum kringumstæðum, að þar yrðu einnig erfiðleikar með húsnæði.

Það hefur ekki verið leitað álits neins sveitarfélags eða bæjarfélags um þetta frv., þrátt fyrir það að það séu fyrst og fremst og eingöngu þau, sem komi til með að hafa gott eða bíða tjón af þessu máli. Virðist nokkuð viðurhlutamikið að samþykkja slík ákvæði án þess að bera þau undir þær sveitarstjórnir, sem frv. er fyrst og fremst miðað við. Það liggur meira að segja fyrir, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefur ekki óskað eftir, að þessi löggjöf yrði sett, þ. e. a. s. þessi þvingunarákvæði, sem hér eru í tveim síðustu köflum þessa frv. En ætla má, að frv. hafi þó verið fyrst og fremst hugsað að bæta úr þeim vandkvæðum, sem hér eru. En bæjarstjórnin virðist ekki telja, nema síður sé, og það þeir menn, sem fróðastir eru um þetta efni hér í bæ og hafa með stjórn framfærslumála að gera, að þetta mundi bæta á nokkurn minnsta máta úr húsnæðisvandræðunum í bænum.

Málatilbúnaður allur í sambandi við þetta mál er því hinn undarlegasti, vægast sagt, og er næsta kynlegt, að flokkur, sem á ekki þingmann neins kaupstaðar þessa lands, skuli telja sig þess sérstaklega umkominn að taka þetta mál upp einn út af fyrir sig og telja það svo mikilvægt, að það verði að berja það með allri hugsanlegri hörku í gegnum þingið, án þess að sveitarfélögum og bæjarfélögum sé gefinn kostur á að lýsa skoðun sinni um það, hvort þetta mál mundi verða þeim til gagns eða ekki.

Ég lýsti því í ræðu minni hér í hv. d., er ég ræddi síðast um þetta mál, að eina viðunandi lausnin í húsnæðismálum, sem vissulega eru víða erfið, bæði hér í bæ og annars staðar, væri að reyna að byggja og koma viðunandi og mannsæmandi húsnæði yfir fólkið. Þetta er sú eina raunhæfa aðgerð, sem verður að vinna að. Og ég held, að heimildarákvæði sem þessi, sem sýnilega mundu stuðla í þá átt, að menn byggðu minna og smærri íbúðir, mundu ekki byggja leiguhúsnæði, séu ekki til þess að stuðla að því, að þetta alvarlega vandamál verði leyst. Hæstv. ríkisstj. hefur tekið það á sína stefnuskrá að leysa lánamál íbúðabygginga til frambúðar og hefur boðað, að frv. um það efni muni verða lagt fyrir haustþingið. Þegar þess er gætt, að hér er þó sýnd viðleitni til þess að bæta úr þessum vanda með hinum einu heilbrigðu ráðstöfunum, og horfur virðast á, að þarna verði á mjög sæmilegan hátt séð fyrir lánamálunum, sem auðvitað eru aðalvandamál þess fólks, sem er að byggja og efnalitið er, og einnig það, að leyst hefur verið fjárfestingareftirlit af íbúðabyggingum, þá gegnir mikilli furðu, að það skuli þykja alveg höfuðnauðsyn að knýja fram þessar stórfelldu réttarskerðingar, sem hér er um að ræða í þessu frv., ákvæði, sem ganga lengra en talið var fært að gengið væri í húsaleigulögum stríðsáranna. Þetta eru vinnubrögð, sem er ákaflega erfitt að finna nokkra skynsamlega skýringu á.

Ég vil leyfa mér að leggja hér fram till. til rökst. dagskrár í þessu máli, sem ég vil, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að lesa hér upp; hún er svo hljóðandi:

„Þar sem frv. þetta hefur í för með sér veigamiklar breytingar á gildandi réttarreglum og engan veginn er nægilega ljóst, hvað í hinum nýju réttarreglum felst, og þar eð frv. hefur ekki verið sent til umsagnar sveitarstjórnanna, sem málið varðar þó mjög, þá telur deildin ekki tímabært að afgreiða málið nú og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég sé ekki þörf á að mæla frekar fyrir þessari dagskrártillögu en ég hef þegar gert grein fyrir í minni ræðu. Álits sveitarstjórnanna um þessa löggjöf hefur alls ekki verið leitað, nema einnar sveitarstjórnar, og fulltrúi hennar hefur gert ágreining í málinu, og það liggja því fyrir fullkomin rök fyrir því, að það sé nauðsynlegt og sjálfsagt að kanna þetta mál betur, áður en horfið er að því að setja slík heimildarákvæði sem hér um ræðir. Það er venja, ef sérstakt neyðarástand skapast, að þá er sett um það sérstök löggjöf. Það er ekki hægt að sjá nákvæmlega fyrir fram, hvernig slík löggjöf ætti að vera, og verður að setjast hverju sinni, eins og alltaf hefur verið gert í slíkum tilfellum. Slíka löggjöf má alltaf setja, og er alveg ástæðulaust að tengja hana við almennar reglur um húsaleigu og samskipti leigutaka og leigusala, sem eru sérstaks eðlis og eiga alla tíma að gilda og eiga tvímælalaust að vera í sérlögum.