27.10.1953
Efri deild: 10. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í C-deild Alþingistíðinda. (2802)

69. mál, brúargerðir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er ekki á neinn hátt til að leggja stein í götu þessa frv., sem hér er á ferðinni, sem ég kveð mér hljóðs, heldur til að benda á það, að á síðasta þingi var í raun og veru þetta ákveðið. Þá var byrjað að brúa Kerlingardalsá á þessari syðri leið. Sú brú var þá ekki og er ekki enn komin á brúalög, en áin var önnur af þeim tveimur ám, sem brúa verður, svo að leiðin verði fær. Með þessu fékk sá þm. V-Sk., er þá sat á Alþ., því slegið föstu, að syðri leiðin austur yfir. Mýrdalssand yrði farin, en ekki um heiðina, og því verður Múlakvísl brúuð, hvað sem samþykkt frv. liður hér í d. Þess vegna er það nokkurn veginn sama, hvort frv. er samþ. eða ekki samþ.; það er þegar búið að ákveða á Alþ. með fjárveitingu til Kerlingardalsárbrúarinnar að fara syðri leiðina, og ég vænti þess, að það verði enginn þm. til þess að leggja stein í götu þess. Ef hv. þm. sýslunnar þykir eitthvað léttara fyrir að fá lög um það en að fá það hinsegin, eins og Jón Gíslason fékk samþykkt fjárveitingu til Kerlingardalsárbrúar, þá er rétt að samþ. frv. En ég tel málið afgreitt í fyrra. Alþ. hefði ekki annars farið að leggja fé í brú, sem ekki er á brúalögum, en er á leiðinni og gagnslaus, nema áfram sé haldið á þessari syðri leið, sem er verið að ræða um.