07.04.1954
Neðri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í C-deild Alþingistíðinda. (2793)

200. mál, byggingarsjóður kauptúna

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er að mestu sama efnis og frv. með sömu fyrirsögn, sem flutt var af sömu flm. á Alþ. 1952. Við flm. erum þeirrar skoðunar, að nauðsyn beri til að koma upp sérstakri stofnun, sem hafi það hlutverk að annast lánveitingar til íbúðarhúsa í kauptúnum. Þessi skoðun byggist á því, að við teljum, að hætt sé við því, að þessi fámennu kauptún beri skarðan hlut frá borði, ef ekki er öðruvísi fyrir þeim séð en svo, að þau þurfi að sækja sín lán undir sömu lánsstofnanir og hinir fjölmennari staðir, og teljum við, að reynslan styðji þá skoðun. — En af því að langt er liðið á kvöldið, skal ég ekki lengja fundinn með því að flytja langa framsöguræðu um þetta mál, þó að ástæða væri til að ræða nánar ýmislegt í þessu sambandi. Ég mun í þess stað láta mér nægja að vísa til þeirrar grg., sem fylgir frv. á þskj. 676.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn., en þar mun málið hafa verið á síðasta þingi.