12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (2908)

203. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Flm. þessarar till. eru, auk mín, hv. þm. Snæf. (SÁ), hv. 5. landsk. (EmJ), hv. þm. Siglf. (EI) og hv. þm. V-Ísf. (EirÞ). Við leggjum til, að ríkisstj. verði falið að láta fara fram á þessu ári endurskoðun á l. um fiskveiðasjóð Íslands m. a. í því skyni, að starfsfé sjóðsins og starfssvið verði aukið, og leggja frv. til nýrra l. um sjóðinn fyrir næsta Alþ.

Fiskveiðasjóður Íslands, með því nafni, er orðinn nokkuð gömul stofnun. Hann var stofnaður með l. frá Alþ. árið 1905, en frv. til þeirra laga var flutt af dr. Valtý Guðmundssyni, sem var einn af forustumönnum íslenzkra stjórnmála um aldamótin. Svo var til stofnað, að nokkur hluti sekta fyrir landhelgisbrot rynni í sjóðinn auk lítils háttar framlags úr ríkissjóði. Var sjóðnum þannig í upphafi séð fyrir árlegum tekjum, þótt litlar væru, og stóð svo fram til 1920, eða um það bil, að landhelgissjóður var stofnaður, en .þá voru honum fengnar sektatekjurnar.

Ekki var starfsemi fiskveiðasjóðs umfangsmikil fyrstu áratugina og starfssvið hans fremur óákveðið. Öðru hverju lánaði hann til skipa, eftir því sem efni leyfðu, og geta má þess til fróðleiks, að hann lánaði á sínum tíma talsvert fé til hafnargerðarinnar í Reykjavík og nokkurra annarra hafna. Laust fyrir 1930, þegar l. fiskveiðasjóðs voru tekin til endurskoðunar, voru rúmlega af fé sjóðsins í lánum til hafnargerða og um 1/8 í lánum hjá bátaútveginum. En árið 1930 voru sett ný l. um sjóðinn og hlutverk hans ákveðið, að veita stofnlán til fiskibáta og iðnfyrirtækja í þágu sjávarútvegsins. Var þá og starfsfé hans aukið þannig, að lagt var á útfluttar sjávarafurðir svo nefnt fiskveiðasjóðsgjald, 1/8 af hundraði af verðmæti útflutningsvaranna. Rétt fyrir og eftir 1940 voru svo sett ný l. um fiskveiðasjóð. Voru þá verkefni hans í þágu bátaútvegsins enn aukin og honum jafnframt afhent innflutningsgjald það, er þá hafði um langan tíma verið innheimt í ríkissjóð, og hefur hann haldið því síðan. Við þetta uxu mjög árlegar tekjur sjóðsins, og honum tók að safnast höfuðstóll, svo að um munaði. Jukust þá lánveitingar úr sjóðnum að sama skapi.

Eins og tekið er fram í grg., átti fiskveiðasjóður um síðustu áramót um 42 millj. kr. útistandandi í 1. veðréttar lánum samkv. lögum, og voru lánin rúmlega 400 talsins. Í grg. á þskj. 712 sést líka, hvernig þessi lán skiptast á milli byggðarlaga í landinu. Það yfirlit ber með sér, að flestar eða allar verstöðvar landsins, þar sem einhver útgerð er að ráði, hafa notið aðstoðar sjóðsins að meira eða minna leyti. Til viðbótar því, sem stendur í grg., þykir mér rétt að gefa nokkrar upplýsingar um það, til hvers konar framkvæmda þessum lánum hefur verið varið, og er þá einnig miðað við síðustu áramót.

Lán til skipa voru þá 305, samtals að upphæð rúmlega 26 millj. kr. Lán til hraðfrystihúsa 29, samtals rúmlega 5½ millj. kr. Lán til fiskþurrkunarhúsa 28, samtals 2.2 millj. kr. Lán til fiskimjölsverksmiðja 21, samtals 4.4 millj. kr., og lán til annarra fyrirtækja á vegum bátaútvegsins 25, samtals 3.7 millj. kr.

Auk þessara lána, sem öll eru 1. veðréttar lán, átti sú deild sjóðsins, sem lánar út á 2. veðrétt, rúmlega 900 þús. kr. útistandandi um síðustu áramót.

Þessar tölur eru fengnar frá sjóðnum samkvæmt yfirliti hans um skiptingu lána. Fiskveiðasjóður hefur til þessa að langmestu leyti starfað með eigin fé og má nú heita skuldlaus. Í gildandi l. um hann er þó heimild til lántöku allt að 4 millj. kr., sem er að sjálfsögðu allt of lág upphæð, ef á annað borð væri að því horfið að afla lánsfjár til starfseminnar, sem raunar virðist óhjákvæmilegt og eðlilegt, þar sem sjóðurinn hefur nú safnað talsverðum eignum og þarf að auka starfsemi sína.

Rétt er, að það komi fram, að auk þeirra útistandandi lána, sem, eins og ég hef áður gert grein fyrir, námu þeirri upphæð, sem ég áður hef nefnt, átti hann þá talsverða innstæðu til að mæta aðkallandi verkefnum. Það var upplýst hér í umræðum um annað skylt mál af hv. 5. þm. Reykv., að þessi innstæða hefði veríð 19 millj. kr., en þetta fé safnaðist fyrir vegna þess, að litið hefur verið um bátakaup undanfarin ár.

Hins vegar er það nú svo, að eftirspurn eftir lánum var mjög vaxandi síðari hluta ársins, sem leið, og er enn á þessu ári. Ber þar margt til. Má þá fyrst telja það, að margir útgerðarmenn hafa nú undanfarið verið að skipta um vélar í bátum sínum, og heldur það enn áfram á þessu ári, en vélar hinna nýrri skipa hafa margar reynzt endingarlitlar. Margir hafa nú undanfarið fest kaup á skipum eða virðast vera í þann veginn að gera það, ef fé verður fyrir hendi. Í því sambandi má minna á það, að á s. 1. ári voru veitt innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir 21 vélbát, og nýlega hefur verið skýrt frá því hér á Alþ., að nokkrir stórir eða meðalstórir bátar séu í smíðum innanlands. Smíði lítilla vélbáta virðist og hafa aukizt, og hefur trú manna á útgerð slíkra báta vaxið við það, að togurum og dragnótaskipum er nú, með hinni nýju tilskipun um friðun landhelginnar, bannaður aðgangur að miðum á fjörðum inni.

Þá er alltaf mikil þörf á lánum til fiskiðjuvera á ýmsum stöðum á landinu, og þess verður mjög vart, að þær lánsupphæðir, sem sjóðurinn hefur getað veitt út á 1. veðrétt, hrökkva of skammt til framkvæmda.

Í lok marzmánaðar s. l. var þannig ástatt, að búið var að veita loforð fyrir lánum, sem samtals námu álíka upphæð og innstæða sú, er sjóðurinn átti um áramót. En fyrir lágu þá lánbeiðnir, sem ekki hafði verið svarað, samtals 18½ millj. kr., langmest til skipa.

Sjóðurinn fær að vísu allmiklar tekjur á árinu, bæði af útflutningsgjaldi og vexti af útistandandi lánum. Ég ætla, að þessar tekjur, þ. e. a. s. tekjur af útflutningsgjaldi og vaxtatekjur, hafi á árinu 1953 verið samtals tæpar 9. millj. kr., en það er ekki hægt að vita fyrir fram, hverjar þær verða á þessu árí, þar sem óvíst er, hversu miklu útflutningsgjaldið nemur. Þar við bætast svo afborganir af lánum þeim, sem sjóðurinn á útistandandi, þær sem inn koma á árinu, þ. e. a. s. afborganir af rúmlega 40 millj. kr., en þessi lán eru flest veitt til 15–20 ára, nokkur þó til skemmri tíma. En lánbeiðnir eiga líka eftir að aukast til muna á árinu, því að mikið af þeim beiðnum, sem nú liggja fyrir, er umfram það, sem venjulegt er og jafnan segir til sín á sínum tíma. Það er að vísu trúlegt, að eitthvað af því lánsfé, sem búið er að lofa eða lofað verður á árinu, komi ekki til útborgunar fyrr en á næsta ári, af því að smíði eða framkvæmdum verður ekki lokið á þessu ári, en því miður verður þó að ganga út frá því, að fiskveiðasjóð skorti fé síðari hluta ársins til að geta haldið áfram starfsemi sinni svo sem þörf krefur, og þá því fremur á næsta ári, nema sérstakar ráðstafanir verði gerðar til að auka starfsfé hans.

Við flm. þessarar till. höfum komizt að þeirri niðurstöðu í sambandi við athugun á möguleikum til að auka starfsfé sjóðsins, að rétt sé að láta fara fram endurskoðun á lögum sjóðsins á milli þinga og að frv. til nýrra l. um fiskveiðasjóð Íslands verði lagt fyrir næsta Alþ. Gildandi lög um sjóðinn eru að stofni til frá árinu 1943, en á þeim l., þ. e. a. s. lögunum frá 1943, eins og þau voru gefin út það ár, hafa síðan verið gerðar breyt. nokkrum sinnum, eins og nánar er skýrt frá í grg. till. Það verður að teljast rétt, að öll fyrirmæli um almannastofnun eins og fiskveiðasjóð séu í einum l., eftir því sem við verður komið.

Þá er og á það að minna, að undanfarið hafa verið uppi á Alþ. og víðar raddir um, að sumum atriðum í l. þurfi að breyta, og okkur flm. er kunnugt um, að stjórnendur sjóðsins eru líka þeirrar skoðunar, að breytinga sé þörf, enda ekki óeðlilegt, þar sem l. eru nú orðin 11 ára gömul og margt hefur breytzt hér á landi á þeim tíma. Í sambandi við endurskoðunina ætlumst við til, að möguleikarnir til starfsfjáraukningar séu teknir til sérstakrar athugunar og kveðið á um hana í hinum nýju lögum.

Að öðru leyti skal ég ekki gera gildandi l. um fiskveiðasjóð sérstaklega að umræðuefni eða galla þá, sem á þeim eru taldir vera. Þó vil ég nefna það, sem að er vikið í grg. till., að æskilegt væri að víkka eitthvað starfssvið sjóðsins frá því, sem það er nú, og leyfa honum að lána til fleiri tegunda framkvæmda í þágu bátaútvegsins en hann nú gerir. T. d. væri mjög æskilegt, að sjóðurinn gæti lánað til verbúða, einkum fyrir þá, sem þurfa að sækja sjó utan heimamiða. Þá hefur og komið fram áhugi fyrir því, að fastri skipan verði komið á veitingu lána til opinna vélbáta, enda þótt sjóðurinn hafi aukið þá lánastarfsemi nokkuð 3 seinni tíð. Áður hef ég minnzt á óskir, sem uppi hafa verið um að hækka lánin, og er það til athugunar í því sambandi, hvort sjóðurinn ætti ekki að veita eingöngu 1. veðréttar lán og þá eitthvað hærri en nú.

Ég mun nú senn ljúka máli mínu. Það vil ég þó segja að lokum, að bátaútveginum um land allt er það mikil nauðsyn að eiga vísan aðgang að hæfilega háum og hagkvæmum stofnlánum, bæði til þess að hægt sé að koma upp skipum í stað þeirra, sem ganga úr sér eða eyðileggjast, og til að koma fótum undir útgerð á þeim stöðum, ekki sízt í sumum hinna fámennari sjávarþorpa, þar sem hentug skip skortir til sjósóknar, svo og til þess að koma upp aðstöðu til að tryggja sem bezt verkun og vinnslu aflans í landi og auka sem mest verðmæti hans til útflutnings.

Bezta úrræðið í þessu efni er að efla fiskveiðasjóð Íslands, hina gömlu lánsstofnun bátaútvegsins, og reyna að sníða starfshætti hans sem bezt eftir þörfum bátaútvegsins, hvort sem hann er stór eða smár, í sjávarplássum landsins. Er þess að vænta, að ríkisstj. eða þeir, sem að endurskoðun vinna fyrir hana, ef till. okkar verður samþ., kynni sér, eftir því sem tök eru á, viðhorf manna víðs vegar við sjávarsíðuna til þess máls.

Þar sem nú liður að þinglokum, óska ég ekki eftir, að málinu verði vísað til n., en vænti þess fyrir hönd okkar flm., að till. verði samþykkt.