29.03.1954
Efri deild: 72. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í C-deild Alþingistíðinda. (2817)

186. mál, læknaskipunarlög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þar sem farið er að ræða hér um það, hvernig þetta frv. sé til orðið, vil ég leyfa mér að spyrja hv. n., sem flytur frv., hvort það sé rétt, að það sé eingöngu flutt að beiðni landlæknis, eins og stendur hér. Alveg eins og hv. 1. þm. N-M. gat hér um, þá er þetta mjög mikilsvert mál, sem hefur verið til meðhöndlunar lengi áður, ráðh. hefur haft afskipti af og er vissulega þess eðlis, að heilbrigðisstjórnin sjálf, þ. e. a. s. fyrst og fremst heilbrmrh. og heilbrmrn., hlýtur að bera ábyrgð á því gagnvart Alþ., en ekki landlæknir einn. Ég tel það mjög varhugaverða reglu, ef það á að takast upp, að einstakir embættismenn fram hjá þeim pólitíska valdhafa, ráðherranum og ráðuneytinu, eigi að fara að senda stóra lagabálka til Alþ. Það verður vitanlega að vera með þeim hætti undirbúningur laga, að það sé ráðuneytið, sem tekur ábyrgð á lögunum, en ekki einstakir embættismenn, svo að ég vil láta þá skoðun mína uppi, að ef hæstv. heilbrmrh. hefur ekki tekið ábyrgð á þessari lagasetningu og þetta sé hans frv., þá sé þetta mál mjög að ófyrirsynju komið inn í Alþ., og ég vil skora á n. að láta frv. kyrrt liggja, ef það hefur ekki fengið frekari undirbúning en þann, sem ætla má af grg.