18.12.1953
Sameinað þing: 30. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (2834)

133. mál, frestun á fundum Alþingis

Forsrh. (Ólafur Thors):

Út af þessum ummælum hv. 2. þm. Reykv. þykir mér rétt að segja frá því, að ég hygg, að það hafi verið í septembermánuði, sem ríkisstj. fól ýmsum af sínum trúnaðarmönnum að kynna sér eftir föngum hag útgerðarinnar og hag og efnahagsafkomu þeirra, sem afurðir hafa keypt af bátaflotanum, og þá með það fyrir augum að fá úr því skorið, hvort ekki væri hægt að koma til leiðar sanngjarnri hækkun á fiskverði til sjómanna og útgerðarmanna.

Að þessu máli hefur mikið verið unnið og af prýðilegum mönnum. Fyrir hönd stjórnarinnar hafa starfað að því skrifstofustjórinn í atvmrn., Gunnl. E. Briem, sem er formaður þessarar nefndar; fiskimálastjóri, Davíð Ólafsson; skrifstofustjórinn í viðskmrn., Þórhallur Ásgeirsson; bankastjóri Framkvæmdabankans, Benjamín Eiríksson; skrifstofustjórinn í fjmrn., Sigtryggur Klemenzson, og dr. Oddur Guðjónsson frá fjárhagsráði. Þessir menn hafa lagt í það mikið verk að rannsaka möguleikana fyrir verðhækkun.

Ég treysti mér ekki á þessu stigi að fullyrða neitt um það, hvort rannsóknin leiði til þeirrar niðurstöðu, að stjórnin telji sig hafa aðstöðu til þess að reyna að beita sér fyrir hækkun á fiskverði til sjómanna og útgerðarmanna. En þó held ég, að ég ofmæli ekki, þó að ég staðhæfi, að þær upplýsingar, sem fyrir liggja, gefa nokkrar vonir í þessum efnum. En vitaskuld hlýtur sérhver stjórn í landinu, jafnvel stjórn, sem væri eins bág og bölvuð og menn töluðu hér um á eldhúsdaginn, hvað þá heldur svo góð stjórn sem menn hugsa um á þessari stundu, að vilja gera allt, sem hún getur, til þess að vinna að því, að eigi rísi deila, er leiði til þess, að útgerðin stöðvist um áramótin.