23.11.1953
Neðri deild: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Einar Olgeirsson:

Það var vissulega tilefni til þess að lýsa ánægju sinni yfir því, að það skyldi þó loksins takast fyrir okkur vesæla þm. að fá sjálfan hæstv. forsrh. til að tala hér í þessu máli. Og ég vil lýsa sérstakri ánægju minni yfir því, að hann hefur nú tekið þátt í umr., og vona, að hann haldi því áfram, ekki sízt vegna þess, hver ánægja mér er að því að fá að tala við hann. Ég held líka, að það sé ákaflega heppilegt einmitt í sambandi við öll þessi mál að rifja upp, hvað hefur verið að gerast á Íslandi í þessum málum undanfarið, og þess vegna álít ég það ákaflega heppilegt, að hann skuli hafa komið inn á að rifja upp þessa hluti. Það eina, sem mig vantar til þess að geta alveg svarað honum að öllu leyti. er að hafa orðrétt hérna fyrir framan mig þessi skilyrði, sem hann var að vitna í og voru till. okkar sósíalista, lagðar fram 6. nóv. 1946 í þeirri 12 manna n., sem þá fjallaði um nýja stjórnarmyndun, og prentuð eru í Rétti árið 1947, þannig að þetta er allt saman til prentað, og ég vona, að ég fái það, áður en ég verð búinn að ljúka þessari ræðu. Þá skal ég með ánægju lesa dálítið upp yfir honum af þessum hlutum, en þangað til ætla ég að ræða ofur litið af því, sem hann minntist hér á áðan.

Hann fór að ræða um fjárhagsráðslögin, og þar er talað um 15%, sem áttu að leggjast til hliðar. Ég vil þá um leið minna hann á það, að þessi 15%, sem þarna voru sett inn í fjárhagsráðslögin. voru tekin upp úr lögum, sem við höfðum sameiginlega komið í gegn áður, og áttu að tryggja framhald nýsköpunarinnar. Það átti að tryggja, að það yrði lagt a.m.k. 15% til hliðar af árlegum gjaldeyristekjum þjóðarinnar til þess að gera mögulegt að halda áfram nýsköpuninni, kaupa fleiri togara og annað slíkt. Og ég hafði alltaf lagt til, að það væri helzt reynt að fara upp í 25% með þetta, og ég held, að þetta plagg, sem hann var með áðan og vildi ekki leyfa mér að sjá, byrji á till um, að það séu 25%. M.ö.o.: Það, sem við sósialistar lögðum til og settum fram sem nr. 1 í sambandi við skilyrðin um nýja stjórnarmyndun eftir að nýsköpunarstjórnin fór frá, var, að þjóðin legði nú enn þá meira að sér til þess að byggja upp sína framleiðslu, grundvöllinn að sínu lífi, að hún gerði mögulegt að kaupa enn þá meira af framleiðslutækjum til þess að undirbyggja þannig lífsafkomu þjóðarinnar.

Lögin um 15%, sem áttu að leggjast til hliðar, hafa aldrei verið framkvæmd. Þau voru því miður ekki einu sinni framkvæmd í tíð nýsköpunarstjórnarinnar, eins og hann getur athugað, ef hann athugar reikninga Landsbankans og síðan nýbyggingarreikninginn, sem allt er þar framkvæmt. Það heyrði sem sé ekki undir okkur að leggja þessi 15% til hliðar. Bankamálin og verzlunarmálin í nýsköpunarstjórninni heyrðu undir Sjálfstfl., og það var svikizt um að framkvæma þessi lög allan tímann.

Hvað var það hins vegar, sem vakti fyrir okkur og vakti raunar upprunalega fyrir honum sjálfum líka að gera á þessum tíma? Það, sem vakti fyrir okkur, var uppbygging framleiðslugreinanna í landinu, eins og það var kallað þá með orði, sem gaf líka nýsköpunarstjórninni nafn, sem sagt nýsköpun afvinnulífsins. Með því að fjölga togurunum, fjölga hraðfrystihúsunum og hefja nýsköpun á sviði iðnaðarins, landbúnaðarins og stóriðjunnar átti þjóðin að reyna að halda áfram því mikla átaki, sem hafði verið byrjað með á árunum 1944–46. Hvað var það nú, sem gerði okkur svo erfitt fyrir, á meðan við vorum í nýsköpunarstjórninni, að geta ráðizt í þessa stóru og nauðsynlegu hluti, að geta einbeitt orku þjóðarinnar að því að kaupa togara, byggja báta, koma upp raforkuverum, koma upp stóriðju, koma upp vélreknum landbúnaði? Hvað var það, sem gerði okkur svona erfitt að einbeita orku þjóðarinnar að því, fjármagni þjóðarinnar og öllu slíku? Það var fyrst og fremst eitt, og það var vald verzlunarauðmagnsins í landinu. Það var það, að verzlunin, innflutningsverzlunin og útflutningsverzlunin, gaf af sér mestan gróðann. Og í þjóðfélagi, þar sem fjármagnsstraumurinn er frjáls, leitar fjármagnið þangað, sem gróðinn er mestur. Þess vegna var það svo, að bölið, sem við áttum við að berjast á þessum árum — og nú vona ég, að hæstv. ráðh. hlusti á mig — var, að í staðinn fyrir, að gróðinn, sem skapaðist, færi undir yfirráð þjóðarinnar og þjóðin gæti notað þennan gróða til þess að byggja upp betra atvinnulíf en áður, þá rann svo og svo mikið af öllum þessum gróða til heildsalastéttarinnar, til þeirra aðila, sem höfðu með innflutninginn og útflutninginn að gera — og þó sérstaklega innflutninginn.

Enn fremur var annað höfuðvandamál í byggingarstarfseminni. Það var byggt meira á þessum árum en verið hefur annars á Íslandi nokkurn tíma fyrr eða síðar, 1945 og 1946. Það hefur aldrei verið byggt meira hér í Rvík, aldrei fleiri íbúðir en á þessum tveim árum, komst yfir 600 íbúðir árið 1946. En hver voru vandræðin í sambandi við þær byggingar? Vandræðin voru, að þær voru gersamlega óskipulagðar og urðu öllum aðilum margfalt dýrari en ella hefði þurft að vera. Hvað var það, sem við þess vegna álitum að þyrfti að gera til þess að bæta úr þessu? Við álitum og lögðum til, að það ætti að þjóðnýta byggingarstarfsemina. M.ö.o.: Það var ákveðið frá okkar hálfu, að það skyldi byggja eins mikið og mögulegt væri, það skyldi byggja úr öllu því, sem þjóðin hefði efni á að flytja inn. Og það höfðu verið samþykkt lög árinu áður, 1946, um að útrýma á fjórum árum öllum heilsuspillandi íbúðum á Íslandi. Það, sem þurfti til þess að framkvæma þessi lög, var að einbeita fjármagni þjóðarinnar að því og láta ekki skapast einhvern stórgróða á því að byggja yfir þá, sem nú búa í bröggunum. Það átti ekki að vera hægt að taka hundruð þúsunda króna gróða á hverri íbúð, þegar væri verið að byggja yfir þá, sem nú eru í bröggunum, til þess að gera þeim mögulegt að flytja inn. Í lögunum um útrýmingu heilsuspillandi íbúða, sem fram voru borin og samþ. af nýsköpunarstjórninni, var ákveðið, að ríkisstj. skyldi sjálf lána og sjá um, að lánað væri upp í 85% af kostnaðarverði íbúðanna til bæjarfélaganna, sem tækju að sér að sjá um þessa útrýmingu á fjórum árum. Hvað þurfti að gerast til þess að framkvæma svona lög? Það er ekki nóg að samþykkja svona lög. Það þarf að gera þær fjárhagslegu ráðstafanir, sem gera það mögulegt, að svona lög verði ekki bókstafur. Við sáum, hvað þurfti að gera til þess. Þess vegna lögðum við til, að byggingarstarfsemin væri þjóðnýtt, það væri séð um að láta alla byggingarverkamenn hafa nóg að gera, flytja inn eins mikið af byggingarefni og framast væri mögulegt og einbeita þessu byggingarefni fyrst og fremst að því að byggja hús, til þess að allir þeir, sem væru í bröggum og öðrum heilsuspillandi íbúðum, fengju þar inni, og einbeita fjármagni þjóðarinnar um leið að þessu. Þetta var það, sem við lögðum til. Og hæstv. forsrh. las hér upp áðan klausuna um byggingarstofnun ríkisins, en hann hélt bara ekki áfram með skiptinguna á því, hvernig átti að verja þessu, til þess einmitt að framkvæma þau lög, sem þegar höfðu verið samþ. Ég veit, að hæstv. forsrh. var með þessum lögum, sem við samþ., en hvað var svo gert, vegna þess að ekki var gengið að okkar till. um að einbeita fjármagninu að þessum byggingum? Lögin voru afnumin árið eftir. Lögin um útrýmingu heilsuspillandi íbúða voru afnumin hér á Alþingi árið eftir, strax og Marshallstjórnin tók við af nýsköpunarstjórninni. þá var ákveðið, að allir þeir, sem búa í heilsuspillandi íbúðum, skuli búa þar áfram, og ekki aðeins, að þeir, sem bjuggu þá í heilsuspillandi íbúðum, skyldu búa þar áfram, heldur að helmingi fleiri skyldu verða hraktir út í þær heilsuspillandi íbúðir í viðbót. Þetta var það, sem var gert, og þetta er það, sem við höfum sannanir fyrir og liggur fyrir. Af hverju? Af því að sú ágæta stjórn, sem við þá tókum þátt í, var hrakin frá völdum með utan að komandi afskiptum og fjármálum Íslands var ekki stjórnað lengur með því tilliti, sem þó var tekið í nýsköpunarstjórninni til nauðsynja almennings, heldur með allt önnur sjónarmið fyrir augum. Þannig var viðvíkjandi því, sem snertir þjóðnýtingu byggingarefnisins.

Hvað var svo hitt? Jú, við lögðum til, að innflutningsverzlunin væri þjóðnýtt. Við lögðum til, að innkaupastofnun ríkisins annaðist öll innkaup til landsins. Hvað hefði það þýtt? Það hefði þýtt, að allur gróði einstaklinga af innflutningi til Íslands var útilokaður. Það þýddi, að enginn maður á Íslandi gat lengur grætt á því að flytja inn vörur. Það þýddi, að allir þeir heildsalar, sem þá voru til hér í Rvík og áttu milljónir króna, urðu að hætta að græða á verzlun. Hvað hefðu allir þessir menn gert, sem eiga tugi ef ekki hundruð milljónir króna í eignum? Allir þessir menn hefðu farið í atvinnureksturinn. Hvað var það, sem var böl Íslands á öllum þessum tíma? Bölið var það, að fjármagnið streymdi í verzlunina. Ég vil minna hæstv. forsrh. á, að þetta var ekki nýtilkomið í nýsköpunarstjórninni. Hver var niðurstaðan, sem skipulagsnefnd atvinnumála, Rauðka, komst að í sínum rannsóknum 1934? Það var — ég held tölurnar séu réttar hjá mér — að allt kapítal, sem var í sjávarútveginum á Íslandi, væri þá 22 millj. kr. Það er maður hér inni, sem var í Rauðku og man það kannske, það er hv. 5. landsk. (EmJ). En ég man ekki betur en að 1934 hafi það verið 22 millj. kr., allt það fjármagn, sem var í sjávarútveginum á Íslandi. En allt fjármagn, sem þá var í verzluninni á Íslandi, var um 100 millj. kr. Þetta var eitt af böll Íslands, að fjármagnið leitaði ekki í framleiðsluna, ekki í sjávarútveginn, sem var nauðsynlegt fyrir þjóðina, heldur í verzlunina, vegna þess að þar voru gróðamöguleikarnir. Hvað var það, sem nýsköpunarstjórnin gerði? Nýsköpunarstjórnin kippti hlutum í lag, sem höfðu verið í ólagi í 20 ár. Hún gerði sjávarútveg Íslands að grundvellinum í allri okkar framleiðslu og að þeirri sterku undirstöðu, sem hann er enn þá í dag fyrir allt þjóðlíf Íslands. Hún gerði það með einu átaki. Þessi ein einustu tvö ár, sem hún fékk að lifa, gerði hún þetta stórvirki, en það ætlaði varla að vera mögulegt að útvega fjármagnið í þessa þrjátíu togara, sem við keyptum. Við urðum að kúska hér í gegn lög, og jafnvel hæstv. forsrh. varð að taka sína góðu vini í Landsbankanum á endanum til bæna til þess að beygja þá undir það. Af hverju fékkst ekki fjármagnið í togaraútgerðina? Af því að menn græddu á því að setja það í verzlunina, í heildsöluna, og fjármagnið leitaði þess vegna þangað. Hver var ályktunin, sem við drógum af þessu, við sósíalistar? Hún var sú, að það dygði ekki að láta fjármagnið geta leitað út í verzlunina, út til heildsalanna, það yrði að pína fjármagnið til að leita til atvinnuveganna. Það þýddi, að við yrðum að afnema gróðamöguleikana í verzluninni, við yrðum að afnema það, að hægt væri að græða á því fyrir einstaklinga að flytja inn vörur til landsins, það yrði ríkið, sem tæki allan þann gróða, sem álitið er að á því mætti yfirleitt vera. Það hefði þýtt, að allt það fjármagn, sem allan tímann á Íslandi hingað til hefur leitað í verzlunina, hefði verið kúskað út í sjávarútveginn, út í iðnaðinn, út í landbúnaðinn, út í uppbyggingu stóriðjunnar. Ég veit, að hæstv. forsrh. hefur alveg fullan skilning á því, hver nauðsyn var á því að reka fjármagnið út í atvinnuvegina og fyrst og fremst út í sjávarútveginn. Ég býst við, að það hafi fáir jafnvel skilið það betur en hann. En hitt var aftur á móti allt annað mál, að stjórnmálaleiðtoginn Ólafur Thors, sem verður að stjórna stærsta flokki landsins, flokkinum, þar sem stórútgerðin og heildsalarnir vega salt, verður að taka allt önnur tillit í slíkum málum, ef flokkurinn á að haldast saman, heldur en forsrh. nýsköpunarríkisstjórnarinnar hefði álitið skynsamlegt að taka. Þess vegna veit ég, að það hafa kannske fáir skilið betur þær till., sem við sósialistar fluttum þá, till. um þjóðnýtinguna á verzluninni, till. um þjóðnýtingana á innflutningnum. En ég veit, að það var náttúrlega til ákaflega mikils mælzt, að hæstv. forsrh. ætti að vera með því að framkvæma það. En það var ekki till. um þjóðnýtingu á togurunum. Það var því síður till. um þjóðnýtingu á mótorbátum eða öðru slíku. Tillögurnar voru um að opna sviðin í atvinnuláfinn, til þess að fjármagnið mætti fá að streyma þangað, til þess að þjóðin með harðri hendi ræki fjármagnið út úr verzluninni og inn í framleiðsluna. Það var ekki gert, vegna þess að heildsalarnir heimtuðu að fá að maka krókinn og fengu að gera það. Þess vegna varð næsta stjórn mynduð, Stefáns Jóhanns-stjórnin, og fjárhagsráð sett.

Það var fyllilega ástæða til þeirra tillagna, sem við komum fram með. Og þær till. voru þær einu skynsamlegu till., sem þá var hægt að bera fram, svo framarlega sem menn ætluðu að halda áfram því starfi, sem við höfðum verið að vinna að, nýsköpun atvinnulífsins, ef menn í staðinn fyrir 32 togara ætluðu að kaupa 25 togara í viðbót, ef menn ætluðu að halda áfram að byggja mótorbátaflotann, ef menn ætluðu að herða á byggingu millilanda- og flutningaskipanna, og hæstv. forsrh. hefði nú getað fengið enn þá betra efni í upplestur, ef hann hefði tekið upp allar brtt. mínar, sem ég flutti við umr. um fjárhagsráðið hérna í þessari hv. d. 19–47, allar till., sem ég flutti um uppkomu stóriðju á Íslandi þá, á árunum 1951–56, undirbúning 10 ára áætlunarinnar, sem þá var. Það er alveg gefið mál, að það var gersamlega óhugsandi að ætla að vinna þessi verk öðruvísi en með harðvítugum áætlunarbúskap. Þeir menn, sem hefðu farið fram á eitthvað annað, sýndu bara eitt, að þeir höfðu ekki nokkurt vit á atvinnumálum.

Hæstv. forsrh. sagði ýmis ljót orð um áætlunarbúskapinn, og það var alveg rétt hjá honum, að í upphafi fjárhagsráðsl. var talað um svona þjóðarbúskap eftir fyrir fram gerðri áætlun. Ég vakti athygli á þessu strax við umr., og forsrh. þáverandi, Stefán Jóhann, vildi leggja ákaflega mikið upp úr því, að þetta væri meiningin, þessi þjóðarbúskapur. Ég man eftir, að þáverandi utanrrh., Bjarni Benediktsson, talaði fyrir hönd Sjálfstfl. og sagði alveg greinilega, að það væri alls ekki meiningin hjá Sjálfstfl., og það skildi ég líka fullvel. Það var sem sé þannig, að áætlunarbúskapurinn var í lögunum um fjárhagsráð aðeins sem falleg flík, sem var veifað með og aldrei var meiningin að framkvæma og aldrei var reynt að framkvæma. Það eina, sem gert hefur verið í áttina til áætlunarbúskapar hér á Íslandi, var gert af ríkisstj. hæstv. núverandi forsrh., nýsköpunarstjórninni, — það eina, sem gert hefur verið af viti, það langstærsta átak um áætlunarbúskap, sem gert hefur verið á Íslandi, og það langskynsamlegasta átak, sem nokkurn tíma hefur verið gert, það átak, sem íslenzka þjóðfélagið lifir á í dag. Ég býst við, að það sé meira en 90% af allri framleiðslu Íslands í dag, sem er framleitt af þeim tækjum, sem þá voru keypt, eða vegna þess að þau voru keypt á árunum á eftir, því að kaup nýsköpunartogaranna 10 rétt á eftir voru undir þeim sterku áhrifum, meðan nýsköpunarstefnan enn þá markaði hugi þjóðarinnar og markaði í orði kveðnu löggjöf, eins og heyrist alveg í upphafi fjárhagsráðsl. Það var bara vegna þess, að þjóðin einu sinni hafði upplifað það, hvað hún gat gert stórkostlega hluti, svo framarlega sem hún tók á með öllum sínum krafti, að hún gat gert eins stórkostlega hluti og á tímum nýsköpunarstjórnarinnar, það var það, sem raunverulega gerði, að það var ofur litið áframhald á einstaka sviðum á eftir, áður en allt var lagt í dróma. Þess vegna er það, að það, sem gert hefur verið af viti um áætlunarbúskap á Íslandi, var gert af nýsköpunarstjórninni undir forsæti hæstv. núverandi forsrh., Ólafs Thors, og enn þá býst ég við, að bæði hann sjálfur og meiri hluti þjóðarinnar fallist á, að það hafi verið langbezta stjórnin, sem hér hefur setið að völdum, ekki sízt þegar hún er borin saman við allar þær stjórnir, sem síðan hafa komið. En af hverju? Af því að það var ofur lítill forsmekkur að því, hvað sósíalismi og þjóðnýting mundi gera fyrir Ísland, svo framarlega sem þau væru framkvæmd hérna og framkvæmd af alþýðunni sjálfri. Menn fengu ofur litið að sjá það, hvernig menn gætu lifað hér í þessu landi, þegar allir hefðu vinnu og þegar a.m.k. svo og svo miklu af allri fjármálaorku þjóðarinnar væri einbeitt að því að reyna að byggja upp atvinnulíf þjóðarinnar. — Í þessu hérna hefti var það allt saman birt, sem við þá lögðum til. En ég er búinn að ræða svo mikið um það, að ég veit ekki, hvort ég á að fara að lesa þetta hér á eftir. En það voru engir smáræðis samningar, sem var lagt til af hálfu okkar. Það var heildarstjórn á nýsköpun atvinnulífsins, sem við lögðum til að lagt væri í. Það var um seðlabanka Íslands og bankana. Það var um innkaupastofnun þjóðarinnar. Það var um ýmiss konar ríkisrekstur. Það var um ráðstafanir til eflingar sjávarútveginum. Það var um raforku og stóriðju, undirbúning að virkjun Þjórsár, fyrir utan að ljúka við Sogið og Laxá 1948–49. Það var um byggingarstofnun ríkisins. Það var um almenn þjóðfélagsleg framfaramál. Þær eru upp á 16 síður, þær till., sem við lögðum fyrir þá. Ég hef þær hér prentaðar, þær hafa verið prentaðar allan tímann, og við höfum kynnt þessar till. hvað eftir annað í öllum okkar skólum. Greinin, sem þær birtust í, heitir: Hvernig skal einbeita orku íslenzka þjóðfélagsins. — Það gerir máske ekkert til, þótt ég lesi byrjunina á því, til þess að menn skilji aðeins andann, sem ríkti þá. Það byrjar svona:

„Nýbygging lands vors í nýstofnuðu lýðveldi þjóðar vorrar er hafin. Kynslóð feðra vorra tók við landi, sem rúið var eftir alda áþján, vegalausu, brúarlausu landi, þar sem vart var steinhús til og timburhús fá og framleiðslutæki öll fátækleg fram úr hófi. Öld fram af öld höfðu forfeður vorir orðið að berjast við það eitt að lifa, að halda lifandi íslenzku þjóðerni, íslenzkri tungu, íslenzkum bókmenntum, við svo ömurleg ytri skilyrði, að flestum hefði orðið slík viðleitni ofvaxin. Meðan moldarhreysin hrörnuðu á Íslandi, voru byggðar hallir erlendis fyrir arðinn af vinnu íslenzkrar alþýðu. Meðan íslenzkir fiskimenn týndu lífinu hundruðum saman á fúnum fiskibátum, óx auður einokunarherranna erlendis, sem skömmtuðu Íslendingum smánarverð fyrir fiskinn og okruðu á útlendu afurðunum, er þeir seldu þeim. Meðan nágrannaþjóðum vorum fjölgaði, fækkaði Íslendingum, og þegar harðast var. stóð baráttan beinlínis um tilveru íslenzkrar þjóðar í þessu landi.

Við höfum á síðustu 150 árum sigrað í þessari baráttu, Íslendingar. Nú stendur baráttan um að vinna upp aldirnar, sem við höfum tapað. Engin kynslóð Íslendinga hefur haft eins góð skilyrði til þess og einmitt kynslóð vor. Auður og tækni, sem allar undanfarnar kynslóðir skorti, eru lögð upp í hendur vorar, ef vér aðeins kunnum að nota þetta hvort tveggja rétt. Við þurfum að skapa á einum áratug fullkomnasta framleiðslukerfi, sem nokkur þjóð hefur í hlutfalli við stærð hennar. Slíkt er hægt, ef stjórnað er af viti. Við þurfum að reisa íbúðarhús yfir alla þjóðina, byggja þetta land, sem mátti heita húsalaust fyrir hálfri öld, þannig, að ekki búi aðrar þjóðir betur, þótt þær standi á fornum merg efnahagslega. Það er hægt að vinna slíkt verk á einum til tveimur áratugum, ef kröftunum er varið rétt. Við þurfum að reisa fjölmargar menningarstofnanir og opinberar byggingar til þess að skapa þeirri menningu vorri, sem er tilveruskilyrði og aðall þjóðar vorrar gagnvart öðrum þjóðum, þau ytri skilyrði, sem hún þarf til þess að þroskast og verða raunverulega sameign alþjóðar. Og þetta er því nauðsynlegra sem íslenzkt þjóðerni og erfðamenning verður á komandi árum að heyja baráttu gegn smekkspillandi og lítillækkandi ómenningaráhrifum Vesturheimsauðvalds. Eigi þjóð vorri að takast að lyfta þessu Grettistaki á efnahagssviðinu á næstu áratugum, þá verður að einbeita öllum kröftum hennar að því. Slíkt stórvirki verður ekki unnið, ef sundrung ríkir með þjóðinni, ef kröftum eins er varið til þess að arðræna annan, ef margir menn eru látnir vinna með lélegum verkfærum það verk, sem einn gæti unnið með góðu tæki, ef skipulagsleysi á framleiðslu og verzlun hindrar þau afköst vinnunnar, sem eru undirstaða allrar velmegunar.

Sósfl. hóf það verk 1944 að sameina þjóðina til slíks átaks, til þess að hefja lífsafkomu alþýðunnar á hærra stig og tryggja efnahagslegt sjálfstæði og menningu þjóðarinnar. Afturhaldsöfl yfirstéttarinnar hafa reynzt drjúg í því að tefja það verk og spilla því, en mikið hefur samt áunnizt, og þó er það aðeins byrjunin. 6. nóv. 1946 lagði Sósfl. fram till. sínar um, hvernig áfram skyldi halda. Eru þær grundvöllur að stjórnarsamstarfi, settar fram í 12 manna nefndinni.“ — Till. fara hér á eftir.

Þessar till. munum við sósíalistar alveg standa við, frá orði til orðs, í dag. Þær eru till. um þjóðnýtingu íslenzku þjóðarinnar á þeim sviðum, sem var lífsspursmál fyrir hana að þjóðnýta þá, til þess að hægt væri að halda áfram af fullum krafti að einbeita allri getu þjóðarinnar, allri fjármálalegri orku hennar að uppbyggingu atvinnulífsins, að aukningu sjávarútvegsins, að vélrekstri landbúnaðarins, að sköpun stóriðju á Íslandi.

Þetta held ég þess vegna að hæstv. forsrh. hefði mátt íhuga, áður en hann kom með sína ræðu hér. Þjóðnýting á þessum sviðum þýddi þá að tryggja þjóðinni fulla atvinnu, betri lífsafkomu. Það, sem síðan hefur verið á Íslandi á þessum sviðum, eru einokunarhöft fyrir litla heildsalaklíku, sem annast útflutning og innflutning, og fyrir þann, sem hefur orðið samsekur henni um einokunina, Samband ísl. samvinnufélaga. M.ö.o.: Í staðinn fyrir þjóðnýtingu á þessum kröftum þjóðarinnar höfum við síðan haft einokun ákveðinna fésýslumanna, þeirra fésýslumanna, sem báru sigur úr býtum í því að drepa nýsköpunina. Það voru heildsalar Sjálfstfl. og Samband ísl. samvinnufélaga, sem ræður Framsfl., sem drápu nýsköpunarstjórnina, að svo miklu leyti sem það voru innlend öfl. Og síðan hafa þessir aðilar ráðið landinu, þessir aðilar, sem allan þennan tíma hafa aðeins hugsað um eitt, og það er, hvernig þeir eigi að skipta verzluninni á milli sín, hvernig þeir eigi að fara að því að ræna þjóðina gegnum verzlunina. Þessi einokun, sem verið hefur allan þennan tíma, á eftir því frv., sem hérna liggur fyrir, að halda áfram, nema nú á hún að verða einokun með reglugerðum ríkisstj., í staðinn fyrir að áður var hún einokun með reglugerðum fjárhagsráðs, gefnum út samkvæmt ósk ríkisstj. Það er skrambans mikill munur. Þess vegna ætla ég að biðja hæstv. forsrh., upp á gamlan kunningsskap, að blanda aldrei oftar saman, þegar hann talar hérna við okkur, áætlunarbúskap og þeim beztu tilraunum, sem gerðar hafa verið á Íslandi til þess að framkvæma hann með nýsköpunarstjórninni, og því haftafargani fyrir einstakar fjármálaklíkur í þessu landi, sem verið hefur síðan 1947, að hann lét af stjórn. Þess vegna er það, sem við höfum nú hér lagt svo ríka áherzlu á að fá að vita, hvað ríkisstj. hugsaði sér nú með þessum málum öllum. Hefði hún haft fyrir því að hlusta á mína ræðu hérna, þá hefði hún kannske svarað einhverju af slíku. — Áðan minntist hann á, svo að ég rétt ljúki með því að svara tveim, þrem orðum, yfirstjórn Íslands, sem hefði verið í fjárbagsráði, hún flyttist nú til ríkisstj. Flyzt hún ekki í Framkvæmdabankann? Er það alveg öruggt? Það er það, sem ég var hálfhræddur um. — Þá sagði hæstv. forsrh., að ríkisstj. áskaði eftir því að hafa ekki allt í höftum og böndum. Gildir það líka um útflutninginn? Á að afnema öll útflutningshöftin líka, af því að ríkisstjórnin óski svo mikið eftir að hafa engin höft og bönd? — Og svo að síðustu. Hæstv. forsætisráðherra sagði, að nú ætti að 1yfta þeirri lamandi hendi fjárhagsráðs af atvinnulífinu. Þeir eru alveg öruggir að fá ekki í staðinn þá lamandi járnhnefa ríkisstj. á atvinnulífið. M.ö.o.: Fyrst hæstv. forsrh. hefur látið svo litið að taka nú þátt í umræðunum án þess að hafa hlustað á ræðurnar, þykir mér vænt um, að hann hefur þó hlustað á þessa ræðu og gefið mér tækifæri til þess að rifja upp gamla og góða hluti. Og nú vona ég, að hann haldi áfram og taki þátt í þessum umræðum, því að þær eru vissulega þess virði, að þeim sé haldið áfram af fullum krafti.