10.04.1954
Sameinað þing: 47. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (2898)

198. mál, fiskveiðasjóður

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það var vissulega rétt hjá hv. síðasta ræðumanni (JóhH), að tillögur í sambandi við eflingu fiskveiðasjóðs eru fram komnar á elleftu stundu. Ég hafði búizt við því, að frá hæstv. ríkisstj. eða hv. stjórnarsinnum hefði fyrr á þinginu komið fram till. eða frv. til að leysa þann vanda, sem útgerðinni er á höndum að því er varðar skort á lánsfé. Því ber vissulega að fagna, að nú skuli loks vera hafizt handa um að hreyfa þessu máli, og verð ég þó að segja, að mér þykir þetta í helzt til óákveðnu formi.

Ég vil minna á það, að mjög snemma á þessu þingi bar ég fram á þskj. 39 þáltill. um smíði fiskibáta innanlands. Þar var fram á það farið, að ríkisstj. yrði falið að láta á næstu tveimur árum smíða hér innanlands 200 litla fiskibáta og auk þess allmarga stærri báta, vélbáta allt frá 30–60 tonn.

Hv. frsm. þeirrar till., sem hér liggur fyrir, minntist lítils háttar á þessa þáltill. í framsöguræðu sinni og gat þess, að hv. fjvn., sem fékk hana til athugunar, hefði ekki gert beina ályktun eða gefið út nál. um hana, en taldi hins vegar, að með flutningi þeirrar till., sem hér liggur fyrir frá fjvn. á þskj. 642, væri að verulegu eða öllu leyti komið til móts við það, sem þar er fram á farið. Að vissu leyti er það rétt, að lánsfjárskorturinn er höfuðatriði þessa máls, en þó voru í þeirri till., sem ég flutti hér snemma á þinginu, nokkur atriði önnur, sem alls ekki koma fram í till. hv. fjvn. Þar var fram á það farið, að sjálf ríkisstj. hefði forgöngu um smíði þessara skipa og seldi þau síðan sjómönnum og útgerðarmönnum með hagstæðum greiðsluskilmálum og vaxtakjörum. Ég lít þannig á, alveg sérstaklega með tilliti til smábátasmíða, svo nefndra trillubáta og lítilla þilfarsbáta, að það sé hentugra fyrirkomulag, verði ódýrara og praktískara á margan hátt að smíða eða semja um smíði margra sams konar báta heldur en að láta hvern og einn, sem hefði hug á því að eignast slíkan bát, berjast við það í fyrsta lagi að afla sér einhvers lánsfjár og síðan að semja við skipasmíði um smíði á einum bát eða kannske tveimur bátum. Ég held, að það hefði verið full ástæða til þess að athuga þá leið, sem ég lagði til í þáltill. þeirri, sem ég áður gat um, að ríkisstj. hefði forgöngu um þessa smíði í nokkuð stórum stíl og síðan gæfist þeim mönnum, sem áhuga hefðu á því að eignast smábáta, kostur á að kaupa þá með hagkvæmum kjörum.

Í sambandi víð smábátana vil ég leggja áherzlu á það, að þetta er ekki neitt smámál, eins og einstaka menn hafa viljað vera láta. Það hefur verið talað um það, að trillur gætu ekki leyst af höndum hin stærri og stórvirkari veiðiskip, og það er alveg rétt, en með hinni auknu fiskigengd, sem þegar er farið að gæta á grunnmiðum vegna stækkunar fiskveiðilandhelginnar, er það tvímælalaust, að veiði á smábátum mun geta orðið mikil lyftistöng fyrir fjölda veiðistöðva víðs vegar um land og geta veitt fjölda manns góða atvinnu; og þess ber að gæta, að miðað við stofnkostnað er hér um að ræða mjög hagkvæma útgerð. Yrðu t. d. byggðir 200 litlir fiskibátar, 4–6 tonna, þá mundu þeir sennilega fá veitt ekki færri en 800 manns atvinnu, en þó benda líkur til, að smíðakostnaður 200 slíkra báta mundi ekki vera miklu hærri en smíði eins nýtízku togara. Þetta vil ég benda á til þess að sýna fram á það, að hér er um athyglisvert mál að ræða. Það er einnig vitað, að áhugi á þessari útgerð hefur mjög farið vaxandi einmitt eftir að fiskveiðitakmörkin voru færð út og líkurnar fyrir fiskgengd á grunnmið jukust. En ég hygg, að til þess að þeir, sem hafa hug á því að láta smíða smábáta af þessum gerðum, gætu notfært sér lán úr fiskveiðasjóði, mundi þurfa breytingu á lögum sjóðsins. Ég er að vísu ekki nægilega kunnugur þeim efnum, en þó mun það vera svo, að þessir litlu bátar hafa átt erfitt uppdráttar að því er varðar lán úr fiskveiðasjóði, erfiðara en hinir stærri bátar. Það er því m. a. með tilliti til þessa og margs annars fullvíst, að löggjöfinni um fiskveiðasjóð þarf að breyta, hana þarf að endurskoða, eins og þegar er komin fram þáltill. um og hæstv. forsrh. hefur lýst yfir að muni verða gert.

Ég vil svo að lokum undirstrika nauðsyn þess, að undinn verði að því bráður bugur að afla verulega aukins fjármagns til fiskveiðasjóðs. Það var sagt hérna áðan, sem að vísu er rétt, að ekki sé hægt að gera alla hluti í einu. En á það má benda í sambandi við þetta mál, að útgerðin er og hlýtur að verða meginundirstaða þess, sem gert verður á öðrum sviðum. Það eru engar líkur til þess, að hægt sé að framkvæma þær fyrirætlanir, sem undanfarna daga hafa verið samþykkt um l. og þáltill. hér á hinu háa Alþ., fyrirætlanir um nauðsynlegar og þarfar framkvæmdir, svo sem rafvæðingu landsins og ýmis aukin þægindi, ef einmitt útgerðin og aðrir undirstöðuatvinnuvegir geta ekki eflzt jafnhliða og lagt til það, sem til framkvæmdanna þarf. Ég vil því vænta þess, að hæstv. ríkisstj. láti ekki sitja við orðin tóm, þegar hún væntanlega tekur nú við ákveðnum óskum og vilja Alþ. í sambandi við þessi mál með samþykkt þeirra tveggja þáltill. um eflingu fiskveiðasjóðs og um endurskoðun á lögum hans, sem hér liggja fyrir. Ég vil vænta þess, að hún láti einskis ófreistað til að afla nauðsynlegs fjár í því skyni að efla sjóðinn, svo að hann geti komið að þeim notum, sem nauðsyn ber til.