05.02.1954
Sameinað þing: 31. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (2873)

112. mál, rannsókn byggingarefna

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 2. þm. S-M. flytur þessa till. ásamt mér. Till. er fram komin vegna þess, að margir bændur standa nú á þeim gatnamótum, að þeir geta ekki lengur notað þau gömlu peningshús, sem þeir hafa haft not af til þessa, og verða því að byggja að nýju. En byggingar á nýjum húsum eru mjög dýrar og það svo, að efnalitlir bændur efast um, hvort þeir geti risið fjárhagslega undir þeim kostnaði, sem af því hlýzt. Þetta hefur einnig orðið til þess, að margur bóndinn hefur horfið frá iðju sinni og lent að lokum á mölinni, þannig að það er fyllilega tímabært að sinna þessum málum frekar en verið hefur til þessa.

Ég tel ekki ósennilegt, að það mundi hægt að fá hús, sem er fljótlegt að setja upp og krefjast ekki neinnar fagvinnu, en öll fagvinna er mjög dýr. Hús þessi mundu ef til vill geta verið á málmgrindum og að mestu leyti úr plötum, sem annaðhvort væru úr aluminium, stáli eða asbesti, eða einhverjum öðrum efnum, sem eru lítið þekkt hér á landi. Þetta er fyllilega ástæða til að rannsaka mjög gaumgæfilega.

Á síðustu árum hafa farið fram fjárskipti hér á landi, og vonir standa til, að þau muni vel fara og sauðfé því fjölgi mjög ört á komandi árum, og ekki sízt fyrir það, að ræktun túna hefur aukizt stórkostlega nú síðasta áratuginn. Auk þess má á það benda, að öll tækni, sem nú er í sveitum, er miklu meiri nú en áður var. Heimilisdráttarvélarnar ásamt þeim tækjum, sem hægt er að nota í sambandi við þær, eru margvíslegar, og framleiðslan getur því stóraukizt á komandi árum, ef ekkert sérstakt kemur fyrir. Það má því búast við því, að byggingar á peningshúsum og öllu, sem þeim tilheyrir, verði miklu meiri nú á næstunni en verið hefur til þessa. En það liggur jafnframt ljóst fyrir, að það er ekki hægt fyrir þorra bænda nú að byggja mjög dýrar byggingar. Því geta þeir aldrei fjárhagslega risið undir. Auk þess er landbúnaðinum eða bændum oft láð það, hvað þeirra framleiðsluvörur séu dýrar. En ein leiðin til þess, að framleiðslan geti lækkað, er sú, að það sé hægt að byggja ódýrt, það þurfi ekki að taka mikil og dýr lán eða lán til langs tíma, það sé hægt að greiða þau fljótt niður, en þá ætti framleiðslan, jafnframt því sem hún vex, einnig að geta orðið ódýrari, ef ekki þarf að leggja í gífurlegan kostnað, sem verður að krefjast mjög hækkaðs verðlags.

Það er lagt til hér að ríkisstj. láti athuga þetta í samráði við teiknistofu landbúnaðarins, sem á undanförnum árum hefur haft með þessi mál að gera og stendur vafalaust bezt að vígi að láta rannsaka þetta mál.

Ég vonast til þess, að þessi till. fái skjóta og góða afgreiðslu hér á hv. Alþingi og að lokinni þessari umr. verði henni vísað til allshn. og síðan tekin fyrir til síðari umr.