01.04.1954
Neðri deild: 75. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í C-deild Alþingistíðinda. (2784)

188. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Jón Pálmason):

Hæstv. landbrh. tók fram, að hann hefði haft þessi mál til athugunar, hvað gera skyldi í þeim varðandi áburðareinkasöluna og áburðarverksmiðjuna, og lét á sér skilja, að það væri ekki nauðsynlegt að samþ. þetta frv. nú. Þetta kann vel að vera rétt hjá hæstv. ráðh., að það væri möguleiki á því að láta þetta frv. ná gildi á sama tíma eins og til var ætlazt, sem er 1. jan. 1955, þó að það væri ekki samþ. fyrr en á haustþinginu. En við flm. fluttum frv. nú vegna þess, að það væri að ýmsu leyti þægilegra, ef þessi skipun yrði á gerð, að samþ. þetta frv. nú, vegna þess að það er þarna um töluvert margt starfsfólk að ræða, sem er hjá áburðareinkasölunni og þyrfti að hafa fyrirvara með að segja upp, o. s. frv., og það er út frá því sjónarmiði, sem við teljum, að þessari skipun ætti helzt að koma á strax.

Varðandi þær athugasemdir, sem fram komu hjá hv. 2. þm. Reykv. (EOl) varðandi þetta mál, þá skilst mér nú, að það sé ekki mjög langt á milli okkar í skoðun í þessu máli, því að það er auðvitað ætlan okkar flm., að þetta frv. miði að því að afhenda eignir áburðareinkasölunnar til áburðarverksmiðjunnar, sem við teljum ríkiseign, þó að það séu þar aðrir aðilar, sem eiga þar líka hlut í, en þrátt fyrir það hefur ríkið meirihlutavald þar yfir. Ég get tekið það fram, að ég vil ekki blanda mér í þær deilur, sem um þetta hafa verið. Ég fyrir mitt leyti var aldrei hrifinn af þessari breytingu, sem á þessum málum var gerð. Við vorum búnir í landbn. þessarar hv. d. að ganga frá samþykkt frv. eins og það var upphaflega sem algerðrar ríkisstofnunar, en þessu var breytt í Ed. á þeim tíma, að hlutafé skyldi fá frá öðrum, og þar mælt fyrir því á þeim grundvelli auðvitað, að þetta væri til þess að styrkja fyrirtækið, en ekki til þess að eignaryfirráðin færðust frá ríkinu yfir á hluthafana að öðru leyti heldur en það, sem þeir legðu fram fé. Hér er því um það að ræða í þessu frv. að sameina tvö ríkisfyrirtæki og gera að einu.

En varðandi hitt atriðið, um frv., sem hér hafa legið fyrir, þá skal ég ekki í þessu sambandi fara að bera neitt hönd fyrir höfuð landbn. út af þeim dagskrártill., sem hún hefur flutt, að öðru leyti en því, að ég vil segja, að það liggur fyrir, að verið er að safna hlutafé, áframhaldandi hlutafé, hjá bændum í áburðarverksmiðjuna. Ég hef ekki átt neinn hlut að því og tel nú satt að segja, að eins og komið er hafi bændur annað þarfara við sitt fé að gera heldur en leggja það fram sem hlutafé þarna inn, og mun þess vegna ekki beita mér neitt í því máli. En af því að þetta liggur fyrir, þá sýnist okkur í landbn., að það væri réttast að fresta þessum deilumálum, sem bæði þau frv., sem hér liggja fyrir, fjalla um, þangað til séð yrði, hvort nokkuð yrði tekið undir þessa hlutafjársöfnun, og þess vegna eru okkar dagskrártill. alls ekki neitt út í bláinn.

Að öðru leyti sé ég ekki á þessu stigi ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, en get verið ánægður með þær undirtektir, sem frv. hefur fengið bæði hjá hæstv. ráðh. og hv. 2. þm. Reykv., að það sé eðlilegt að sameina þessar stofnanir, enda þótt það sé nokkur ágreiningur, að því er virðist, við hæstv. ráðh. um það, hvort rétt sé að samþ. þetta nú eða geyma það til næsta þings.