15.10.1953
Sameinað þing: 8. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (2824)

19. mál, höfundaréttur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég gerði í raun og veru grein fyrir þessari þáltill., um leið og ég lagði fyrir hv. Nd. frv. til l. um breyt. á l. nr. 13 frá 20. okt. 1905, um rithöfundarétt og prentrétt. Ályktunin er um það að heimila ríkisstj. eða réttara sagt fela henni að gerast fyrir hönd Íslands aðili að allsherjarsamningi þeim um höfundarétt, sem gerður var í Geneve 6. sept. 1952. Þessi samningur er að meginefni hinn sami og Bernarsamþykktin, sem menn kannast við og Ísland er nú orðið aðili að, en hinn nýi allsherjarsamningur er víðtækari, nær til fleiri ríkja en hinn eldri, og ef Íslendingar þess vegna treysta sér á annað borð til þess að vera áfram í þessum samtökum, þá virðist vera rétt að gerast einnig aðili að hinum nýja samningi.

Málið var allrækilega undirbúið í tíð fyrrv. menntmrh., Björns Ólafssonar, og frv., sem ég gat um, fylgir ýtarleg álitsgerð, svo að ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið, en legg til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn., en vildi jafnframt beina því til þeirrar n. að hafa samráð við allsherjarnefndir í deildum, þó einkanlega í Nd., um afgreiðslu málsins.