25.11.1953
Sameinað þing: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (2854)

80. mál, Dyrhólaós í Mýrdal

Flm. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þáltill. á þskj. 109, og er þar farið fram á, að rannsakað verði, hvað unnt sé að gera til þess að koma í veg fyrir frekari landspjöll af völdum Dyrhólaóss í Mýrdal. Landspjöll þessi eru svo tíð og stórfelld, að ef ekkert verður hægt að gera í þessu efni, þá er ekki annað líklegt en að hið blómlega engi í Mið-Mýrdal fari í algera auðn með tímanum. Það eru 25–30 býli í Mýrdal, sem eiga engjalönd hér að, og það líður varla svo nokkurt ár, að ósinn brjóti ekki meiri eða minni landspildu af þessu blómlega engi. Heilt byggðarhverfi, Dyrhólahverfið, stefnir í fullkomna auðn, ef ekkert verður að gert. Ég hef ekki þá þekkingu á þessum málum, að ég viti, hvað tiltækilegt er að gera til þess að bjarga frá þessum landspjöllum, en það, sem máli skiptir, er, að unnt sé að koma í veg fyrir, að ósinn stíflist, að hann hafi varanlegt útfall, eins og hann hafði víst í fornöld, að ég hygg.

Það eru til gömul munnmæli, sem herma, að Dyrhólaós hafi fyrr á öldum haft útfall undir eyjarhalanum að austanverðu og að hann hafi runnið út í svonefndan Bolabás og þá hafi ósinn aldrei stíflazt. Ég veit ekki, hvað hæft er í þessu, en inn úr Bolabás eru göng, og hefur verið komizt þar 70 faðma undir bergið, eða þriðjung leiðarinnar, og ekki ólíklegt, að þessi gömlu munnmæli séu rétt og að þarna hafi stíflazt af einhverjum orsökum, annaðhvort að ofanverðu eða einhvers staðar á leiðinni. En ef takast mætti að koma ósnum þarna í gegn á ný, þá mundi vera öruggt, að þarna yrðu ekki frekari landspjöll.

Ýmislegt bendir til, að í fornöld hafi verið miklu blómlegra um að litast umhverfis Dyrhólaós en nú er. Í Njáls sögu segir, að Kári Sölmundarson hafi reist bú að Dyrhólum, en það mundi hann ekki hafa gert, ef ekki hefðu verið þar góðir landkostir. — Til er samningur frá 17. öld, þar sem Kerlingardalsbræður leyfa bændum í Dyrhólahverfi upprekstur í Koltungum, sem er land í Kerlingardalsafrétt, fyrir reiðingsskurð norðan undir Dyrhólaey. En nú er ekki nokkur reiðingur til þarna og ekkert nema sandauðn. Þar, sem Dyrhólaós hefur verið að brjóta land, hefur stundum komið upp rekaviður og allt að 2 metra þykkt jarðlag ofan á. Þetta sýnir, að yfirborð óssins hefur verið miklum mun lægra áður fyrr en nú er. En það er mjög aðkallandi, að það verði athugað gaumgæfilega, hvað unnt er að gera til þess að vernda þetta blómlega land þarna í Mið-Mýrdal.

Hingað til hefur verið reynt að moka ósinn út, og hefur verið gert áður fyrr æði mikið að því, en alþm. skilja, að eftir því sem fækkar fólki á heimilunum, – nú er víðast hvar ekki nema einyrkjabúskapur, þar sem áður var fjölmenni á heimilum, — má heita, að það sé ókleift verk að moka út. Reynt hefur verið að nota þarna jarðýtu, en það er engan veginn hættulaust að hafa jarðýtu á þessum stað til þess að moka út ósinn, vegna þess að stundum kemur það fyrir, þegar verið er að moka hann, að þá hleypur hann með miklu kasti, svo að það getur verið stórhætta fyrir mann, sem er á slíku verkfæri, að vera þarna að verki.

Það, sem máli skiptir, er að reyna að finna einhver ráð til þess, að ósinn hafi öruggt útfall. Mýrdalurinn er of falleg og blómleg sveit til þess, að hann eyðileggist, máske fyrir sinnuleysi, ef eitthvað er hægt að gera til bjargar.

Ég leyfi mér að leggja til, að þessari þáltill. verði vísað til hv. fjvn. að lokinni þessari umr.