14.10.1953
Sameinað þing: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (2879)

50. mál, handrit, skjöl og forngripir

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Alþingi hefur áður gert þál. um þann vilja sinn, að byggð verði örugg geymsla fyrir dýrmætustu hluti íslenzkra safna og þannig tilbúin, að þeir séu auðteknir fram til notkunar, þegar þarf. Eftir að búið var í síðustu styrjöld að koma handritum landsbókasafns og merkustu hlutum þjóðskjalasafns í bráðabirgðageymslu í skólahúsi austur í Hrunamannahreppi, samþykkti Alþ. 9. maí 1941 þá þál., sem getið er í grg. þessarar till., og fól ríkisstj. að annast framkvæmdir. Flm. till., Vilmundur Jónsson, sagði í grg. m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þó að núverandi hernaði kunni að slota innan ekki mjög langs tíma, fær enginn sagt fyrir, hvenær næsta hrina kann að ríða yfir eða hin næstnæsta, en svo horfir nú, að tæplega færumst vér fjær hættunum, er lengra líður fram. Sífelldum flutningi á söfnunum fram og aftur er samfara margvísleg áhætta fyrir þau, einkum ef til flutnings þarf að grípa í flaustri eða jafnvel í ofboði. Getur margt orðið þeim að meira eða minna grandi við þær ráðstafanir, þó að beinum hernaðaraðgerðum sé ekki til að dreifa, að því ógleymdu, að jafnan verður meira og minna undir hælinn lagt, hvort sá staðurinn, sem í það og það skiptið er flutt til, sé stórum öruggari en hinn, sem flutt var frá. Þá er ótalið, hvert tjón bóklegri menningu landsins er búið af því, ef söfnin verða löngum og löngum algerlega óaðgengileg bæði fræðiiðkendum og öðrum bókmenntamönnum.“

Um þessa skoðun varð enginn ágreiningur á hv. Alþingi. Frsm. nefndar, er um málið fjallaði, Einar Árnason, þm. Eyf., tók það fram, að n. væri öll sammála flm. um að fela ríkisstj. að undirbúa byggingu sprengiheldrar geymslu til varðveizlu safna í framtíðinni. — Ef sá undirbúningur hefur verið hafinn, þá mun hann að engu orðinn nú eftir liðug 12 ár, og hv. Alþingi hlýtur að sjá í því sóma sinn og skyldu að tryggja, að nú verði sá undirbúningur framkvæmdur hið fyrsta.

Hér er um það að ræða að búa svo um hnútana, að svo miklu leyti sem í mannlegu valdi stendur, að þau þjóðarverðmæti Íslendinga, sem dýrmætust eru og óbætanlegust, ef þau verða fyrir tjóni eða glatast, verði varðveitt í öryggisgeymslu á tiltölulega óhultum stað. Þessi þjóðarverðmæti eru dýrmæt handrit landsbókasafns, ýmis opinber skjöl þjóðskjalasafns og ágætustu gripir þjóðminjasafns. Hér er um slíka dýrgripi að tefla, að íslenzk þjóð yrði stórum fátækari, ef þeir yrðu fyrir spjöllum; það tjón yrði aldrei bætt. Þetta álit á gildi handrita og skjala var á styrjaldarárunum staðfest með því, að þessum kjörgripum var þá komið burt úr Rvík, eins og ég áðan sagði, vegna þess að allt of áhættusamt þótti að geyma þau í reykvískum söfnum.

Nú eru að vísu ekki styrjaldartímar, en þó verður að telja óvarlegt að gera ráð fyrir, að friður haldist um alla framtíð. Saga mannkynsins bendir því miður ekki til þess, að viturlegt sé að gera ráð fyrir ævarandi Fróðafriði. En þá er hins einnig að gæta, að safngripir í reykvískum söfnum eru þar engan veginn öruggir, þótt friðartímar séu. Í þéttbýli bæja og borga er eldhætta jafnan nokkur, og má í því sambandi minnast þess, þótt langt sé um liðið, að Íslendingar hafa beðið óbætanlegt tjón vegna handritabruna. Þá er og rétt að benda á þá staðreynd, að uppskipun hergagna, þ. á m. sprengiefna, hér í Reykjavíkurhöfn hefur nú um sinn aukið mjög alla eld- og sprengihættu. Hníga öll rök að því, að við Íslendingar verðum hið fyrsta að koma upp hentugri öryggisgeymslu fyrir fyrrgreind þjóðarverðmæti. Slík geymsla á að vera tiltæk, ef á þarf að halda, og að öllum líkindum er rétt að geyma þar ýmsa dýrgripi að staðaldri.

Nýtt viðhorf, sem herðir á eftir samþykkt þessarar till. og verklegri framkvæmd á næstu missirum, er vonin um heimkomu Árnasafns og sjálf krafa okkar um endurheimt Árnasafns, og ég vil ekki láta þessa umr. liða hjá, án þess að minna á helztu skyldur, sem fylgja því safni. — Mér þætti líklegt, að íslenzkt Árnasafn í Rvík yrði nafn handritadeildar í nánum tengslum við landsbókasafn og heimspekideild háskólans, sem eðlilegt er að beri veg og vanda af útgáfustarfsemi, sem hlýtur að fylgja. Öðru hverju verða væntanlega sýningar og fræðslutímar til að kynna landsmönnum og öðrum Árnasafn og íslenzk fræði í nútíð og fortíð, en þess á milli mundi safnnotkunin mest vera bundin við fræðimenn, sem afmarka sér verkefni hverju sinni og hafa sjaldan nema fá handrit eða fáa tugi handrita undir rannsókn í einu. Árnasafn, ef til kæmi, að við fengjum það, rannsóknarstofnunin sjálf, getur hvergi þrifizt nema í Reykjavík, og það er sú stofnun og sú starfsemi, sem Alþingi hefur fyrir skömmu ákveðið að láta byggja yfir, þegar þörf krefur.

Verður að treysta, að efndir þess verði góðar, og má í því sambandi minna á hina almennu fjársöfnun til handritahúss. En samkv. því, sem ég var að segja áðan, er engin þörf að geyma nema lítinn hluta af handritum Árnasafns í rannsóknarstofnun þessari hverju sinni hinn hlutinn, meiri hluti safnsins, ætti að dveljast í öryggisgeymslu, a. m. k. þangað til mannkynið hættir að leika sér, eins og nú, að sprengiefnum í hernaði og iðjurekstri. Handrit Árnasafns rúmast öll í einu herbergi, svo að það er ekki of dýrt, að slíkt herbergi sé haft til á tveimur stöðum.

Nefnd sú, sem fær þetta mál til meðferðar, ætti að kynna sér álit safnmanna, t. d. landsbókavarðar og háskólabókavarðar, um þessa hlið málsins, ef henni þykir, eins og ég vænti, ástæða til að gera sér nú þegar bráðabirgðahugmynd um þá húsagerð, sem till. okkar stefnir að.

Þetta sjónarmið, að öryggisgeymslan eigi að vera samastaður dýrgripa öldum saman, að öllu óbreyttu, styður einnig þá skoðun, að hún ætti að vera á einhverjum hinum merkasta stað, sem fundinn verði, bæði að sögugildi og framtíðargildi og með höfuðbólsaðstöðu í sveit, en þó ekki nærri krossgötum, sem hættur fylgja. Við flm. þessarar þáltill. teljum, að þetta sjónarmið geti skipt miklu við staðarval, en ekki sé vert eða ástæða til að gera ákveðna till. um það í bili.

Þær raddir hafa heyrzt með Dönum og munu enn eiga eftir að heyrast, að hernaðarþróunin hafi gert Reykjavík að öllu ótryggari stað í styrjöld en Kaupmannahöfn er. Þessa röksemd gegn handritakröfum okkar verðum við að gera allt til að kveða niður með þeirri fullvissu, að Íslendingar eru fastráðnir að gæta sögulegra dýrgripa sinna sem sjáaldurs auga síns. Það væri að mínu viti glapræði að ætla að geyma til að mynda Edduhandritin, svo að eitthvað sé nefnt, að staðaldri í safnhúsi í Rvík. Ef við skyldum innan skamms, eins og vonir standa vissulega til, endurheimta m. a. þessa dýrgripi, þá dýrgripi, sem Grundtvig gamli kallaði gimsteinana í kórónu norrænnar menningar, þá megum við ekki láta það henda, að vanrækt sé að varðveita þá neitt það, sem í mannlegu valdi stendur.

Við flm. væntum þess, að till. verði vel tekið og að hún fái þá afgreiðslu á hv. Alþingi, sem málefnið krefur. Ég legg svo til, að þessari till. verði að lokinni fyrri umr. vísað til fjvn.