01.04.1954
Neðri deild: 75. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í C-deild Alþingistíðinda. (2782)

188. mál, áburðarverksmiðja

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég held það sé rétt, að ég segi aðeins örfá orð um þetta frv., áður en það fer til nefndar.

Það liggur nú í hlutarins eðli, að það hljóta að verða miklar breytingar á starfsemi varðandi innkaup á áburði og flutningum á honum út um landið, þegar áburðarverksmiðjan tekur til starfa. Er ég að því leyti alveg samþykkur því, sem fram kemur hjá flm. þessa frv., að svo hljóti og beri að verða. En ég hef einmitt athugað þetta mál og gerði það í vetur á þeim tíma, þegar þurfti að fara að taka ákvörðun um, hvort nokkrar breytingar væri nú hægt að gera varðandi þetta mál, hvort það væri tími til þess. Og það var náttúrlega alls ekki. Það varð að gera ráðstafanir strax upp úr áramótum varðandi innkaup á áburði og alla slíka starfrækslu varðandi dreifingu hans, og þá var enn ekki hafin nein byrjun á framleiðslu áburðarins í áburðarverksmiðjunni í Gufunesi og ekki þá vitað, hvernig það mundi ganga. Nú er sú framleiðsla byrjuð, en þó veit enginn enn, hvað það verður mikið, sem fæst hér af innlendum áburði til notkunar í vor, en það verður aðeins lítill hluti af því köfnunarefnisáburðarmagni, sem þarf að nota. Af þeirri ástæðu var það, að ég ákvað í samráði við framkvæmdastjóra áburðarverksmiðjunnar og áburðarsölunnar, að starfrækslan gengi alveg með sama fyrirkomulagi nú eins og verið hefur, enda hefði það valdið ruglingi og engu öðru, hefði átt að fara að breyta um það skipulag nú.

Ég hef vitanlega ekkert á móti því, að þetta frv. verði athugað faglega í n., en ég vil taka það fram, að það þarf ábyggilega að athuga fieira en þarna kemur fram varðandi þetta mál, og ég tel því mikið vafamál, að rétt sé, að þetta frv. verði afgr. á þessu þingi, sem nú er mjög komið að lokum, heldur að þetta mál verði athugað og undirbúið fyrir þingið í haust, enda ætti það ekki að breyta neinu verulegu. Þessi starfsemi gengur í vor og sumar nákvæmlega á sama hátt fyrir sig eins og verið hefur, enda ekki um neitt annað að ræða en að það verði svo. En ég mun að sjálfsögðu taka þetta mál til athugunar nú og ræða í samráði við stjórn áburðarverksmiðjunnar og aðra aðila, sem þetta snertir, á hvern hátt heppilegast væri að koma þessu fyrir.

Ég vildi aðeins leyfa mér að geta um þetta nú, þegar frv. kemur hér fram til 1. umr. Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn að ræða við þá nefnd, sem fær það til meðferðar, ef óskað verður eftir því, og vil þá jafnframt óska þess, að hún afgreiði málið ekki úr nefnd öðruvísi en að hafa tal af mér.