13.04.1954
Neðri deild: 92. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í C-deild Alþingistíðinda. (2720)

125. mál, húsaleiga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram brtt. á þskj. 840. Ég álít, að það sé rétt, að um leið og sveitarstjórnirnar fá það vald, sem mælt er fyrir í 48. gr., þá sjái Alþ. líka til þess, að þær fái vald til þess að geta bætt úr húsnæðisvandræðunum. Það er svo, að nú er löggjöf til um það að sveitarstjórnirnar eigi ákveðinn rétt á hjálp frá ríkinu, allstórum lánum, til þess að koma upp íbúðarhúsum fyrir það fólk, sem býr í heilsuspillandi íbúðum, og það er vitanlegt, að þrátt fyrir ýmislegt, sem verið er að gera til þess að rýmka um húsabyggingar nú, þá er það sízt það fólk, sem nú býr í verstu íbúðunum, sem kemur til með að njóta slíks.

Það er þess vegna nauðsynlegt, að sveitarstjórnunum og bæjarstjórnunum sé gefin heimild til þess að fá að nota sér þennan rétt, sem þær eiga eftir lögunum um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa í kauptúnum og kaupstöðum, lögum frá 1946. En framkvæmd III. kafla þessara laga var frestað með „höggorminum“ eða bráðabirgðabreytingu 1948, og síðan höfum við sósíalistar flutt á hverju einasta þingi till. um, að þetta eigi aftur að koma í gildi, og ég leyfi mér nú, þegar á að gefa bæjarstjórnum og sveitarstjórnum það vald, sem mælt er fyrir í 48. gr., að fara fram á, að þeim sé líka gefið vald til þess að bæta úr íbúðaskortinum. Þegar við álítum rétt að gefa þeim vald til þess að ráðstafa þeim íbúðum, sem fyrir eru. þá er líka rétt, að þær fái það vald, sem veitt er samkvæmt lögum frá 1946 til að byggja ný íbúðarhús yfir þá, sem verst eru staddir.

Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að hv. deild samþykki þessa brtt. og geri þar með þetta frv. nokkru víðtækara en það nú er og geri sérstaklega bæjarstjórnunum mögulegt að gera eitthvað raunhæft til þess að auka við íbúðirnar, sem eru til ráðstöfunar. Ég held, að það sé, eins og nú er komið málum, það eina, sem nokkur von væri til að þetta Alþ. gerði til þess að bæta úr húsnæðisskortinum fyrir þá, sem verst eru staddir.