15.03.1954
Neðri deild: 61. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í C-deild Alþingistíðinda. (2774)

162. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Lög þau um kosningar til Alþingis, sem nú gilda, eru að mestu frá árinu 1942, hafa aðeins verið gerðar á þeim þrjár smávægilegar breytingar síðan. Lagasetning um svo víðtækt og að vissu leyti viðkvæmt efni sem kosningalög eru er að sjálfsögðu ærið vandasöm og mun seint verða svo fullkomin, að reynslan leiði ekki í ljós eitt og annað, sem betur mætti fara. Þess er ekki að dyljast, að fram hafa komið nokkrir agnúar á kosningalögum þeim, sem við Íslendingar búum nú víð, og er megintilgangur þessa frv. að ráða bót á fáeinum þeirra.

Það er alkunna, að á síðari tímum hefur allri áróðurstækni fleygt mjög fram, og hafa sumar áróðursaðferðir, ekki sízt á stjórnmálasviði og í sambandi við kosningar, verið þess eðlis, að hið ágæta orð „áróður“ virðist óðum vera að fá nýja merkingu og tákna að dómi almennings ófagran, næstum ósæmilegan verknað. Ástæðan til þessa er m. a. sú, að í sambandi víð kosningar, sem flestir viðurkenna í orði að eigi að vera fullkomlega lýðræðislegar, svo að borgurunum gefist með því móti kostur á að láta í ljós skoðanir sínar og velja sér fulltrúa frjálsir og óháðir öllu nema sannfæringu sinni, hefur í sívaxandi mæli verið reynt að beita fjármagni og valdaaðstöðu til að hafa áhrif á kjósendur. Þar sem lýðræðislegt stjórnarfar er einna fastast í sessi, svo sem á Norðurlöndum og í Bretlandi, hafa menn gert sér grein fyrir þeirri hættu, sem af þessu stafar, og reynt með lagaákvæðum að takmarka verulega heimild stjórnmálaflokka til að nota fjármagn sér til framdráttar í sambandi við kosningar. Eru flokkar í nágrannalöndum okkar, sumum a. m. k., skyldaðir til að gera opinbera grein fyrir því fé, er þeir verja til kosningabaráttu, bæði hvernig þess er aflað og á hvaða hátt því er ráðstafað. Í þessum löndum líta menn svo á, að þær kosningar geti naumast heitið lýðræðislegar, þar sem flokkar geta með tilstyrk auðmanna og fésterkra fyrirtækja bætt stórlega aðstöðu sína við kosningar og í krafti peninga haft áhrif á niðurstöður þeirra. Nú er það að sjálfsögðu bannað í íslenzkum lögum að bera fé á einstaklinga við kosningar í því skyni að fá þá til að greiða vissum frambjóðanda eða framboðslista atkvæði, en reynslan sýnir, að hægt er með tilstyrk fjármuna að hafa ýmisleg áhrif á kosningar, án þess að það geti talizt beinar kosningamútur, sem skilyrðislaust eru bannaðar með lögum.

Hér á landi hefur það farið mjög í vöxt, að stjórnmálaflokkar noti bifreiðar til að flytja kjósendur til kjörstaðar á kjördegi. Það vex nú og hröðum skrefum, að flokkar verji stórfé til að launa trúða og hvers konar skemmtikrafta til að hæna fólk að pólitískum samkomum. Gefin eru út kosningarit, sem kosta tugi, ef ekki hundruð þúsunda, og svo langt er jafnvel gengið, að ekki þykir duga að halda ókeypis skemmtisamkomur, heldur er einnig úthlutað dýrum og eftirsóttum verðlaunum á samkomum þessum. Engin vitneskja liggur fyrir um það, hvernig fjár er aflað til þessarar fjölþættu og útgjaldafreku starfsemi, sem öll miðar að því að bæta vígstöðu viðkomandi flokks eða flokka í kosningum með tilstyrk peningavaldsins. Svo mikil er þessi fjáraustur orðinn og fer vaxandi við hverjar kosningar, að hann getur á engan hátt talizt samrýmanlegur frelsi því, sem vitanlega á að ríkja þar, sem menn greiða atkvæði á lýðræðislegan hátt, greiða atkvæði um stefnur og skoðanir.

Það er vissulega nokkur vandi að setja um það fastar reglur, hvernig hafa skal hemil á óeðlilegri notkun fjár í sambandi við kosningar. Ókleift ætti það ekki að vera, enda hafa hinar fremstu þingræðis- og lýðræðisþjóðir tekið upp í kosningalög sín ákvæði um þessi efni. Fyrir Alþingi liggur nú till. um skipun 5 manna nefndar eftir tilnefningu þingflokkanna til að athuga þetta mál og gera till. um lagaákvæði, er takmarki heimild stjórnmálaflokka til notkunar fjár í tilefni kosninga. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 434, stefnir um sumt að sama marki. Þar er leitazt við að bæta úr nokkrum ágöllum núgildandi kosningalaga, þar sem okkur flm. virðist auðvelt án langrar rannsóknar að setja ákveðnari fyrirmæli um einstök atriði en áður hafa gilt.

Helztu nýmæli frv. eru þessi: Umboðsmönnum frambjóðenda og framboðslista skal bannað að afrita meðmælendaskrár annarra flokka. Jafnframt er þeim gert að skyldu að fara með þá vitneskju, sem þeir fá um meðmælendur, sem algert trúnaðarmál. Það verður að teljast verkefni kjörstjórna og þeim fyllilega til þess trúandi að ganga úr skugga um, að meðmælendalistar séu lögmætir. Því er ekki að leyna, að sterkur orðrómur hefur leikið á um það, að sú vitneskja, sem pólitískir flokkar hafa fengið um meðmælendur með framboðslistum andstæðinga, hafi verið notuð á óviðurkvæmilegan hátt til skoðanakúgunar. Virðist engin ástæða til þess, að löggjafinn auðveldi óhlutvöndum mönnum þann leik með því að hafa óþarflega rúm ákvæði um það, hverjir hafi heimild til að handfjalla meðmælendaskrár og afrita þær.

Þá virðist fyllilega tími til þess kominn, að í Rvík a. m. k. gildi framvegis strangari ákvæði um það en verið hefur, að kjósendur færi sönnur á, hverjir þeir séu, áður en þeir neyta kosningarréttar síns. Sögur hafa gengið um það, að við bæjarstjórnarkosningarnar í janúarmánuði s. l. hafi í fleiru en einu tilfelli verið búið að kjósa fyrir menn, er þeir komu til að greiða atkvæði. Einnig hefur verið á kreiki orðrómur um það, að kosið hafi verið fyrir nýlátna menn svo og kjósendur sem með vissu voru forfallaðir á kjördag. Ég get ekkert um það fullyrt, hvort þessi orðrómur hefur við eitthvað að styðjast, en hitt er víst, að meðan ekki gilda um það strangari ákvæði en nú, að kjósandi færi fullgildar sönnur á, að hann sé sá, er hann segist vera, er hætt við, að slíkur orðrómur sem þessi komist á kreik, enda augljósir möguleikar á því að fremja þvílík kosningaspjöll. Nú eru menn látnir greiða atkvæði án þess, að þeir sanni kjörstjórn, hverjir þeir séu, að öðru leyti en því, að þeir skýra frá nafni og tilgreina heimili og fæðingarár. Þessi háttur er góður og gildur í fámenni, þar sem kjörstjórn þekkir alla kjósendur, en í Rvík er því ekki lengur til að dreifa. Kjörstjórnir kunna að sjálfsögðu engin skil á fjölmörgum kjósendum. Verður því, þar sem svo er háttað, að leggja þá skyldu á kjósandann, að hann færi á það sönnur, að hann sé sá sem hann kveðst vera. Mun það naumast gert svo, að viðhlítandi sé, með öðrum hætti en þeim, að kjósendum sé boðið að hafa nafnskírteini, er þeir framvísa á kjörstað. Er sá háttur hafður á við kosningar í borgum erlendis og þykir með öllu óhjákvæmilegur. Mundi án verulegs kostnaðar mega fela t. d. lögreglunni að afgreiða nafnskírteini á sama hátt og vegabréf eða ökuskírteini.

Eitt hinna veigameiri ákvæða þessa frv. er það að banna umboðsmönnum framboðslista og frambjóðenda að senda frá sér upplýsingar um það, meðan á kjörfundi stendur, hverjir neyta atkvæðisréttar síns. Alkunnugt er, að hér í Rvík a. m. k. og sennilega víðar í kaupstöðum láta flokkarnir umboðsmenn sína, er þeir hafa rétt á að hafa til eftirlits í kjördeildum, fyrst og fremst fylgjast með og senda kosningaskrifstofunum upplýsingar um, hverjir koma til að kjósa. Á þeirri vitneskju, sem þannig fæst um það, hverjir neyta atkvæðisréttar, er síðan byggð hin miður skemmtilega kosningasmölun, sem stöðugt færist í aukana. Ónæði það, sem kosningasmalar valda á fjölda heimila í Rvík og sennilega víðar í kaupstöðum, er kunnara en svo, að því þurfi að lýsa nákvæmlega. Hver sá kjósandi, sem einhverra hluta vegna hefur ekki farið á kjörstað, er eltur uppi, þegar líður á kjördag. Má svo að orði kveða, að hann eigi sér naumast undankomu auðið fyrir ásókn kosningasmala, sem telja ekki eftir sér að koma hvað eftir annað á sama heimili. Láta þeir kjósandann engan frið hafa, fyrr en hann hefur gert annað tveggja, farið á kjörstað eða lýst því yfir, að hann muni hvergi fara. Þegar kjósandi hefur margneitað að fara á kjörstað og lýst yfir, að hann muni alls ekki neyta atkvæðisréttar síns, opnast óneitanlega möguleikar til kosningasvika, möguleikar, sem ella væru ekki fyrir hendi. En þó að engu slíku væri til að dreifa, ættu menn að geta orðið sammála um það, að ekki beri að veita stjórnmálaflokkum sérstaka aðstöðu til að ástunda þá smalamennsku, sem nú er tíðkuð við hverjar kosningar. Er tæpast hægt að kalla þær kosningar fullkomlega lýðræðislegar, þar sem kjósendur fá ekki fullkomlega ráðið því án íhlutunarstjórnmálaflokka, hvenær eða hvort þeir neyta atkvæðisréttar síns. Ávallt er nokkur hópur manna, sem getur ekki fellt sig við neinn hinna pólitísku flokka, eins og auðir atkvæðaseðlar bera m. a. vitni um. Þeim mönnum svo og fólki, sem hefur ekki ákveðnar skoðanir á stjórnmálum, á að sjálfsögðu að vera leyfilegt að sitja heima, án þess að það sé dregið hálfnauðugt á kjörstað. Okkur flm. þessa frv. virðast öll rök mæla með því, að stjórnmálaflokkum sé meinað að fylgjast með kosningum á þann hátt, sem verið hefur. Það ákvæði, sem hér er farið fram á að lögfest verði, mundi eitt út af fyrir sig draga mjög úr þeirri miklu bifreiðanotkun, sem nú tíðkast við hverjar kosningar, þar eð kosningaskrifstofurnar mundu þá naumast geta sótt aðra kjósendur en þá, sem sjálfir biðja um bifreiðar, og væri strax nokkuð við það unnið.

Sá siður, eða réttara sagt ósiður, er farinn að tíðkast mjög við kosningar, einkum hér í Rvík, að kjörfundi er ekki slitið fyrr en komið er langt fram á nótt. Þó að sjálfsagt sé að gera öllum kjósendum, sem atkvæðisréttar síns vilja neyta, auðvelt að nota þann rétt, er engin ástæða til að halda kjörstöðum opnum lengur en til miðnættis í síðasta lagi. Það er mjög hæpið að líta svo á, að þá er kjördagur er auglýstur t. d. 31. jan., megi draga kjörfund fram yfir miðnætti og þar með raunverulega fram á næsta dag. Veldur þessi háttur þarflausum erfiðleikum öllum þeim, sem við kosningar starfa, og ætti að afnemast með öllu, eins og til er lagt í þessu frv.

Loks eru hér nokkru skýrari ákvæði en nú gllda um það, hvenær atkvæði skal talið ógilt. Um það má ef til vill deila, hvort rétt sé að fara þá leið, sem hér er stungið upp á, að herða þessi ákvæði. Ef til vill finnst mönnum lýðræðislegra að milda þau, þegar greinilegt verður að teljast, hver vilji kjósandans er. En allmiklir erfiðleikar munu á því að setja þar um óyggjandi reglur, ef í þá átt ætti að stefna. Hitt er vitanlega ófært með öllu, að um þetta veigamikla atriði gildi svo óákveðin lagafyrirmæli, að það sé mjög komið undir mati kjörstjórna á hverjum stað, hvað þær úrskurða gild atkvæði og hvað ekki. Hefur reynslan orðið sú, að þær eru mjög misstrangar í þessu efni, svo að atkvæðaseðlar eru taldir fullgildir á einum stað, en ógildir á öðrum, þó að um nákvæmlega sams konar formgalla sé að ræða. Þetta er óviðunandi, og verður með einhverjum hætti að kippa því í lag.

Að svo mæltu leyfi ég mér að æskja þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.