18.12.1953
Sameinað þing: 30. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (2835)

133. mál, frestun á fundum Alþingis

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil á engan hátt draga í efa, að það sé rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að hæstv. ríkisstj. hafi fullan hug á að fá deiluna milli sjómanna og útgerðarmanna leysta eða deiluna um fiskverðið. Hins vegar gaf hann ekki, að því er mér virtist, og kannske ekki þess að vænta heldur, neinar þær upplýsingar, sem geta verið fullnægjandi alþm. í því efni, hvaða horfur séu á því, að deilan leysist skjótlega.

Viðvíkjandi till., sem hér liggur fyrir, vil ég segja það, að ég mun eftir atvikum greiða henni atkv. En ég vil gjarnan taka það skýrt fram, að ef í sambandi við deiluna um fiskverðið kæmi til nýrrar lagasetningar, þá tel ég alveg tvímælalaust, að hæstv. ríkisstj. bæri þá að kalla Alþ. saman, áður en frá þeirri löggjöf yrði gengið, því að með slíkri þingfrestun sem hér er um að ræða er ekki til þess ætlazt, að hæstv. ríkisstj. taki sér með því vald til að gefa út brbl. Eins og till. nú er orðuð, þá segir, að þingið verði kvatt saman aftur eigi síðar en 5. febr. n. k., og ég vil láta það fylgja mínu atkv. um þessa till., að ég tel, að ef til lagasetningar kæmi í sambandi við lausn deilunnar um fiskverðið, beri ríkisstj. að leita um það álits þingsins, en ekki að leysa það með brbl.