25.11.1953
Sameinað þing: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (2845)

75. mál, brúarstæði á Hornafjarðarfljótum

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Með till. þeirri, sem hér liggur fyrir, er farið fram á það, að ríkisstj. láti fara fram á næsta ári nákvæma rannsókn á brúarstæði á Hornafjarðarfljótum. Við Hornafjarðarfljót eru staðhættir svo sérstæðir, að í sambandi við brúargerð mun þörf vera á, að nákvæm rannsókn fari þar fram á aðstöðu allri, áður en til framkvæmda getur komið. — Upptök fljótanna eru í Vatnajökli. Renna tvær jökulár undan rótum jökulsins, sitt hvorum megin við allhátt fell. Lausleg athugun hefur farið fram á brúarstæði þar, en þessar ár, einkum hin svonefndu Austur-fljót, breyta oft um farvegi, svo að ekki hefur þótt aðgengilegt að byggja brýr á þeim slóðum. En þegar neðar dregur á sléttlendið, dreifast þessar ár yfir stórt landssvæði milli tveggja gróðursælla sveita, Nesjahrepps og Mýrahrepps. Á mörkum þess, þar sem þessi vatnsfláki telst fljót eða fjörður, liggur þjóðvegur yfir hann í miðju héraði, og sú leið var fjölfarnasta leiðin milli hreppa í sýslunni, meðan ferðazt var á hestum. En þessi leið hefur oft reynzt torfær eða ófær á bifreiðum, og hefur þá verið horfið að því ráði meira og meira að fara aðra leið nær sjó og yfir Hornafjarðarfljót á ferju.

Á síðari árum hefur tækni fleygt mjög fram, og með hinum stórvirku tækjum, sem nú eru notuð til vegagerðar, hefur reynzt stórum auðveldara en áður að gera miklar framkvæmdir á því sviði, og með þessum stórvirku tækjum er það leikur einn að vinna ýmis verk, sem ókleift var að leysa af hendi áður. Þar, sem þjóðvegurinn liggur yfir Hornafjarðarfljót, sem lengi var hinn fjölfarnasti í héraðinu, eru 4–5 km leið á milli sveitanna Nesjahrepps og Mýrahrepps. Á þeim tímum árs, þegar jökulvötn eru að jafnaði lítil, er mikið af þessu svæði þurrar eyrar, en þær leggjast undir vatn í vatnavöxtum. Austur-Skaftfellingar hafa komið auga á það, að miklar líkur benda til þess, að hægt sé með viðráðanlegum kostnaði að ýta þarna upp görðum með jarðýtum og gera á þann hátt fyrirhleðslur við Hornafjarðarfljót á þessum slóðum, veita þeim með þessum hætti í mjóa ála og brúa síðan á einum stað eða fleiri. Reynslan sýnir, að í jarðveginum þarna er mjög mikið gróðurmagn. Ef eyrar sleppa við ágang vatns einhver ár, breytast þær í gróið land á tiltölulega stuttum tíma. Sennilegt er, að svo megi haga fyrirhleðslum, að stór landssvæði, sem vatn rennur nú yfir í vatnavöxtum, verði að fullu og öllu varin ágangi vatna, ef slíkar fyrirhleðslur eru gerðar. Mundi þá stækka að miklum mun á fáum árum gróðurlendi sveitanna báðum megin við Hornafjarðarfljót. En áður en hægt er að ráðast í framkvæmdir á þessu sviði, þarf vitanlega nákvæm athugun að fara fram á því, hvar fyrirhleðslur yrðu bezt settar og hve langar þær þyrftu að vera og hvort hagkvæmara er að gera þarna eina stórbrú eða smærri brýr á tveimur eða þremur stöðum, en það er aðeins þetta, sem farið er fram á með till. þeirri, sem hér liggur fyrir, að slík rannsókn verði gerð þegar á næsta ári.

Ég tel eðlilegt, að þessi till. fari til nefndar á milli umræðna, og mér er ljóst, að það er álitamál, hvort hún ætti að fara til fjvn. eða allshn. sameinaðs þings. Af slíkri rannsókn sem farið er fram á í till. mundi vitanlega leiða dálítinn kostnað, en það er samt engan veginn stórfellt fjárhagsatriði. Af því leiðir, að ég leyfi mér nú að leggja til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn., en því fer þó fjarri, að mér sé það nokkurt kappsmál, til hvorrar n. till. fer.