09.02.1954
Neðri deild: 43. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í C-deild Alþingistíðinda. (2739)

135. mál, brúagjald af bensíni

Flm,. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Efni þessa frv. er, að lagt verði lítils háttar aukagjald á benzín, fimm aurar á hvern lítra, í þeim tilgangi, að fé því, er á þennan hátt innheimtist, verði varið til að endurbyggja stórbrýr, sem orðnar eru svo ótraustar, að slysahætta getur af því stafað að dómi vegamálastjórnarinnar. Hér á landi hefur í seinni tíð verið komið upp skipulegri starfsemi og margs konar tækjum til að veita aðstoð þeim, sem í háska eru staddir á sjó eða landi eða í lofti; jafnframt eru gerðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir, að til slysa komi. Margir hafa hér að unnið með lofsverðum áhuga, og mikið fé hefur verið lagt fram, bæði af einstaklingum og hinu opinbera, til slysavarna og hjálparstarfsemi, þegar slys ber að höndum, enda árangur að flestra dómi, sem betur fer, mjög athyglisverður.

Ég lít svo á, að frv. það, sem hér liggur fyrir, beri að skoða sem slysavarnamál, eða a. m. k. að líta beri á það frá sama sjónarmiði og hin almennu mál af því tagi.

Sumar þeirra trúa, sem fyrst voru byggðar yfir stórvötn landsins, eru nú orðnar mjög af sér gengnar, og styrkleiki þeirra var ekki miðaður við þá umferð, sem nú er á þjóðvegum landsins. Hér er því um slysahættu að ræða, og sú hætta eykst með hverju ári. Fyrir nokkrum árum hrundi hengibrúin gamla á Ölfusá. Óhætt er að segja, að mörgum hafi brugðið illa við, er þau tíðindi spurðust, og hlauzt þó ekki manntjón af, en þar munaði mjóu. Eins og menn muna ef til vill, voru tvær vörubifreiðar á brúnni, þegar hún bilaði, og lentu í ánni, en þeir, sem í bifreiðunum voru, komust af, og var þetta þó um nótt í myrkri. Nokkrum klukkustundum áður höfðu farþegabifreiðar, sumar fullskipaðar fólki, verið þarna á ferð. Í þetta skipti fór því í rauninni betur en ætla mátti. Þessi atburður mun hafa flýtt fyrir því, að brúin á Þjórsá var endurbyggð nokkru síðar.

Sú af stórbrúm landsins, sem ég tel nú brýnasta þörf á að endurbyggja, enda þekki ég þar bezt til, er hengibrúin á Jökulsá í Axarfirði, og með sérstöku tilliti til hennar hef ég flutt þetta frv. Brúin á Jökulsá í Axarfirði er byggð árið 1904 og er því 50 ára á þessu ári. Brúin var þegar í upphafi mjög óstöðug, þegar um hana var farið, og sýnist ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir, að umferðin hafi af þeim sökum reynt meira á hana en ella hefði verið. Þegar þessi brú var byggð, voru bifreiðar ekki komnar í notkun hér á landi, enda naumast um vegi að ræða, er akfærir væru bifreiðum, á þeim tíma. Sú umferð, sem þá var gert ráð fyrir, er gerð og styrkleiki brúarinnar var ákveðið, var því fyrst og fremst umferð gangandi manna eða ríðandi, klyfjahesta og hestvagna, en nú hafa síðasta aldarfjórðunginn bifreiðar farið yfir brúna, og var sú umferð mjög mikil, á meðan áætlunarbifreiðar milli Norður- og Austurlands fóru um Reykjaheiði. Umferðin milli Norður- og Austurlands á þessum slóðum hefur að vísu minnkað síðan, en þar á móti kemur svo hitt, að venjulegar vöruflutningabifreiðar eru orðnar stærri og þyngri en áður og umferð þeirra meiri. Í seinni tíð hafa verið gerðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir, að bifreiðar færu um brúna með fullfermi, þannig að fólk hefur verið látið fara út úr stórum áætlunarbifreiðum og hleðsla minnkuð á þungum vörubifreiðum, en þrátt fyrir það er alltaf sú hætta yfirvofandi, að brúin bili skyndilega, alveg eins og Ölfusárbrúin, en þeir, sem þá væru á henni staddir, mundu vart kunna frá tíðindum að segja, því að áin er vatnsmikil og mjög straumhörð á þessum slóðum.

Það er m. a. til marks um ástand. þessarar brúar, að þegar mjög hvasst er, þá gengur brúin þannig til og handriðin á brúnni, að dæmi eru til þess, að stórar bifreiðar hafa stöðvazt á brúnni af þessum sökum, jafnvel svo að klukkustundum skiptir, og þurft að sæta lagi til þess að mjaka sér áfram eftir brúnni.

Þó að ég ræði hér aðeins um Jökulsárbrú í Axarfirði og gera megi ráð fyrir, að af henni stafi mest slysahætta eins og sakir standa, þá eru þó fleiri gamlar stórbrýr hér á landi orðnar mjög ótraustar, og þarf að endurbyggja þær áður en langt líður. Í því sambandi mætti t. d. nefna brúna á Lagarfljóti.

Ég tel sérstaka ástæðu til þess að vekja athygli á því, að slysahættan, sem kann að stafa af þessari brú og öðrum, sem eitthvað svipað kann að standa á um, er ekkert sérmál þeirra byggðarlaga, sem eru næst þessum stöðum, siður en svo. Fjöldi fólks og bifreiða víðs vegar að af landinu á leið um þessa staði, einkum á sumrum, og má segja, að þar séu því allir í sama bát. Þess er því að vænta, að allir þeir, sem eiga bifreiðar og nota eða slíkum samgöngutækjum stjórna, geti orðið einhuga um, að ekki hlýði að standa gegn því, að lagt sé lítils háttar aukagjald á bifreiðabenzín, eins og hér er farið fram á, til þess að koma í veg fyrir óhöpp, sem flestum mundu verða minnisstæð, ef illa tækist til, áður en bót verður á ráðin.

Ég hef ekki trú á því, að þessi brú eða aðrar slíkar verði endurbyggðar nú á næstunni, nema Alþingi geri til þess alveg sérstakar ráðstafanir.

Á undanförnum árum hef ég ritað vegamálaskrifstofunni oftar en einu sinni um þá slysahættu, sem ég og aðrir kunnugir teldu af brúnni stafa, og auk þess rætt málið munnlega við sömu aðila. Vegamálaskrifstofan hefur að vísu talið, að hér væri hætta á ferðum, en hún hefur ekki talið það á sínu færi að leysa fjárhagsþátt málsins. Brúasjóður hefur að vísu fengið mikið fé til umráða undanfarin ár, en reynslan er sú, að miklum hluta þess fjár, sem í þann sjóð kemur, er varið til að byggja brýr, þar sem ekki voru brýr áður. Það er eðlilegt í sjálfu sér og ber ekki að lasta, því að þörfin er mikil, og mörgum finnst, sem skiljanlegt er, freistandi að láta gömlu brýrnar endast, á meðan unnt er, og nota féð til nýrra samgöngubóta. Nú hefur mér verið tjáð, að næsta verkefni sjóðsins sé að byggja brú á Hvítá í Árnessýslu hjá Iðu, sem verður mjög dýrt mannvirki. Mér hefur jafnvel skilizt, að endurbygging Jökulsárbrúar sé ekki — eða það sé vafasamt, að hún verði næst í röðinni á eftir Iðubrúnni. Um hina almennu fjárveitingu til brúa á fjárlögum er það að segja, að mér virðist lítil von vera til þess, ef að venju fer um skiptingu þess fjár, að af þeirri fjárveitingu verði hægt að fá nægilegt fé til svo dýrrar framkvæmdar sem Jökulsárbrú er á svo skömmum tíma, að viðhlítandi sé, enda er í mörg horn að líta, þegar þessari upphæð er skipt.

Ég hef á þessu þingi mælzt til þess við hv. fjvn., að hún taki til athugunar sérstaka fyrirgreiðslu í þessu endurbyggingarmáli, en sú málaleitun hefur ekki heldur borið árangur enn sem komið er, þó að mér sé vel kunnugt um, að nm. hafa áhuga á þessu máli og öðrum slíkum.

Með tilliti til þess, sem ég nú hef um þetta sagt, tel ég, að ekki megi dragast lengur að benda á sérstaka leið í þessu máli. Ef sú leið væri farin, sem lagt er til hér í frv., sem fyrir liggur, þá mundi það væntanlega bera þann árangur, að hægt yrði að hefja undirbúning að endurbyggingu Jökulsárbrúar nú á næsta sumri, og mætti þá væntanlega með góðum vilja ljúka því verki innan skamms, en þegar því væri lokið, væru þessar tekjur tiltækar til annarra aðkallandi framkvæmda af sama tagi.

Ég vil leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og til hv. samgmn.

Ég vil biðja hv. nm., sem frv. fá til meðferðar, og aðra hv. alþm. að taka þessu máli vel, því að það er af mikilli nauðsyn fram borið. Það er borið fram til að afstýra, ef verða mætti, voveiflegum atburðum, sem allir mundu harma, ef skeð hefðu.