18.02.1954
Neðri deild: 49. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í C-deild Alþingistíðinda. (2745)

141. mál, þjóðhátíðardagur Íslendinga

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég tel óþarft að fjölyrða um frv. það, sem ég flyt hér á þskj. 367. Málið er ljóst og þarf naumast skýringa við. Þar er að því stefnt að lögfesta 17. júní sem þjóðhátíðardag okkar Íslendinga, og er það í raun og veru aðeins staðfesting á því, sem þegar er orðið í framkvæmd. Þó að skiptar kunni að vera skoðanir um fjölda frídaga, hygg ég, að flestir séu sammála um það, að þjóðinni allri beri að halda hátíðlegan einn dag á ári, þar sem minnzt er á viðeigandi hátt íslenzkrar menningar- og frelsisbaráttu. Til þess hefur verið valinn fæðingardagur Jóns Sigurðssonar og stofndagur íslenzka lýðveldisins, 17. júní.

Þó að 17. júní sé nú, góðu heilli, vil ég segja, orðinn ótvíræður þjóðhátíðardagur okkar, hefur hann ekki verið gerður að lögboðnum frídegi. Munu fleiri en ég telja, að það sé næsta óviðfelldið. Hv. alþm. munu minnast þess, að nokkrum dögum fyrir 17. júní kemur ár hvert í blöðum og útvarpi orðsending frá forsrn., sem hljóðar jafnan eitthvað á þessa leið: Ríkisstj. mælist til þess, að 17. júní verði almennur frídagur um land allt. — Þessum tilmælum hefur víðast hvar, að því er ég bezt veit, verið vel tekið og dagurinn almennt hátíðlegur haldinn. En þó að svo sé, er þessi háttur ekki alls kostar viðkunnanlegur, og virðist mér sjálfsagt að gera 17. júní að löghelgum þjóðhátíðardegi, eins og lagt er til í þessu frv. Á stöku stað hefur einnig á því borið, að sérstök félagssamtök eða hópar manna hafa reynt að setja sinn svip á daginn í ríkari mæli en eðlilegt er. Þessi dagur á að sjálfsögðu að vera hátíðisdagur allra Íslendinga jafnt, hafinn yfir allar erjur og kryt, skoðanamun og stéttaskiptingu. Eðlilegt virðist því að fela með löggjöf bæjar- og sveitarstjórnum að hafa forustu um hátíðahöld þennan dag, svo og að gæta þess, að einstaklingar eða ákveðnir hópar manna reyni ekki að misnota þjóðhátíðardaginn eða setja á hann óviðfelldinn svip.

Ég legg til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.