24.02.1954
Sameinað þing: 35. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (2866)

149. mál, þurrkvíar

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram á þskj. 381 till. til þál. um að skora á ríkisstj. að fela tveimur mönnum að ræða við bæjaryfirvöld Hafnarfjarðar og Reykjavíkur um möguleikana á því að koma svo fljótt sem verða má upp þurrkví fyrir 6 þús. smál. skip, er stækka mætti síðar, svo að hún gæti rúmað allt að 18 þús. smál. skip. Till. fylgir ýtarleg grg., en þó tel ég rétt að láta nokkur orð fylgja hér þessu merka og svo mjög aðkallandi máli.

Almenningi mun það fyrir löngu ljóst, að án þess að landsmenn hafi jafnan ráð yfir hæfilegum skipakosti, verði sjálfstæðinu ekki við haldið. Land, sem byggir mestallan útflutning á fiskveiðum og þess utan liggur um þúsund mílur frá öðrum löndum, getur ekki haldið sjálfstæði sínu, nema það ráði jafnan yfir skipastól bæði til fiskveiða og flutninga. Far er framtíð þessarar þjóðar, frelsi hennar og menning. Án fars getur hún ekki lifað sjálfstæðu menningarlífi, hvorki í friði né ófriði. Þetta hefur þjóðinni löngu skilizt, og því er það, að hún hefur eignazt með ári hverju nýrri, stærri, betri og fleiri skip. Meðan Íslendingar áttu aðeins lítil för, smíðuðu þeir þau sjálfir, dyttuðu að þeim og færðu í naust, þegar þau voru ekki í ferðum. En jafnskjótt og förin voru stækkuð, var leitað til annarra þjóða, ekki aðeins um smíði þeirra, heldur og um meginhlutann af viðgerðum þeirra og viðhaldi. Hér fór aldrei saman og fer ekki enn saman vaxandi skipastóll og vaxandi möguleikar til smíði skipa, viðgerða og viðhalds þeirra. Hafa Íslendingar af þessum ástæðum greitt hundruð milljóna króna úr landi á öld þeirri, sem nú er rúmlega hálfnuð, og stuðlað þann veg beinlínis að gjaldeyriseyðslu, sem var ekki nauðsynleg, og aukið jafnvel atvinnuleysið í landinu, oft til mikils tjóns fyrir alla aðila. Af þessu hefur viðhald skipastólsins orðið lakara, ending hans skemmri og öryggi margfalt minna. En allt hefur þetta síðan leitt til sívaxandi hækkunar á vátryggingargjöldum fyrir skip, sem hingað sigla eða héðan. svo að þjóðin greiðir einnig þar að óþörfu stórar fjárfúlgur. Þilskipaeigendurnir víð Faxaflóa ráku sig á þessar staðreyndir þegar um aldamótin síðustu, er þeir höfðu eignazt allmikinn flota af þilskipum, sem stunduðu veiðar meginhluta ársins, og því var það, að þeir komu sér upp dráttarbraut fyrir skip sín hér í Reykjavík. En allt var þar skorið við neglur sér og aðeins fyrir þá stærð skipa, sem hér þekktist þá. Þótt Íslendingar eignuðust togara skömmu eftir aldamót og þótt þeir stækkuðu og fjölgaði árlega, var samt aldrei hugsað um þá hliðina að geta dregið þá hér á land eða fleytt þeim í þurrkví, hvað sem á lægi. Það var ekki fyrr en aldarfjórðungur var runninn. að hér voru settar upp dráttarbrautir, sem tekið gætu á land togara af þeirri gerð, er þá þekktist hér. Allt að þeim tíma var dýrum skipum lagt upp í fjörur og hingað og þangað til þess að dytta að þeim á hinn fátæklegasta og frumlegasta hátt. Allar þær áhættur, sem því voru samfara, og allir þeir erfiðleikar, sem á veginum urðu og þurfti að yfirvinna, eru langur og merkilegur kapítuli í sögu útgerðar og iðnaðar um fjórðung aldar, sem hvort tveggja í senn geymir mynd margra afreka og mikillar fátæktar á sviði þeirra mála.

Þegar hér var komið málum, voru það margir, sem vildu láta Reykjavíkurbæ koma hér upp þurrkví eða dráttarbrautum fyrir þúsund smálesta skip. Hærra var þá ekki hugsað. En jafnvel sá stórhugur átti formælendur fá. Þá var látið sitja við dráttarbraut, sem tekið gæti skip allt að 600 smálestum. Varð það landinu til ómetanlegs gagns, að slíkum brautum var komið upp, þótt ekki væru þær stærri, enda urðum við að búa við þær allan ófriðartímann og yfirbjóða þeim þá svo, að telja mátti, að þær væru illa nothæfar í ófriðarlokin, enda þá orðnar allt of litlar. Hér var því komið upp nýjum brautum skömmu eftir stríðslokin, en þær gerðar svo litlar, að þær taka ekki nema skip allt að 1500 smálestum. Má því segja, að meginhluti verzlunarflotans eigi þess engan kost að vera settur hér á land eða geta fengið hér nauðsynlegar viðgerðir, auk þess sem brautir þær, sem fyrir eru, nægja engan veginn eftirspurninni, og verða því einnig hin smærri skip að leita í hópum til útlanda til hreinsunar og viðgerðar til stórtjóns og óþæginda fyrir land og lýð.

Árið 1943 samþykkti Alþ. að skipa fimm manna n. til þess að athuga þessi mál og gera tillögur um að koma hér upp skipasmíðastöð og þurrkvíum ásamt dráttarbrautum. N. skilaði ýtarlegu áliti þegar á sama ári, benti á, að mjög aðkallandi væri að koma upp þurrkví, er tæki allt að 6000 smálesta skip, ásamt dráttarbrautum og byggingarbrautum fyrir nýsmíði, og benti jafnframt á heppilegan stað fyrir þessar framkvæmdir og hvatti mjög til þess, að hafizt væri þá þegar handa um að hrinda þessu máli í framkvæmd. Samþykkt voru þá einnig á því Alþ. lög, sem heimiluðu ríkissjóði að leggja fram 2 millj. kr. sem styrk til þessara framkvæmda og enn fremur að ábyrgjast lán allt að 3 millj. kr., ef Reykjavíkurbær vildi koma mannvirkjunum upp. Því miður var þessu máli þá ekki sinnt. Mun þar hafa valdið nokkru um, að þeir aðilar, sem áttu dráttarbrautirnar hér, voru að koma upp nýjum og stærri brautum, eins og frá hefur verið greint hér að framan, og það talið nægjanlegt. En reynslan hefur sýnt, svo að ekki verður um villzt, að þeir menn höfðu rétt fyrir sér, sem þá bentu á, að hér væri allt of skammt farið. Árið 1951 er því málinu enn hreyft hér á Alþingi og samþykkt að skipa nefnd manna til þess að undirbúa byggingu þurrkvía fyrir 6000 smálesta skip, er stækka mætti síðar, svo að hún gæti rúmað 18 þús. smálestir. Liggja nú fyrir allar áætlanir og teikningar fyrir þessu mannvirki, allt eins og fram kemur í grg. fyrir þáltill. þeirri, er hér er til umr. Mér er það fullkomlega ljóst, að meginástæðan fyrir því, að þessu máli hefur ekki verið hrundið í framkvæmd, er það fjármagn, sem er áætlað að verkið muni kosta. Svo fjöldamörg og stór verkefni hafa á undanförnum árum kallað á það fé, sem fyrir hendi hefur verið eða hefur fengizt að láni, og því hafa bæði þessar framkvæmdir og margar aðrar orðið að sitja á hakanum, og þó eru takmörk fyrir því, hvað lengi einmitt þetta stóra mál má dragast.

Auk þeirra mörgu milljóna, sem hér eru árlega greiddar úr landi fyrir það að hafa ekki hér þurrkví, glötum við milljónum vegna þess, að við getum ekki tekið að okkur að vinna hér verk, sem berast beint upp í hendur okkar, svo sem fjöldamargar tjónsviðgerðir á erlendum skipum, sem hér verða fyrir tjóni og senda verður hjálparvana yfir hafið til viðgerða og hafa sum aldrei komizt alla leið. Má þar til nefna olíuskipið Clam, sem skemmdist hér í stórviðri. Var það togað suður fyrir Reykjanes, brotnaði þar í spón, en fjöldi manna lét lífið. Hefði því slysi verið hægt að bægja frá, ef hér hefði verið nægilega stór þurrkví til þess að taka skipið í og gera við tjónið, og margur maðurinn hefði fengið við það vinnu og allmikið fé runnið hingað til lands fyrir það verk. Hér strandaði annað skip við Engey í vetur. Var því fleytt á ný, en aðeins til að leggja því í fjöru, þar sem engin þurrkví var til, og enn missum við vænan spón úr aski beinlínis fyrir þurrkvíarskortinn. Sama getur ávallt komið fyrir okkar eigin skipastól. En hversu hörmulegt skeytingarleysi er það ekki að sofa á verðinum og sinna ekki málinu fyrr en allt er um seinan. Við erum allt of fátæk þjóð til þess að hafa ráð á því að vanrækja lengur þessa hlið útgerðar- og iðnaðarmálanna. Ef málið er tekið föstum tökum og vilji til að hrinda því áfram er fyrir hendi, munu gefast margar leiðir til úrlausnar. Í fyrsta lagi er þetta mál, sem tekur alllangan tíma að framkvæma, svo að hér er ekki um að ræða framlag á einu ári. Í öðru lagi er hér um að ræða mál, sem allir sjóvátryggjendur, sem tryggja skip í förum til Íslands, hljóta að hafa mikinn áhuga á. Í þriðja lagi er hér um að ræða stórt fjárhagsatriði fyrir tvær meginstéttir þjóðfélagsins, farmenn og iðnaðarmenn. Í fjórða lagi er hér um að ræða stórkostlegt fjárhagsmál fyrir Reykjavíkurbæ eða Hafnarfjörð, eftir því. hvor staðurinn yrði valinn fyrir þurrkvína, og síðan fyrir landið allt í heild. Það verða því ekki mörg önnur aðkallandi mál, sem hafa víðtækari áhrif á allt athafnalíf í landinu en einmitt þetta mál, ef vel er að gáð.

Þrátt fyrir þessi rök, sem öll hníga að því að hrinda þessu máli þegar í framkvæmd, fer þáltill. sú, sem hér er til umr., ekki fram á það, að byrja skuli nú þegar á sjálfum framkvæmdunum, heldur aðeins að skipaðir séu menn til þess að ræða við viðkomandi aðila, svo að finna megi grundvöll fyrir frekari framkvæmdum sem allra fyrst. Alveg sérstaklega er aðkallandi að staðsetja þurrkvína og velja henni hæfilegt land og skipuleggja það fyrir allar þær framkvæmdir, sem óhjákvæmilega verða í sambandi við þetta mannvirki. Á þetta jafnt við, hvort sem kvínni verður valinn staður í Reykjavík eða í Hafnarfirði, en þessir tveir staðir koma aðeins til greina, eins og skýrt kemur fram í till. n. Þau lönd, sem á báðum þessum stöðum eru langsamlega heppilegust fyrir kvína, kunna að verða tekin til annarra afnota, ef ekki er þegar eitthvað að gert í sambandi við þetta mál. Og það þarf óneitanlega nokkurn tíma til að semja um þessa hluti og koma þeim fyrir á heppilegasta hátt, og það eitt út af fyrir sig á ekki að kosta mikið fé. Hins vegar gæti það verið ómetanlegt tjón fyrir málið að láta þetta dragast svo lengi, að búið væri að ráðstafa þessum löndum til annarra þarfa. Það þarf líka að sjálfsögðu að ræða það, hvaða aðilar skuli bera af þessu kostnað, ef til framkvæmdanna kæmi eða þegar til framkvæmdanna kæmi, og þá í hvaða hlutföllum, ef um fleiri en einn er að ræða, svo og hvernig almenningi yrði tryggður afnotaréttur af mannvirkinu fyrir sem minnst fé. Allar slíkar áætlunartillögur þarf að undirbyggja og leggja fyrir þing og stjórn til athugunar og afgreiðslu, og það er rétt, að það dragist ekki lengur að ljúka þeim kafla undirbúningsins undir þessar nauðsynlegu framkvæmdir.

Á síðasta ári var brotið blað í iðnsögu Íslendinga. Þá var hér lagður kjölur að fyrsta skipi, sem hér á að byggja úr stáli. Þessari braut, sem hér var verið að ryðja, má ekki loka. En frumskilyrði fyrir því, að hér verði áframhald á, er, að komið verði upp þurrkví og í sambandi við hana smíðabrautum fyrir stálskip með öllum þeim nýtízku tækjum, sem slíkri iðn þurfa að fylgja.

Ég sé, að hæstv. forseti hefur ákveðið tvær umr. um þessa till. og þá væntanlega ætlazt til þess, að hún færi til hv. fjvn. (Forseti: Það er nú ekki nauðsynlegt.) Að vísu ekki nauðsynlegt. Ég vil í sambandi við þetta benda á, að verkefni það, sem hér liggur fyrir, mun ekki kosta nema sáralítið fé. Ég get í sambandi við það upplýst, að sú n., sem skipuð var 1951 og undirbjó þetta verk allt, eins og ég hef lýst og kemur fram í grg., hefur starfað án nokkurrar endurgreiðslu og ekki fengið neitt fyrir sitt verk. Og ég geri ráð fyrir því, að það starf, sem ég hef lýst, muni ekki heldur kosta mikið fé. Þess vegna legg ég ekki til sérstaklega, að till. sé vísað til fjvn., nema hæstv. forseti óski eftir því, en þá er einnig rétt að vísa málinu til hv. allshn., og vil ég óska þess, að það verði gert að lokinni þessari umr.