07.04.1954
Sameinað þing: 45. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (2922)

100. mál, milliþinganefnd í heilbrigðismálum

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós nokkra undrun mína yfir meðferð þessa máls og hvernig það er lagt fyrir hæstv. þing.

Það segir í nál. frá fjvn., að n. hafi athugað þáltill. þessa og sent hana heilbrigðisstjórninni til umsagnar. Ekki þykir n. ástæða til þess að láta þm. vita um umsögn heilbrigðisstjórnarinnar í nál., en hins vegar er lagt til, án þess að menn fái að sjá það eða meta það, að till. verði samþ. Ég hafði búizt við, að í framsögu yrði gerð grein fyrir þessu og þm. fengju að heyra, hvaða till. væru uppi hjá heilbrigðisstj., því að sannast að segja finnst mér till. þessi öll með nokkrum eindæmum og ekki sízt þegar athuguð er niður í kjölinn sú grg., sem henni fylgir.

Það er að vísu svo, að Framsfl. eða ráðherrar úr hans flokki hafa farið með heilbrigðismálin að undanförnu, og skyldi maður ætla, að for m. Framsfl. hefði haft á þeim tíma aðstöðu til þess að koma á framfæri umbótum í heilbrigðismálum án þess að þurfa að leggja til, að mþn. yrði skipuð til þeirra verka, eftir að ráðherra úr Framsfl. fer ekki lengur með heilbrigðismálin.

Finnst mér þess vegna, að till. þessi sé nokkuð mikið vantraust í garð, ja, fyrst og fremst þá líklega í garð þess manns í Framsfl., sem með stjórn heilbrigðismálanna hefur farið í ráðherrastóli að undanförnu. Það get ég ekki út af fyrir sig haft neitt við að athuga, og þar verða þeir að sakast hvor við annan, form. Framsfl. og þessi fyrrv. heilbrmrh. En það segir hv. flm. í grg., að flestir, sem hugleiða efni heilbrigðislöggjafarinnar eða athuga till., geri sér ljóst, að þeirrar athugunar, sem till. stefnir að, sé hin fyllsta þörf. Það koma svo fram í grg. fleiri atriði, eins og t. d. það, að miklu skipti, að þeim stórfelldu fjármunum, sem til þessara bygginga er varið, til heilbrigðisstofnana, sé ekki að verulegu leyti á glæ kastað. Hér hefur verið varið milljónatugum til heilbrigðismála á undanförnum árum og það undir forustu Framsfl., sem hefur haft stjórn heilbrigðismálanna, eða ráðh. úr þeim flokki, og þá heyrir maður það, að það þurfi að gera einhverjar ráðstafanir, svo að þessum milljónatugum sé ekki á glæ kastað. „Það er komið alveg nóg af því í þjóðfélagi okkar,“ segir hv. flm., „og mætti nefna þess mörg dæmi, að byggt er svo skipulags- og fyrirhyggjulítið, að við vöknum skyndilega upp við þann vonda draum, að opinberar eða hálfopinberar byggingar eru settar niður á alröngum stöðum. Hafa þessi mistök kostað stórfé, sem er á glæ kastað.“ Ég held, að það væri meira tilefni til þess að skipa rannsóknarnefnd til athugunar á því, hvernig heilbrigðismálastjórninni hafi farið þessi mál úr hendi á undanförnum árum, þegar það er upplýst og gefið í skyn, að það hafi verið kastað á glæ stórfé í meðferð þessara mála og á þeim tíma, sem ráðh. úr Framsfl. hefur farið með þessi mál.

Ég skil ekki í því, hvernig stendur á því, að hæstv. fjvn. hefur ekki tekið þetta mál fastari tökum og látið sér til hugar koma að rannsaka nokkuð þetta mál af tilefni þeirra stórfelldu getsaka, sem fram koma í grg. um stórkostlegar misfellur í meðferð þessara mála. Ég hef enga trú á því, eins og hv. flm. kemst að orði, að samþykkt þessarar till. mundi koma í veg fyrir slík mistök og óþörf fjárútlát eins og hann kemst að orði að átt hafi sér stað í þessum efnum. Sannast að segja verða svo nokkuð endasleppar niðurstöðurnar, því að efni þessarar till., eins og hún er orðuð, er að gera till. um fjölda, stærð og staðsetningu sjúkrahúsa og hjúkrunarheimila í landinu og að gera till. um almennar ráðstafanir til eflingar heilsuvernd og heilbrigði með þjóðinni, en helztu rökin í grg. eru, að það þurfi að fræða þjóðina um heilsuvernd og heilbrigði miklu meira en verið hefur og það sé einmitt verkefni þessarar nefndar að gera ákveðnar till. um það atriði, sem er alls ekki vikið sérstaklega að í efni till. Þó að það segi í grg. fyrir einhverri till., að nefnd eigi að gera eitthvað annað en efni till. stendur til, þá efast ég um, að það verði álitið verkefni nefndarinnar.

Ég held, að fá mál hafi borið að á þessu þingi með undarlegri hætti og undarlegri afgreiðslu en þetta, og mér finnst skörin vera farin að færast upp í bekkinn, þegar hv. þingnefndir leita umsagna heilbrigðismálastjórnarinnar og láta ekki svo lítið að gera grein fyrir því í nál. eða á annan hátt fyrir þm., svo að þeir geti á grundvelli þeirra rannsókna, sem þar liggja fyrir, gert sér grein fyrir a. m. k. þeim álitsgerðum, sem úr þeirri átt hafa komið.

Að öllu athuguðu verð ég að segja, að ég hef enga trú á því, að neinn gróður vaxi upp af þessari till., sem til umbóta megi verða í heilbrigðismálunum, þegar athugað er, hvernig hún er til komin, heldur sé hún fyrst og fremst flaustursverk og einhvers konar sýndartill., sem þm. er mjög erfitt að gera sér grein fyrir eiginlega vegna hvers og til hvers er fram komin. Það er mikil gæzka hjá hv. fjvn. að fara svo léttum höndum um þetta mál að leggja til, að þessi till. hv. þm. Str. (HermJ) verði samþ., eins og í nál. greinir. Ég tel óverjandi annað en að mönnum gefist kostur á því að kynnast áliti heilbrigðismálastjórnarinnar og vil beinlínis fara fram á það við hæstv. forseta, að umr. um þetta mál verði frestað og þm. fái tækifæri til þess að kynna sér þessi gögn.