24.11.1953
Neðri deild: 28. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv., sem hér er til umr., kom fram hér í d., þá las ég það að sjálfsögðu yfir með nokkurri hliðsjón af fjárhagsráðsl. frá 1947 til þess að finna út, hvað það er nú, sem ríkisstj. ætlar að breyta frá því, sem þá var í gildi, og ég fann nú sannast að segja sáralitið. En þegar hæstv. forsrh. talaði hér úr þessum ræðustól í d. í gær, þá fór mér að detta í hug, að ég mundi hafa illa lesið, því að hann vildi svo vera láta, að hér væri um algera stefnubreytingu að ræða, og þess vegna hef ég nú rennt augum aftur yfir frv. til að ganga úr skugga um, hvort svo væri.

Hæstv. forsrh., sem er mjög skemmtilegur ræðumaður, flutti eina af sínum skemmtilegu ræðum hér í gær. Ég verð að játa, að ég hef hann nú ævinlega grunaðan um að vilja nokkru betur en hann gerir nú á síðustu. árum, og þegar hann fór hér mörgum fögrum orðum um frelsi, sem í þessu frv. væri fólgið, þá hlaut ég að endurskoða það, hvað það væri nú eiginlega, sem mér hefði yfirsézt, í hverju frelsið væri fólgið í þessu frv. Ég hef komizt að raun um, að það muni nú einna helzt vera í því, sem forsrh. lagði alveg sérstaka áherzlu á, að frv. byrjar með orðunum: „Frjáls skal vera innflutningur“ o.s.frv.

En síðan eru þessi orð reifuð í slík bönd, að þau mega sín harla lítils sem einhver sérstök frelsisskrá.

Reynslan hefur, sagði forsrh. í gær, fordæmt fjárhagsráð því meir sem það starfaði lengur, lamandi hönd þess hefur valdið meira böli en flest annað. Ég get að verulegu leyti tekið undir þessi orð forsrh., en hins vegar verð ég að lýsa því yfir, að ég sé ekki, að mikið af því böli sé læknað, þó að þessi hæstv. ríkisstj., sem nú situr að völdum með sinn hæstv. forsrh. í broddi fylkingar, leggist í kirkjugarðinn, þar sem líkið af fjárhagsráði liggur, líkt eins og Jón Arngeirsson að gröf Valtýs á grænni treyju, og höggvi af höndina. Enn þá er glæpamaðurinn ófundinn, enn þá er ófundinn sá, sem bölinu veldur, og það mætti segja mér, að sá hæstv. forsrh., sem talaði hér digurbarkalegast um þessa lamandi hönd, sem valdið hafi bölinu, eigi eftir að uppgötva einhverju sinni, að þar er ríkisstj. sjálf, sú, sem hann veitir forstöðu, og þær, sem sátu næst á undan henni, einmitt sá, sem finna þarf og festa upp í gálgann sem slíkan, þ.e.a.s., ég á ekki við að festa ráðh. upp persónulega, heldur þá stefnu, sem þeir hafa viðhaft, og þá kúgun, sem þeir hafa haft uppi gegn landslýðnum.

Í sambandi við þessi tvenn lög — ég leyfi mér eins og aðalmálgagn ríkisstj., Morgunblaðið, að tala um frv., sem hér liggur fyrir, sem lög í þessu sambandi — liggur það í fyrsta lagi fyrir, að breytingin er ein til bóta, það skal ég viðurkenna, og því fagna ég, ekki síður en forsrh., en sú eina breyting, sem ég sé að sé í þessu frv. til verulegra bóta, er í 8. gr. þess, 1. málsgr.: „Frjálst skal vera að byggja íbúðarhús, þar sem hver íbúð ásamt tilheyrandi geymslu, þvottahúsi og þess háttar er allt að 520 m3, svo og peningshús, heyhlöður, verbúðir og veiðarfærageymslur. Enn fremur eru undanþegnar fjárfestingarleyfum framkvæmdir, er kosta samtals allt að 40000 kr.“ Þetta er til bóta. Að vísu leysir þetta ekki nein stórkostleg vandkvæði, t.d. þar sem húsnæðisvandræði eru, en ég tel, að í þessu felist þó a.m.k. það, að þeir, sem byggja sér skapleg íbúðarhús og klífa það fjárhagslega, eins og um hnútana er búið í fjármálum þjóðarinnar nú til dags, verða a.m.k. ekki eftir á ofsóttir og dregnir fyrir dómstóla til sekta. Ég tel líka, að í þeim orðum hæstv. forsrh., sem hann viðhafði hér í gær og voru eitthvað á þessa leið: Við ættum að viðurkenna yfirsjónir okkar og vitleysur, sem við gerðum, þegar við samþ. l. um fjárhagsráð — ég tel, að í þeim orðum felist viðurkenning á því hjá forsrh., að ekki sé á neinu viti byggt að hafa enn þá uppi málssóknir og ofsóknir gegn húsbyggjendum, og tek það svo, að með þessum orðum gefi forsrh. loforð ríkisstj. fyrir því, að í framkvæmdinni verði ekki haldið áfram með þær réttarofsóknir, sem yfir standa gegn 22 Vestmannaeyingum og ég hef áður flutt hér í þinginn þáltill. um, sem ekki hefur verið afgreidd enn þá, að þessi málaferli verði afturkölluð, og vildi ég sérstaklega beina þeirri spurningu til forsrh., hvort ekki megi taka ummæli hans svo, að ríkisstj. felli þau málaferli niður.

Hinu er alls ekki að leyna, að í allmörgum atriðum er þetta lagafrv. ríkisstj., sem hér liggur fyrir, veruleg afturför frá l. um fjárhagsráð, og skal ég nefna nokkur dæmi.

Í 5. gr. þessa frv. felst breyting á nafni þeirrar stofnunar, sem á að hafa eftirlit með innflutningnum og fjárfestingunni. Þar segir: „Innflutningsskrifstofa, sem stofna skal samkvæmt l. þessum, hefur með höndum leyfisveitingar samkvæmt 1. og 8. gr.“ Það þýðir, að í staðinn fyrir fjárhagsráð er nú sett á stofn innflutningsskrifstofa. Það er nú heldur ósmekklega til fundið nafn og gefur tilefni til nokkurs misskilnings, þar sem ætla mætti eftir nafninu, að hér væri um að ræða skrifstofu, sem sjálf ætti að hafa með höndum innflutning til landsins. Þetta sést nú kannske öllu betur, þegar búið er að snúa þessu heiti á hið síðara móðurmál ríkisstj. Þá mundi þetta líklega verða Import Office, en það mundu víst fæstir skilja öðruvísi en svo, að það væri skrifstofa, sem ætlaði að annast innflutninginn. Þá er það a.m.k. ekki til þess að færa hlutina í lýðræðislegra form að draga valdið úr höndum fimm aðila í hendur tveggja, sérstaklega þegar höfð er hliðsjón af því, hvernig allt er í pottinn búið í okkar þjóðfélagi, að þeir tveir hv. stjórnmálaflokkar, sem að ríkisstj. standa, eru sem óðast að draga allt fjármálalif þjóðarinnar beint inn í sínar flokksklíkur og setja ekki aðra til þess að gegna almennri þjónustu í fjármálunum en einmitt þá, sem draga allt fjármálalíf þjóðarinnar beint inn á flokksskrifstofurnar og taka flokkssjónarmiðin öllum sjónarmiðum framar. Því hefur áður verið lýst, að fylgjendur ríkisstj. við síðustu kosningar eru ekki, þegar öllu er á botninn hvolft, nema rétt rúmlega 60% þjóðarinnar, og þetta miðar mjög að því að gera hin 40% enn þá réttlausari en þau áður voru, og að því er tekur til hæstv. forsrh., — sem svo mjög talar um frelsi og ég í rauninni hef alltaf nokkra tilhneigingu til að halda að sé meinfangalaust við frelsið, enda þótt verk hans sýni það ekki upp á siðkastið, — þá bendir þessi breyting ekki til þess, að hann hafi yfir neinu að gleðjast hvað snertir lýðræði og frelsi.

Þá eru í 9. gr. þessa lagafrv. gerðar ráðstafanir til þess að lögfesta enn betur en verið hefur yfirráð Ameríkana yfir fjármálum íslenzku þjóðarinnar en í 9. gr. er talað um að Framkvæmdabanki Íslands skuli sjá um fjárfestinguna. Framkvæmdahanki Íslands er, eins og flestum er nú víst kunnugt, sú stofnun, sem fátækrafulltrúi Ameríkana veitir forstöðu í umboði Ameríkumanna og með samþykki íslenzku ríkisstj.

Þá er dálítið merkilegt atriði í þessu frv., sem er alveg nýmæli, að því er ég bezt veit. Í 3. málsgr. 8. gr. þessa lagafrv. segir:

„Óheimilt er byggingarnefndum í kaupstöðum og kauptúnum að leyfa að hefja framkvæmdir, sem fjárfestingarleyfi þarf til, nema slíkt leyfi liggi fyrir. Enn fremur skulu byggingarnefndir hver í sínu umdæmi, hafa eftirlit með því, að framkvæmdir, sem heimilar eru án fjárfestingarleyfa, séu í samræmi við ákvæði þessarar greinar.“ — Og greinin heldur áfram og segir: „Þar sem byggingarnefndir starfa ekki, skulu oddvitar gæta þess, að ekki séu hafnar framkvæmdir, er háðar eru fjárfestingarleyfum, án leyfis innflutningsskrifstofunnar, svo og að framkvæmdir, sem hefja má án leyfis, séu í samræmi við lög þessi.“

Þetta þýðir það, að byggingarnefndir í kaupstöðum og oddvitar í sveitum eru í rauninni gerð að lögreglu. Ég tel, að ríkisvaldið hafi þegar komið sér upp alveg nægilegu kerfi til þess að annast umsjónina með þessu, þótt ekki sé farið að gera sveitarstjórnirnar ábyrgar hér um hluti, sem þær hafa hingað til ekki borið ábyrgð á. Þá má og geta þess, að það er í ósamræmi við það, sem tíðkazt hefur á okkar landi, að hægt væri að draga bæjarstjórnir eða oddvita eða byggingarnefndir fyrir lög og dóm fyrir einhverjar yfirtroðslur á þessum væntanlegu lögum, sem kunna að verða framkvæmdar í viðkomandi héraði. Ég fyrir mitt leyti felli mig mjög illa við þessa grein og er á móti henni.

Það eru líka í 11. gr. allþung viðurlög við því, að þeir, sem skýrslur eiga að gefa um þessi mál, verði að gera það á tilskildum tíma, ella sæti þeir háum fjársektum. Þetta gæti komið á bæjarfélög eða sveitarfélög, og ég hygg, að það sé algerlega ósanngjarnt. Það eftirlitskerfi, sem ríkið þegar hefur, hlýtur að nægja og óþarfi að fara að gera hvern oddvita og hverja byggingarnefnd að lögreglufulltrúum ríkisstj.

Þá vil ég einnig benda á það, að miðað við fjárhagsráðslögin stefnir þetta frv. enn að frekari gengisfellingu. Í 12. gr. þessa frv. er svo fyrir mælt, að innflutningsskrifstofan megi innheimta 1% í leyfisgjald af öllum þeim fjárhæðum, sem hún veitir innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir. Í fjárhagsráðsl. er gert ráð fyrir, að þetta sé 1/2%, en þessi hækkun um 1/2% þýðir auðvitað, að erlendur gjaldeyrir hækkar í verði sem því nemur, en allt, sem hækkar erlendan gjaldeyri í verði, miðað við íslenzka krónu, er auðvitað gengisfelling, og að því leyti miðar þetta frv. í átt að gengisfellingu. Ef svo færi. sem ekki er ólíklegt, að ríkisstj. yrði enn að hafa fataskipti á þessari stofnun sinni, t.d. næsta ár, og ef þá yrði haldið áfram á brautinni að hækka leyfisgjöldin kannske um hálft eða heilt prósent, þá vitum við ekki fyrr en við erum komin með verulega gengisfellingu í þessum lið. Þess vegna er ég fyrir mitt leyti algerlega á móti þessari hækkun, þar sem hún miðar að enn frekari gengisfellingu.

Ég hef sýnt hér fram á, að a.m.k. í fimm atriðum er lagafrv., sem hér liggur fyrir, afturför frá l. um fjárhagsráð, en þá er ég kominn að því, að þetta lagafrv. er allmiklu styttra en l. um fjárhagsráð. Og hvað er það, sem fellt er niður? Jú, það, sem fellt er niður, eru allar skrautfjaðrirnar, sem hæstv. ríkisstj., sem sat að völdum, þegar fjárhagsráðsl. voru samþykkt, taldi sjálfsagt að í frv. yrði að hafa, þ.e.a.s., það er sú hlið á fjárhagsráðsl., sem veit að því, að þegnarnir í landinu skuli hafa einhver réttindi gagnvart stjórnarvöldunum En þetta á nú allt að fella niður. E.t.v. er það þess vegna, að hæstv. forsrh. er svo ákaflega hrifinn af þessu lagafrv. Það mætti segja mér, að undir niðri hefði sá maður haft heldur vonda samvizku af því að láta standa í l., án þess að ríkisvaldið gerði nokkurn skapaðan hlut til þess að framkvæma það, ákvæði eins og felast í upphafi fjárhagsráðsl., þ.e.a.s. í 2. gr. þeirra, og eru tölusett í átta liðum, sem ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér yfir. Þar segir:

„Fjárhagsráð miði störf sín við eftirfarandi: 1. Að öll framleiðslugeta sé hagnýtt til fulls og öllum verkfærum mönnum tryggð næg og örugg atvinna. (Það er skiljanlegt, að hæstv. ríkisstj. liði betur, þegar þetta fellur út úr l.)

2. Að öllum vinnandi mönnum, og þó sérstaklega þeim, sem stunda framleiðsluvinnu til sjávar og sveita, séu tryggðar réttlátar tekjur fyrir vinnu sína, en komið í veg fyrir óeðlileg sérréttindi og spákaupmennsku. (Það er sömuleiðis alveg skiljanlegt, að hæstv. ríkisstj. sé öllu glaðari í hjarta sínu, þegar hún er laus við þetta ákvæði út úr l.)

3. Að neytendur eigi kost á að kaupa neyzluvörur sínar og framleiðendur rekstrarvörur sínar á hagkvæmasta hátt og vörukaup til landsins og vörudreifing innanlands gerð eins ódýr og hagkvæm og frekast er unnt.

4. Að áframhald verði á öflun nýrra og fullkominna framleiðslutækja til landsins, eftir því sem gjaldeyrisástæður og vinnuafl leyfir frekast, enda verði tryggt fé til framkvæmdanna jafnóðum. (Ja, það gengur nú heldur illa að tryggja fé til þeirra framkvæmda nú til dags.)

5. Að byggðar verði verksmiðjur og iðjuver til þess að vinna sem mest og bezt úr öllum framleiðsluvörum til lands og sjávar, þannig að þær séu seldar úr landi eins fullunnar og frekast er kostur, og við staðsetningu verksmiðjanna verði tekið tillit til hvors tveggja í senn, framleiðsluskilyrða og atvinnuþarfa einstakra byggðarlaga.

6. Að bæta starfsskilyrði iðjuvera, sem framleiða vörur, er spara þjóðinni gjaldeyri.

7. Að atvinnuvegir landsmanna verði reknir á sem hagkvæmastan hátt á arðbærum grundvelli og stöðvist ekki vegna verðbólgu og dýrtíðar.

8. Að húsnæðisskorti og heilsuspillandi íbúðum, hvar sem er á landinu, verði útrýmt með byggingu hagkvæmra íbúðarhúsa.“

Ég veit ekki betur en að flest þessi ákvæði, sem í l. eru nú, séu einmitt þess eðlis og stefni í sömu átt og mörg þau frumvörp, sem við sósíalistar erum að flytja hér nú á þessu þ. um smíði skipa. bæði báta og togara, og langtum fleira til þess að efla atvinnuvegi landsmanna og að Íslendingar yfirleitt fái að njóta sín við íslenzka atvinnuvegi, en séu ekki reknir í algerlega óarðbæra atvinnu suður á Keflavíkurflugvöll til þess að forðast hið sárasta atvinnuleysi. En þessu er öllu saman dauflega tekið af hv. ríkisstj., og eins og ég hef margtekið fram, þá er ekkert óskiljanlegt við það, þó að þessari hæstv. ríkisstj. finnist, að hún hafi öðlazt allmikið frelsi, þegar hún er laus við þessi ákvæði úr l. En það er hins vegar alveg misskilningur hjá hæstv. ríkisstj., að frv., sem hér liggur fyrir, miði að nokkru frelsi fyrir þjóðina, að undanskildum þeim eina lið, sem ég hef hér tekið fram, þ.e.a.s. að gefa frjálsa byggingu íbúðarhúsa og nokkurra fleiri framkvæmda, og um getur í 1. málsgr. 8. gr. þessa frv. Ég skal hins vegar, um leið og ég fagna þeim lið, taka fram, að þar finnst mér gengið skrefi of skammt, og hef ég ásamt hv. 11. landsk. þm. (LJós) borið fram brtt., sem útbýtt var hér í d. í dag, þess efnis, að auk þess, sem þar er lofað frjálsum framkvæmdum á, verði byggingar í þágu sjávarútvegsins, svo sem fiskgeymsluhús og aðrar byggingar í hans þágu.

En að síðustu vil ég taka það sérstaklega fram, að ég tei, að í ummælum forsrh. felist það, að ríkisstj. muni afturkalla málshöfðanir sínar gegn þeim 22 Vestmannaeyingum, sem nú standa frammi fyrir dómara fyrir það eitt, að þeir byggðu sér íbúðarhús.