24.02.1954
Sameinað þing: 35. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (2847)

75. mál, brúarstæði á Hornafjarðarfljótum

Frsm. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Fjvn. mælir með því, að þessi þáltill. verði samþykkt. N. hefur sent vegamálastjóra till. til umsagnar, og mælir hann einnig með því, að þessi rannsókn á brúarstæði á Hornafjarðarfljótum fari fram.

Hugmyndin var, að aðalsamgönguleiðin yfir Hornafjarðarfljót yrði með vélknúinni ferju frá Óslandi, sem er utan við þorpið Hafnarkauptún, og yfir að Melatanga, þar sem flugvöllurinn er. Var byrjað á framkvæmdum þar lítils háttar, en fyrir atbeina vegamálastjóra voru framkvæmdir stöðvaðar í bili, því að hann var þarna á ferð s. l. sumar og taldi rétt, að athugað yrði nánar, áður en lengra yrði haldið, hvort ekki væri heppilegra að byggja brú á Hornafjarðarfljótum nálægt Bjarnanesi. Er með þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir, farið fram á, að þessi rannsókn fari fram.

Að sjálfsögðu verður brú á Hornafjarðarfljótum mjög löng og þar af leiðandi dýr, en vélknúin ferja yrði einnig dýr, og sérstaklega yrði dýr rekstur á þeirri ferju, sem mundi náttúrlega sparast, ef brú kæmi þarna. Auðvitað yrðu það einnig miklu meiri þægindi fyrir sveitirnar þarna í kring og samgöngur allar, ef brú gæti komizt þarna. — N. leggur sem sagt til, að till. verði samþykkt.