26.03.1954
Neðri deild: 69. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í C-deild Alþingistíðinda. (2778)

176. mál, brotajárn

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 510 er flutt jafnhliða og í framhaldi af þáltill. um rannsókn á hagnýtingu brotajárns, till., sem nú liggur fyrir Sþ.

Í þeirri till. er farið fram á, að Alþ. feli ríkisstj. að láta framkvæma athugun á því, hvort ekki þyki tiltækilegt að hefja hér vinnslu brotajárns. Ég mun í sambandi við þá till., þegar hún kemur til 1. umr. í Sþ., fara nokkrum orðum um þetta mál almennt, og ætla ég þess vegna ekki að orðlengja um það nú. Fái þessi þáltill. byr, þá teljum við flm. eðlilegt og raunar sjálfsagt, að frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 510, verði einnig samþ. Með því móti mundu nokkrar birgðir af brotajárni verða til í landinu og tiltækilegar, ef sú rannsókn, sem fram á er farið í þáltill., leiddi í ljós, að hagkvæmt væri að hefja hér hagnýtingu brotajárns. Yrði niðurstaða rannsóknar hins vegar á þá leið, að ekki yrði talið borga sig að setja hér á stofn járnbræðslu, þá mundi að sjálfsögðu leyft á sínum tíma að flytja út það brotajárn, sem safnazt hefði fyrir meðan á rannsókninni stóð.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, en vil leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.