12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (2902)

198. mál, fiskveiðasjóður

Jóhann Jósefsson:

Það voru aðeins örfá orð til þess að leiðrétta það, sem hv. 5 landsk. þm. vildi hafa eftir mér um það, að ég vildi leyfa hóflausan innflutning á bátum frá útlöndum. Það voru aldrei mín orð, enda dettur mér ekki í hug að halda slíku fram. Hitt er annað mál að eins og þessum bátasmíðamálefnum er skammt komið hvað snertir, afskipti þings eða ríkisstjórnar, þá er það sýnt, að ef þeirri stefnu verður haldið, sem mér er tjáð af þeim mönnum, sem fara með innflutningsmál, að sé núna stefna ríkisstj., að veita ekki innflutningsleyfi fyrir neinum bátum, fyrr en bátasmíðarnar innanlands eru komnar í eitthvað betra horf, þá er sýnt, að það getur ekki annað en leitt til vandræða, og ég fór fram á það, að það yrði ekki sett loka fyrir þetta á þann hátt, sem nú virðist vera. En hitt voru ekki mín orð, að það ætti að eiga sér neitt taumleysi stað í þessum efnum.

Ég er líka sannfærður um það — og enn þá betur nú en ég hef fyrr verið — að orð mín um að mismunur á innkaupsverði og smíðaverði báta væri um 4 þús. kr. á smálestina, eru sízt ofmælt, ég hef sjálfsagt tekið þar of lítið í árinni, en ekki of djúpt. T. d. í kjördæmi hv. 5. landsk. hefur nýlega verið smíðaður fiskibátur af venjulegri gerð, sem kostar rösklega milljón króna, og þótt aldrei nema góð lán stæðu til boða út á slíkan bát, þá stendur þó verðið óhaggað og yrði skuldabaggi á þeim, sem keypti þann bát, — hversu langan tíma skal ég ekki segja. Þetta bendir í þá átt, að það þarf að taka til athugunar, eins og ég hélt fram, hvort lánsleiðin er ein út af fyrir sig nægileg í þessu efni. Ég held, að hún sé ekki nægileg og að það þurfi þess vegna að hafa þetta sjónarmið líka.

Ég skal svo ekki tefja umr. um þetta mál, það var ekki mín ætlun. Ég er samþykkur till. og í sjálfu sér samþykkur öllum þeim rökum. sem hv. 5. landsk. þm. færði fyrir bátasmíði innanlands, enda hef ég notað sömu rök, bæði innan og utan þings, fyrir nauðsyn þess. En hitt er annað mál, að á meðan svo er ástatt, að ekki er kominn rekspölur á þetta mál, þannig að útvegsmenn og sjómenn geti sætt sig við verðið á skipunum, þá má hæstv. ríkisstj. og innflutningsyfirvöld ekki hindra einhvern innflutning á bátum, til þess að menn standi ekki uppi í vandræðum og í skipaleysi þennan tíma, sem líða kann, þangað til við höfum hæfilega góð og hæfilega ódýr innlend smíðuð skip til að bjóða.