10.03.1954
Sameinað þing: 39. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í D-deild Alþingistíðinda. (2881)

50. mál, handrit, skjöl og forngripir

Frsm. (Pétur Ottesen):

Ég get um afgreiðslu þessarar till. af hálfu fjvn. að mestu vísað til þess, sem í nál. stendur. Fjvn. var öll, eins og þar hermir, sammála um að leggja til við ríkisstj., að hafinn yrði undirbúningur öryggisráðstafana í þessu efni, eins og lagt er til í till. En í tillgr., eins og n. leggur til við Alþ. að hún verði samþ., er framkvæmd þessa máls beint inn á þá braut, að látin verði fara fram á því gaumgæfileg athugun, hvort eigi mætti með kleifum kostnaði koma upp í þessu skyni öryggisgeymslu neðanjarðar við safnahúsið í Reykjavík og ryðja þannig úr vegi þeim erfiðleikum í sambandi við hagnýtingu safnanna, sem því eru samfara að flytja þau burt úr bænum máske um lengri tíma. Er í þessu efni stuðzt við bendingu, sem n. barst um þetta frá landsbókaverði og forstöðumaður þjóðminjasafnsins telur og mjög athyglisverða einnig að því er þjóðminjasafnið varðar.

Fjvn. væntir þess, að samkomulag geti tekizt um það á Alþ. að hrinda þessu öryggismáli áleiðis á þann hátt, sem hér er lagt til. Heimild ríkisstj. til fjárframlaga í þessu skyni er að sjálfsögðu miðuð við þær aðgerðir í málinu, sem fram fara þangað til gengið verður frá fjárlögum fyrir árið 1955. En við afgreiðslu þeirra mundi verða tekin upp fjárveiting til þess að standa straum af framhaldi verksins.