23.11.1953
Neðri deild: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að kveðja mér hljóðs nú að þessu sinni, en eftir atvikum þykir mér þó rétt að segja nokkur orð þegar á þessu stigi málsins. Það er staðreynd, sem eigi verður í móti mælt, að með frumvarpi þessu er mörkuð alveg ný stefna í verzlunar- og viðskiptamálum þjóðarinnar og athafnalífi einstaklinganna. Þetta skilst ekki bezt af því að hlýða á ræðu hv. 1. landsk. (GÞG), sem hann var að ljúka við að flytja, heldur hinu, að lesa lögin um fjárhagsráð, sem nú er lagt til að fella úr gildi. Með þeim lögum var athafnafrelsi manna satt að segja lagt í viðjar og öll fjárfesting bönnuð nema með sérstökum leyfum. Ég tel, að alþingismönnum beri skylda til að viðurkenna, að með þessari löggjöf var árið 1947 stigið mikið óheillaspor, þar sem lagt var inn á leiðir áætlunarbúskapar og hafta og allt athafnafrelsi þjóðarinnar lagt í hlekki. Reynslan hefur nú opnað augu manna fyrir því, að lögin um fjárhagsráð voru í raun og veru alls ekki framkvæmanleg. Og ástæðan til þess er sú, að lögin risu gegn því eðli Íslendinga að vilja hafa sem víðtækast sjálfsforræði, — þau voru í andstöðu við frelsið, en til þjónustu við höft og bönn og þann ófarnað allan, som þeim er samfara.

Það er bezt að segja það eins og það er, að fjárhagsráð hefur orðið mjög óvinsælt, eins og öllum er kunnugt, og ég tel sóma alþingismanna þá mestan, þegar þeir viðurkenna, að það var yfirsjón að setja þessa löggjöf, en reyna ekki að fela sig á bak við fjárhagsráð. Óvinsældirnar hefur fjárhagsráð hlotið fyrir það eitt að framkvæma fyrirmæli Alþingis.

Það er kunnugt, að í fjárhagsráð í hafa átt sæti ágætir menn, og um þá flesta þori ég að fullyrða, að þeir hafa sýnt óvenjulega starfshæfni, heiðarleik og góðan vilja til þess að leysa hin erfiðu verkefni samvizkusamlega og vel af hendi. En það er e.t.v. sterkasta sönnunin fyrir ófremd fjárhagsráðslaganna, hve óvinsældir stofnunarinnar eru miklar, þrátt fyrir það að framkvæmdin hefur verið í höndum góðra og gegnra manna.

Dóm sinn um fjárhagsráð hefur hv. 1. landsk. (GÞG) kveðið upp, er hann segir, að fjárhagsráð hafi legið sem lamandi hönd á öllu athafnalífi landsmanna og framtaki. Þetta er alveg rétt. En ég vil þó taka fram, að það, sem hér hefur mistekizt, er fyrst og fremst lagasetningin sjálf, og það er karlmannlegast fyrir okkur alþm. að viðurkenna það og horfast í augu við hina illu reynslu, sem fengin er af þessari löggjöf.

Aðalatriði þessa máls er í fáum orðum, að með þessu frv., sem hér liggur nú fyrir til umræðu, lýsa stjórnarflokkarnir yfir því, að þeir hafi séð og skilið sín eigin víxlspor og að þeir afneiti nú stefnu áætlunarbúskapar, hafta og banna. Jafnframt lýsa þeir yfir því, að þeir vilja gefa innflutninginn til landsins frjálsan, þó að þeim sé að sjálfsögðu ljóst, að slíku frelsi er stakkur skorinn af gjaldeyrisgetunni. Það er af þessari ástæðu, vegna þeirra algeru straumhvarfa, sem frv. þetta veldur, að það mun lengi að mínu áliti verða talið meðal hinna merkari mála, er komið hafa fram á Alþingi hin síðari ár.

Til þess að forðast endurtekningar um efni frv. vísa ég til framsöguræðu hæstv. viðskmrh. um málið.

Ég vil ekki skiljast svo við þetta mál, að ég beini ekki fáeinum orðum til kommúnista. Það er landskunnugt, að þeir hafa í þessu sambandi og öðru haldið uppi miklu lýðskrumi á liðnum árum. Þeir hafa þótzt vera boðberar og málsvarar hins mikla frelsis, og hefur frelsistal þeirra og „frelsisást“ magnazt frá ári til árs, eftir því sem þeir hafa orðið varir við vaxandi óánægju almennings vegna hafta og alls konar banna, er fjárhagsráðslögin hafa haft í för með sér. Hefur í blöðum þeirra verið hamrað mjög á því, að enginn mætti byggja án afskipta ríkisvaldsins, enginn flytja út vörur án samþykkis ríkisstj. og enginn flytja vöru til landsins án leyfis yfirvalda. Út af þessum texta hefur verið lagt í blöðum, á almennum fundum um stjórnmál og í ræðum þeirra hér í þingsalnum. Ég vil í þessu sambandi rifja upp, að þegar forseti Íslands fól mér haustið 19J6 að gera tilrann til stjórnarmyndunar, þá settu kommúnistar ýmis skilyrði fyrir þátttöku sinni í ríkisstjórn áfram. Það er ekki ófróðlegt að rifja upp, hvað fólst í „óskalista“ kommúnistaflokksins, er ég fékk í hendur í sambandi við þessa stjórnarmyndunartilraun. har gætti þess fyrst og fremst, að alla hluti átti að skipuleggja, allt vald að hverfa undir eitt allsherjarráð, og stendur þetta svo orðrétt í óskalistanum:

„Hlutverk þessa ráðs sé samning heildaráætlunar um nýsköpun atvinnulífsins fyrir tímabilið 1945–1950, undirbúningur næstu heildaráætlunar þar á eftir, samning séráætlunar fyrir hvert einstakt ár um nýsköpun atvinnulífsins.“

En það er fleira, sem stendur í þessum óskalista. Eins og ég sagði áðan hefur jafnan verið á það minnt í blöðum sósíalista, að menn þyrftu leyfi yfirvaldanna til þess að koma upp húsi yfir höfuðið á sér, og verið talið til hins freklegasta ófrelsis. En í óskalistanum er þess krafizt, að hið mikla ráð, sem stofnsetja skuli, eigi að „ákvarða um fjárfestingu í byggingum, hve mikil hún skuli vera í atvinnufyrirtækjum og mannvirkjum atvinnulífsins, íbúðarhúsum, opinherum byggingum og öðru. Stjórnin á þessari fjárfestingu sé framkvæmd með leyfum til að hefja byggingar, er séu lögbundin skilyrði til þess að fá byggingarefni.“ M.ö.o.: Enginn á að fá byggingarefni, nema hann fái leyfi þessa ráðs til byggingarinnar. Þetta voru nú kröfurnar, sem Sósfl. gerði í þá daga, og getur nú hver sem er borið saman muninn á þessu, sem þeir vildu að yrði, og því, sem varð með lögunum um fjárhagsráð og framkvæmd þeirra.

En svo kemur verzlunarfrelsið. Það hefur auðvitað verið ætlazt til í þessum óskalista, að öll verzlun yrði frjáls, inn- og útflutningur, eða það skyldu menn halda af skrifum og tali sósíalista að undanförnu. En í hinu ágæta skjali, óskalistanum, stendur svo orðrétt: „Innkaupastofnun þjóðarinnar sé sett á fót, er samkvæmt lögum annist ein innkaup á ölham vörum, og sé því stjórnað með lýðræðislegu fyrirkomulagi.“ Hér virðist kveða nokkuð við annan tón. Verzlunin á m.ö.o. alls ekki að vera frjáls, eins og kommúnistar hamra á nú. Hún átti að vera bundin, svo rígbundin, að enginn nema ein einasta ríkisstofnun mátti flytja inn svo mikið sem einn eldspýtustokk.

Að því er útflutningsmálin varðar stendur í óskalistanum: „Komið verði upp sérstakri stofnun, er hafi umsjón með sölu á öllum sjávarafurðum landsins. Stefnt skuli að því, að sem allra flestar af útflutningsvörum landsins verði seldar á einni hendi, og annist þá þessi stofnun söluna. Enn fremur skal hún annast útgáfu útflutningsleyfa fyrir þeim vörum, sem einstaklingum er leyft að selja.“

Ég vil biðja menn að veita alveg sérstaka athygli þeim atriðum, sem sósialistar hafa sett á þennan óskalista. Það á enga húskofa að mega byggja nema með leyfi, ekkert flytja til landsins, nema ríkið geri það sjálft, og helzt ekkert flytja út um hendur einstaklinga, því að ein stofnun á að annast það allt. Ég verð því að spyrja: Er hægt að hugsa sér ófrelsi á hærra stigi?

Þannig er nú sú stefna, sem sósialistar vildu árið 1946 koma á í þessum málum þrátt fyrir allt glamrið um fjárhagsráð síðan.

Ég vil svo að lokum taka það fram, að mér dettur ekki í hug að víkja frá mér sök um að eiga þátt í setningu laganna um fjárhagsráð, þvert á móti. Ég lýsi sök á hendur mér og fleiri um það. En hitt tek ég fram, að þótt Alþingi á sínum tíma og í skammsýni hafi samþykkt slíka löggjöf, þá hefði því borið fyrir löngu og ber nú að afnema lögin og draga lærdóma af þeirri ófrelsisstefnu, sem þau hafa innleitt í verzlun og viðskiptum. Því fyrr sem Alþingi gerir skyldu sína í þessu efni, því betra.